Álag á vörugjald af millifrakt í alþjóðaflutningum

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 16:07:52 (5826)

1996-05-08 16:07:52# 120. lþ. 133.8 fundur 453. mál: #A álag á vörugjald af millifrakt í alþjóðaflutningum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[16:07]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 786 hef ég lagt fram fyrirspurn til samgrh. um álag á vörugjald af millifrakt í alþjóðaflutningum. Tilefni þessarar spurningar er sú að á sl. ári höfðu Grænlendingar áhuga á að taka upp stóraukna milliflutninga til Evrópu og Bandaríkjanna í gegnum Reykjavíkurhöfn. Tekjur Reykjavíkurhafnar eru byggðar upp á fimm vörugjaldsflokkum en þar er séríslenskt fyrirbrigði, 25% álag á vörugjald, lagt á gjaldstofn hafna og er nýtt til viðbótar framlagi samkvæmt fjárlögum í Hafnabótasjóð. Þetta álag nam um 130 millj. kr. á sl. ári.

Til að ná umsvifum milliflutninga Grænlendinga til Reykjavíkurhafnar í samkeppni við Færeyinga samþykkti hafnarstjórn lækkun gjaldskrár. En samgrn. neitaði að taka tillit til lækkunar gjalda hafna, vörugjalda og hélt fast við 25% álag á auglýsta vörugjaldsflokka. Því fór sem fór. Í færeyskum höfnum fara nú fram milliflutningar Grænlendinga, ríki og borg missti af tekjum og atvinnutækifæri töpuðust. Því hef ég lagt fram fyrirspurn, svohljóðandi til hæstv. samgrh.:

,,Hyggst ráðherra leggja af eða lækka 25% álag á vörugjald af millifrakt í alþjóðaflutningum sem rennur í Hafnabótasjóð, sbr. hafnalög nr. 23/1994? Ef svo er ekki, hver eru rökin fyrir því?``