Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 17:33:50 (5952)

1996-05-13 17:33:50# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, LB
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[17:33]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það var þá aldeilis að áhyggjur ríkisstjórnarinnar birtust hér í síðustu orðum hæstv. fjmrh. og hv. formanns efh.- og viðskn. Hér liggur fyrir hver umsögnin á fætur annarri þar sem fram kemur að það frv. sem hér er til umræðu sé brot á mannréttindaákvæðum, alþjóðasáttmálum o.s.frv. og þeir koma og kvarta yfir því að þurfa að sitja yfir slíkri umræðu í um það bil 25 tíma. Í því birtast þeirra áhyggjur. Að menn skuli vilja mannréttindaákvæði og alþjóðasáttmála og það skuli taka eins og 25 tíma, ja, það er meira en á þá verður lagt. Og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson lýsti því yfir að þetta væru nú allt saman bölvaðar bábiljur. Brot á mannréttindaákvæðum og alþjóðasáttmálum eru bara bábiljur. Þetta er bara eitthvað sem menn hafa fundið upp, eitthvað sem menn vilja skemmta sér yfir í því veðri sem nú er á þessum bjarta sumardegi.

Virðulegi forseti. Líkt og sá ræðumaður sem flutti mjög svo innihaldsríka ræðu hér á undan mér sem var langt frá því að vera eitthvert málþóf því það mál sem hér er til umræðu er nauðsynlegt að ræða vel og ítarlega, ... (Gripið fram í.) Já. Ekki veitir af miðað við efnið. Ég hef líkt og sá hv. þm. litla þingreynslu en það verð ég að viðurkenna að áður en ég kom inn á þing, átti ég ekki von á því að helstu þröskuldar ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili skyldu verða mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, alþjóðasáttmálar og fleiri slíkir sáttmálar. Ég átti von á því að ríkisstjórnin þyrfti að komast yfir aðra þröskulda en þessa. Ég held því að það sé nauðsynlegt í þessu sambandi, virðulegi forseti, að taka það hér aðeins til umræðu hverjir þessir stórkostlegu þröskuldar eru, þessi svokölluðu mannréttindi, því nú þegar á þessu þingi, nú í vetur, eru a.m.k. komin fram sex frv. sem helstu stjórnlagafræðingar og stjórnskipunarfræðingar hafa hver um sig komist að því að þau séu meira og minna brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég get til gamans og upprifjunar vakið athygli á því að nú á haustdögum kom fram frv. til breytinga á búvörusamningi og þar sem ég átti sæti í hv. landbn. var ég nokkuð var við þá vinnu sem þar fór fram. Hún gekk nánast öll út á það að reyna að smeygja ákvæðum búvörusamningsins fram hjá ákvæðum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Í því var nú falinn helsti þröskuldur þess frv.

Nú liggur fyrir þinginu --- virðulegi forseti, væri hægt að fá hv. formann efh.- og viðskn. til að fylgjast með umræðunni? (Gripið fram í: Fylgstu með.) Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hann noti athyglisgáfu sína.

(Forseti (GÁS): Forseti gerir ráð fyrir því að hv. þm. leggi við hlustir.)

(VE: Hv. þm. Össur Skarphéðinsson heldur mér vakandi.) Virðulegi forseti. Ég vil nú ekki hlusta á klögumál hérna.

(Forseti (GÁS): Hv. 6. þm. Suðurlands hefur orðið og athyglina væntanlega.)

(Gripið fram í: Ég tel að viðkomandi þingmaður hafi enga athyglisgáfu.) (KÁ: Honum finnst hann alltaf vera að heyra sömu ræðuna.)

(Forseti (GÁS): Forseti vill árétta að það er hv. 6. þm. Suðurlands sem hefur orðið.)

