Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 13:45:57 (5877)

1996-05-10 13:45:57# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[13:45]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Sighvati Björgvinssyni fyrir að biðja um þessa umræðu. Fellur hún vel að tilgangi mínum með því að láta semja skýrslu um endurskoðun útvarpslaga. Fyrir mér vakti að fá umræðugrundvöll að hugmyndum til frekari úrvinnslu. Vænti ég þess raunar ekki að verkinu yrði gert svo hátt undir höfði að á mesta annatíma Alþingis yrði beðið um lengri gerð af umræðu utan dagskrár um það. Slík umræða fer þó fram á þessari stundu og vil ég ítreka þakkir mínar til upphafsmanns hennar.

Áður en ég ræði höfuðatriði þessa máls, stöðu Ríkisútvarpsins og álits skýrsluhöfunda, vil ég víkja að þremur atriðum sem hefur verið varpað fram vegna skýrslunnar. Í fyrsta lagi hefur verið gagnrýnt hvernig ég stóð að því að velja menn til þessa verks. Sumir hafa talið að fulltrúar allra flokka hefðu átt að koma að málinu. Aðrir segja að ég hefði a.m.k. átt að velja yfirlýsta framsóknarmenn til að vinna að skýrslugerðinni. Raunar vakti ekki fyrir mér að kalla flokksbræður mína til þessa verks heldur valdi ég formann útvarpsráðs, mann sem hefur verið í forustu á einkareknum ljósvakamiðli, formann nefndar sem samdi á síðasta kjörtímabili frv. til laga um breytingu á útvarpslögunum, og síðan aðstoðarmann minn. Til að safna efni og skrifa texta valdi ég ungan stjórnmálafræðing sem hefur m.a. unnið að því að búa til efni í sjónvarp. Tilgangurinn var ekki að finna lægsta samnefnara heldur setja fram tillögur og hugmyndir til frekari umræðna.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt þá tillögu mína að nú taki stjórnarflokkarnir málið til umræðu sín á milli og þessar umræður í dag munu væntanlega gefa vilja annarra stjórnmálaflokka til kynna. (SvG: Hvenær var það samþykkt?) Með leyfi forseta vil ég fá að lesa dóm í forustugrein Alþýðublaðsins 7. maí sl. um efni skýrslunnar. Þar segir:

,,Það hlýtur að vera ærin ástæða til að fagna því að nú skuli loks eiga að aðhafast, ekki síst vegna þess að flestar hugmyndirnar sem koma fram í áliti nefndar menntmrh. virðast skynsamlegar og þarfar.``

Sama dag segir fréttastjóri Tímans í grein í því blaði að ótrúlegt sé að menn láti vinnulag mitt í þessu efni hafa áhrif á framhaldið, enda er það skoðun fréttastjórans að skýrsluna sé vel hægt að nota sem umræðugrundvöll til framhaldsvinnu einmitt vegna þess að hún kom inn á þau svið sem bannhelgi hafi umlukt á liðnum árum, eins og það er orðað í Tímanum. Þessi orð staðfesta fyrir mér að vinnulag mitt hafi verið rétt.

Í öðru lagi hefur því verið slegið fram að með því að láta vinna þetta verk hafi ég verið að sólunda opinberu fé. Þessu mótmæli ég eindregið. Starfshópurinn var settur á laggirnar sl. haust og lauk störfum 8. mars. Hélt hann marga fundi og í fjóra og hálfan mánuð sinnti verkefnaráðinn starfsmaður í ráðuneytinu m.a. störfum fyrir hópinn. Fékk hann 490 þús. kr. fyrir þá vinnu. Nefndarmenn fengu alls 260 þús. kr. og kostnaður við skýrsluna og útgáfu hennar sem er 100 síður auk fylgiskjala er 210 þús. kr. eða samtals kostnaðurinn 960 þús. kr. Er ég raunar þeirrar skoðunar að fá fyrirtæki eða stofnanir fái menn til að vinna slík verk ódýrar fyrir sig en einmitt ráðuneyti. Er rannsóknarefni að bera saman hvað greitt er fyrir skýrslur af þessu tagi annars vegar og hins vegar fyrir undirbúningsvinnu eða hönnunarstörf vegna verklegra framkvæmda.

