Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 17:05:42 (5859)

1996-05-09 17:05:42# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[17:05]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra spyr hvort ég sé tilbúin til að beita mér fyrir því með honum að lögum um fæðingarorlof verði breytt. Það er eðlilegra að hæstv. ráðherra snúi sér til opinberra starfsmanna sjálfra, sem hann hefur ekki gert, til þess að ræða hvernig með þau mál skuli farið. Það sem vakti fyrir mér með þessu var að inna eftir áliti hæstv. ráðherra á því hvort að með þessu væri þá verið að opna fyrir möguleika til þess að breyta reglugerð eða semja um það í kjarasamningum að opinberir starfsmenn fengju sex mánaða réttindi. Og nú hefur hæstv. ráðherra húsbóndavaldið, atvinnurekendavaldið gagnvart opinberum starfsmönnum. Þá væri fróðlegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann væri tilbúinn að beita sér fyrir því að karlar fengju einnig sex mánaða fæðingarorlof líkt og konur. Hver er afstaða ráðherrans til þess? Mér finnst hún ekki hafa komið fram. Hann hefur áhyggjur af því sem snýr að eigin réttindum og vill samræma þetta sem ég tel alveg hið besta mál. En ég finnst mjög mikilvægt að fá fram hver afstaða ráðherrans til þess að opinberir starfsmenn, karlar, hafi sömu réttindi, fái sex mánaða fæðingarorlof.