Virðulegi forseti. Ég var áður en ég gerði hlé á máli mínu að rekja hver þau frv. væru sem ekki hefðu náð að komast yfir þá stórkostlegu þröskulda sem mannréttindaákvæði eru. Ég ætla að halda áfram þeirri upptalningu til að halda við athyglisgáfu hv. formanns efh.- og viðskn.

Fyrir þinginu liggur frv. til laga um breytingu á Pósti og síma. Líkt og önnur frv. er það undir smásjá hjá stjórnlagafræðingum og stjórnskipunarfræðingum og er ekki séð fyrir endann á því. Frv. til laga um breytingu á lífeyrissjóði opinberra starfsmanna var nú dregið til baka þar sem menn komust að því að enn og aftur væru mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar brotin. Hæstv. fjmrh. bar þó gæfu til þess að draga það frv. til baka. Frv. til laga um stéttarfélög og vinnudeilur hefur fengið skoðun og ekki er nú niðurstaðan úr þeirri skoðun betri en niðurstöður við skoðun á öðrum frv. Ég held það sé nauðsynlegt, virðulegi forseti, aðeins að nefna það helsta sem þar kemur fram. En í niðurstöðum stjórnskipunarfræðinganna Sigurðar Líndals og Tryggva Gunnarssonar kemur m.a. fram að bann við því að félagssvæði stéttarfélags sé minna en eitt sveitarfélag samrýmist vart alþjóðasáttmálanum um félagafrelsi eins og þeir eru túlkaðir. Óljóst er samkvæmt frv. hver sé staða annarra stéttarfélaga þar sem vinnustaðarfélag hefur verið stofnað. Þá er jafnframt vísað til þess að samkvæmt túlkun sérfræðinganefndar Evrópuráðsins á félagsmálasáttmála Evrópu er óheimilt að binda verkfallsrétt við stéttarfélög. Í 9. tölulið taka þeir skýrt fram að ef víkja á frá hefðbundnum skilningi samanber dóm Félagsdóms á boðun og framkvæmd samúðarvinnustöðvunar, þá verður að fara að réttum reglum o.s.frv.

Það er eiginlega alveg sama hvar er borið niður í frv. hæstv. ríkisstjórnar, ætíð verða sömu þröskuldarnir á vegi hennar. Í þessu ljósi, virðulegi forseti, held ég að nauðsynlegt sé að það sé farið aðeins yfir það hvað felst í þessum óskaplega þröskuldi sem mannréttindi eru. Ég held að það sé nauðsynlegt svo að menn viti hvað um er verið að ræða. Þess vegna hef ég tekið hér saman örstutta skilgreiningu á því hvað felst í hugtakinu mannréttindi. Ég ætla að lesa hana upp, virðulegi forseti.

,,Mannréttindi eru óháð öllu öðru en því að við erum menn. Við eigum öll rétt á að lifa. Ekki má loka okkur inni eða hindra ferðafrelsi okkar að ástæðulausu. Allir mega tjá skoðanir sínar og ekki er hægt að banna fólki að vinna eða læra það sem það vill og getur. Ekkert okkar á að þurfa að búa við hungur eða húsnæðisleysi. Mannréttindi eru óháð stétt, stöðu, fjölskyldu, atvinnu, trú og menningu fólks. Mannréttindi fylgja öllum frá vöggu til grafar. Litarháttur, kynferði, þjóðerni, tunga eða stjórnmálaskoðun fólks breytir þar engu um. Tilvist manneskju veitir henni rétt til að njóta mannréttinda til jafns við alla aðra. Þeim rétti má ekki svipta fólk og það getur ekki afsalað sér þessum grundvallarréttindum. Mannréttindi eiga að koma í veg fyrir að yfirvöld ráðskist með fólk að geðþótta og skapi því óbærileg lífskjör.``