Í þriðja lagi hefur því verið haldið fram að skýrslunni sé stefnt gegn Ríkisútvarpinu og sé til marks um illan hug í garð þess. Ég mótmæli slíkum staðhæfingum sem órökstuddum með öllu. Vil ég því til áréttingar vitna til orða sem Heimir Steinsson útvarpsstjóri lét falla á opinberum fundi hinn 7. maí sl. Hann sagði undir lok ræðu sinnar, með leyfi forseta:

,,Ef ég reyni að móta mér heildarmynd af skýrslu starfshóps um endurskoðun á útvarpslögum verður hún eitthvað á þá lund að í grundvallaratriðum sé skýrslan einkar jákvæð fyrir Ríkisútvarpið. Ýmis konar framkvæmdaratriði eru hins vegar álitamál og þarfnast frekari umræðu. Verk starfshópsins er hið þarfasta og mun vonandi nýtast vel í þeim skoðanaskiptum sem fram hljóta að fara á komandi tíma uns niðurstaða er fengin í mynd hins langþráða markmiðs alls þessa starfs, þ.e. nýrra útvarpslaga. Þeirra laga bíður Ríkisútvarpið með nokkurri eftirvæntingu og svo mun um fleiri. Ný útvarpslög munu eyða ýmis konar óvissu og marka íslenskum ljósvakamiðlum stefnuna á veginn fram,`` sagði útvarpsstjóri.

Með þessari tilvitnun, herra forseti, lýkur svari mínu við þeim athugasemdum sem fram hafa komið og snerta í raun annað en efni um endurskoðun útvarpslaga.

Tækninni við dreifingu útvarps- og sjónvarpsefnis fleygir fram. Sjónvarp, tölva og sími munu fyrr en varir verða að einu heimilistæki sem við getum notað til að semja þá dagskrá er við kjósum hvert og eitt. Fjölmiðlabyltingin mun geta af sér nýja einkamiðla. Ég tel brýnt að íslenskt efni verði tiltækt í ríkara mæli við hinar nýju aðstæður og íslenska ríkið leggi sitt af mörkum til þess. Þar gegnir Ríkisútvarpið mikilvægu hlutverki en ekki í þeirri mynd sem það er nú. Séu menn sammála um þessa grundvallarforsendu er næsta verkefni að skilgreina hvað í henni felst. Starfshópurinn gerir það með ágætum þegar hann segir, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að Ríkisútvarpið verði skilgreint sem opinber þjónustustofnun. Lagt er til að menning og menningarhlutverk RÚV verði skilgreint vítt en í höfuðatriðum sem kaup, gerð og útsending dagskrárefnis af ýmsu tagi svo sem menningar-, lista-, fræðslu-, frétta- og skemmtiefnis og vandaðs erlends efnis.``

Frá mínum bæjardyrum séð skiptir ekki máli hvað Ríkisútvarpið sendir hljóð- og sjónvarpsefni á mörgum rásum. Nýta ber hina fullkomnustu tækni á hverjum tíma. Einnig skiptir máli að Ríkisútvarpið sé rekið með hagkvæmum hætti. Það er meðal rakanna fyrir því að innheimta afnotagjalda verði lögð niður og annaðhvort verði nefskattur tekinn upp eða stofnunin sett á fjárlög. Kostnaður við innheimtu afnotagjalda er yfir 70 millj. kr. á ári.

Ríkisútvarpið á ekki að reka eigið dreifikerfi heldur semja við Póst og síma og taka upp afnot af ljósleiðarakerfinu. Það er ljóst að Póstur og sími stendur tæknilega mjög framarlega og á að geta veitt fullnægjandi þjónustu. Alþjóðleg símakerfi og fyrirtæki kunna einnig að verða álitlegur kostur fyrir Ríkisútvarpið ef ekki nást samningar við Póst og síma og þróunin verður til aukins og sjálfsagðs frjálsræðis á þessu sviði. Kunnáttumenn undrast raunar að ekki hafi í alvöru verið hugað að því að semja við fyrirtæki sem reka gervihnetti er ná til landsins alls og Evrópulanda um dreifingu á efni íslenska Ríkisútvarpsins. Meiri hluti starfshópsins vill jafna samkeppnisaðstöðuna með því að ríkið hverfi af auglýsingamarkaði. Að mínu mati hlýtur ákvörðun um það að taka mið af því hvort um raunverulega samkeppni milli einkaaðila sé að ræða. Er ekki réttlætanlegt að afhenda aðila sem fengið hefur leyfi til áskriftarsjónvarps allar auglýsingatekjur ríkissjónvarps, svo að dæmi sé tekið. Ákvörðun um brottfall auglýsingatekna Ríkisútvarpsins verður ekki tekin án tillits til stöðunnar á einkamarkaðnum.

