Jafnréttisfræðsla fyrir dómara

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:48:01 (5795)

1996-05-08 14:48:01# 120. lþ. 133.6 fundur 466. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir dómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:48]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir fyrirspurn hennar um leið og ég vil nota tækifærið og benda á að nú bíður umræðu í þinginu þáltill. um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni þar sem m.a. er lagt til að skipuð verði nefnd sem hafi m.a. það hlutverk að tryggja að dómarar fái fræðslu um kynferðislega áreitni ásamt reyndar fleiri starfsmönnum ríkisins og trúnaðarmönnum. Það er von mín að hæstv. dómsmrh. taki þetta mál mjög föstum tökum, óháð því hvernig þessi þáltill. fer og ég fagna því að svar hans bendir kannski til þess. En þeir dómar sem tengjast mismunun gegn konum og ofbeldi gegn konum að undanförnu í þjóðfélaginu hafa valdið almennri hneykslan og reiði í þjóðfélaginu og mjög mikilvægt er því að mínu mati að dómarar fræðist um kynferðislega áreitni áður en slík mál fara að koma frekar til meðferðar í dómskerfinu.

Að lokum vil ég taka undir að það er mjög mikilvægt að fræðsla um þessi mál verði tekin upp í lagadeild til þess að lögfræðingar og dómarar framtíðarinnar verði betur upplýstir um þessi mál. Að lokum má benda á niðurlagsorð greinar í Voginni þar sem stendur: ,,Það eru dómarar landsins sem ráða því hvort túlkun á réttindum sem jafnréttislögum er ætlað að tryggja verði jafnrétti kynjanna til framdráttar eður ei.``