Virðulegi forseti. Þetta er nú sá stórkostlegi þröskuldur sem ríkisstjórnin hefur átt í hvað mestum erfiðleikum með að komast yfir. Það eru þessi réttindi sem hefur tekið margar aldir að fá viðurkennt sem almenn mannréttindi sem hæstv. ríkisstjórn hefur gengið hvað erfiðast að komast fram hjá. Það segir okkur talsvert um hvaða hugmyndafræði liggur að baki þeirri ríkisstjórn sem nú situr, að nákvæmlega þessi atriði skuli verða henni hvað óþægastur ljár í þúfu.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að ég haldi áfram við að reyna að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstjórn og fjalli örlítið um tengsl laga, siðferðis og mannréttinda. Þar sem flest þeirra eru sett fram á bindandi hátt í alþjóðalögum eða þjóðarrétti geta þau talist til grundvallaréttinda í landsrétti þótt þau séu ekki skráð sem slík í lagasafni. Öll viljum við njóta þessara réttinda --- virðulegi forseti, ég er að fjalla um mannréttindi --- og okkur á því að vera ljóst að það sama hlýtur að eiga við um aðra menn. Við getum ekki búist við að réttur okkar til mannsæmandi lífs sé virtur ef við virðum ekki þann rétt hjá öðrum. Til að tryggja sem best að allir fái notið mannréttinda þurfa þau að vera bundin í lögum.

Virðulegi forseti. Í inngangi mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna segir: ,,Mannréttindi á að vernda með lögum. Að öðrum kosti hljóta menn að grípa til þess örþrifaráðs að rísa upp gegn kúgun og ofbeldi.`` Víðast hvar eru einhver mannréttindi vernduð með stjórnarskrárákvæðum eða í lögum og það færist í vöxt að ríki lögfesti hluta úr alþjóðasáttmálum um mannréttindi. Þar sem mannréttindi eru í lögum getur hver sem er leitað réttar síns fyrir dómstólum. Samkvæmt 8. gr. mannréttindayfirlýsingarinnar átt þú rétt á að fá hlut þinn réttan af dómstólum ef þú hefur sætt meðferð sem brýtur í bága við grundvallarréttindi sem þér eru tryggð í stjórnarskrá og lögum landsins þar sem þú ert búsettur. Ef einhver telur sig ekki ná fram mannréttindum sínum fyrir dómstólum heima fyrir er sá möguleiki fyrir hendi að leita eftir stuðningi mannréttindasamtaka heima eða erlendis eða fara fram á úrskurð alþjóðadómstóla.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að það liggi nokkuð skýrt fyrir hvað felst í hugtakinu mannréttindi áður en lengra er haldið í að fara yfir þetta frv. Það er nánast uppfullt af alls konar mannréttindabrotum og því nauðsynlegt að fólk átti sig á því um hvað er verið að ræða.

Það er nú einu sinni svo með mannréttindi, virðulegi forseti, að þau voru ekki fundin upp í gær heldur er saga þeirra bæði löng og skrykkjótt. Á forsögulegum tímum var ekkert sambærilegt við það réttarfyrirkomulag sem við þekkjum nú. Í árdaga mannkyns hafa siðir og venjur eflaust verið svipaðar og hjá æðri dýrategundum. Ef menn urðu ósáttir var fátt annað til ráða en að beita hnefaréttinum til að fá skorið úr deilunni. Þetta fyrirkomulag er í daglegu tali kallað frumskógarlögmálið og táknar að sá sterkari hafi sitt fram í skjóli aflsmunar óháð því hvort honum beri að réttu það sem sóst er eftir. Með því að kenna lögmálið við frumskóg er vísað til þess að það á fremur við í ríki dýra en manna.