Ég tek undir eftirfarandi skoðun starfshópsins og vitna til hans, með leyfi forseta: ,,Ríkismiðill á borð við Ríkisútvarpið á sér tilvistargrundvöll og er mikilvægur hluti íslenska ljósvakans. Hins vegar ber því að haga rekstri sínum svo að hann samrýmist hlutverki og sérstöðu stofnunarinnar, veiti öðrum ljósvakamiðlum aðhald og viðmið með vandaðri dagskrá og metnaðarfullri dagskrárstefnu án þess þó að raska samkeppnisstöðu á ljósvakamarkaðnum í krafti forréttinda.``

Í því starfi sem fram undan er eftir að þessi skýrsla liggur fyrir ræðst farsæl lausn af skynsamlegri leið að þessu markmiði. Við þurfum í senn að tryggja framtíð Ríkisútvarpsins og þeirra sem við það keppa. Enginn vill hverfa aftur til ríkiseinokunar í útvarpsrekstri. Ég heiti á hv. alþingismenn í þessu efni og lýsi þeirri von að okkur takist í sameiningu að smíða löggjöf sem stendur í senn vörð um íslenska menningu við breyttar aðstæður og samrýmist gerbreyttum en spennandi aðstæðum við dreifingu upplýsinga.

Því miður verð ég að segja, herra forseti, að ræða hv. þm. Sighvats Björgvinssonar var ekki í þeim dúr að hún gæfi góð fyrirheit um að menn ætluðu að taka á þessu máli með uppbyggilegum hætti. Þótt bent sé á það í skýrslu starfshópsins að skynsamlegt kunni að vera að doka við varðandi ákvarðanir um langbylgjumastur t.d., verður haldið áfram því starfi en ég hef gefið heimild til þess að kaupa tvo senda, annars vegar til uppsetningar á Gufuskálum og hins vegar að Eiðum. Hafa þeir verið boðnir út, en því miður hefur framkvæmd málsins lent í vandræðum vegna þess að útboðið hefur verið kært til eftirlitsaðila á vegum Evrópska efnahagssvæðisins í Brussel. Að þessu máli er unnið og verður unnið og er ekkert hik á því nema það komi í ljós að ranglega hafi verið staðið að ákvörðunum og það valdi því hiki að menn þurfi að endurtaka útboð aftur sem ég ætla ekki að fullyrða neitt um. Það mál er nú til skoðunar. En það hefur gerst í því máli að tveir sendar fást fyrir þær 300 millj. sem til ráðstöfunar eru þannig að unnt er að standa að því með hagkvæmari hætti en að var stefnt.

Hv. þm. minntist síðan á stuttbylgjuútvarp og gerði það að einhverju stórmáli og könnun meðal þeirra sem haft var samband við á Internetinu. Að sjálfsögðu eru það menn sem hafa mikinn áhuga á fjarskiptum og ég efast ekki um stuttbylgjuútvarpstækjaeign þeirra í sjálfu sér. Ástæðulaust er að gera slíka könnun tortryggilega á þessum forsendum, en hann spurði: Hvað eiga margir þessara manna stuttbylgjuútvarp? En það má einnig spyrja: Hvað eiga margir Íslendingar útvarp með langbylgju og hvernig nýtist þessi fjárfesting? Þannig að menn eru að velta fyrir sér slíkum hlutum. Hvernig hefur tækniþróunin verið? Höfum við móttökutæki sem duga til þess að taka við þeim sendingum sem um er að ræða ef ekki er fylgt fram og farið fram með og nýtt fullkomnasta tækni? Og það er það sem við stöndum frammi fyrir, hv. alþingismenn. Það þarf að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins við gerbreyttar aðstæður bæði að því er varðar samkeppni innan lands og tæknilegar breytingar. Ég tel að skýrslan sem hér hefur verið kynnt og liggur frammi og er til umræðu sé mun merkari en mátti ráða af ræðu hv. þm. sem hefur greinilega lagst í lúsarleit að einhverjum hortittum til þess að reyna að gera þessa skýrslu ankannalega. Það mun mistakast því eins og aðrir menn sem hafa lesið þetta og eru víðsýnni en hann í þessum málum hafa komist að niðurstöðu um, þá er hér um skynsamleg sjónarmið að ræða í alvörumáli sem þarf að ræða af alvöru og komast að niðurstöðu um á öðrum forsendum en hann lagði upp með í ræðu sinni.