Frá því sögur hófust hafa menn velt réttindum sínum fyrir sér. Heimspekingar fornaldar könnuðu þá hugmynd hvort allir menn ættu tilkall til einhvers konar grundvallarréttinda. Dæmi um þetta er að finna í ritum Kínverja, Grikkja og Indverja. Í raun var það svo að flestir spekinganna tengdu réttindi aðeins við frjálsa karlmenn en ekki konur, ófrjálsa karla og börn. Vangaveltur um réttindi mannsins voru oftast bundnar við karlmenn sem máttu sín einhvers og var svo allt fram á þessa öld. Efnamenn og aðall gátu yfirleitt komið sínu fram hvernig sem málum var háttað. Í fornöld var réttur almúgans ekki mikill. Hugmyndin um jafnrétti allra manna má þó finna hjá stóuspekingum sem voru þeirrar skoðunar að allir menn væru fæddir jafnir og væru sömu náttúru og skynsemi gæddir. Þeir töldu því mannkynið í grundvallaratriðum jafnrétthátt.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið á hraðferð yfir hugtakið mannréttindi sem ég held að sé nauðsynlegt að liggi fyrir í þessari umræðu.

Virðulegi forseti. Hér hafa þá gerst tíðindi. Í salinn er mættur framsóknarmaður, hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson. Þetta er sennilega í fyrsta skipti, virðulegi forseti, við þessa umræðu að framsóknarmaður lætur sjá sig. Ég býð hann velkominn. (VE: Hann vildi hlýða á ræðumanninn fjalla um mannréttindi.) Virðulegi forseti. Ég held að það hafi vissulega verið nauðsynlegt að fara yfir hvað felst í mannréttindum því að ef mið er tekið af frv. sem hér liggur frammi þá hefði átt að flytja þessa ræðu miklu fyrr. (KÁ: Ræðumaður á eftir að fara yfir miðaldir og síðustu ...) Hv. þm. bendir ræðumanni á að hann eigi nú talsvert eftir óyfirfarið í þessu efni en þar sem hann vill reyna að stytta mál sitt eins og kostur er þá (VE: Sérstaklega á fyrri hluta 17. aldar.) verður nú að koma að þessu frv.

[17:45]

Virðulegi forseti. Af því að í salinn er nú mættur framsóknarmaður þá er rétt að rifja upp að í kosningabaráttunni fyrir u.þ.b. ári man ég sérstaklega eftir fundi þar sem hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason lýsti því yfir að þær fimm mínútur sem við hefðum til að halda framsögu dygðu honum alls ekki. Hann hefði það miklu að lofa þjóðinni að fimm mínútur dygðu honum engan veginn. Til þess að bjarga málinu í það skiptið var ákveðið að láta hann hafa myndvarpa þannig að hann gæti talað og varpað loforðum sínum á vegginn um leið þannig að tími hans nýttist vel. Ég man ekki eftir því að það hafi komið eitthvað sérstaklega fram að hann ætlaði að ráðast að mannréttindum, það kom ekki fram í þeirri ræðu, ekki á þeim fundi, virðulegi forseti. Ég kem þessu á framfæri af því að framsóknarmaður er mættur í salinn og það telst til sérstakra tíðinda en þeir hafa nú ekki tjáð sig mikið í þessu máli.

Virðulegi forseti. Það kemur ekkert á óvart að sjálfstæðismenn standi að baki þessu frv. enda hafa helstu talsmenn þeirra í þessu verið hæstv. fjmrh., hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn. Það er ein af grunnsetningum Sjálfstfl. að tilgangur vor með arki á þessari jörð eða tilgangur mannsins með þessu lífi sé fyrst og fremst að hagræða og græða. Það eru gildin sem eru sett ofar manngildum þannig að það kemur ekki á óvart að sjálfstæðismenn standi að þessu. En að flokkur sem hefur verið kenndur við samvinnuhugsjónina og félagshyggju skuli standa að frv. kemur verulega á óvart. Þar sem ég var áðan að ræða um hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason, sem jafnt því að koma loforðum sínum fram í mæltu máli varð að varpa þeim með myndvarpa á vegg, þá man ég að ég heyrði af því, virðulegi forseti, því ég sat nefnilega ekki á þingi á síðasta kjörtímabili, að hv. þm. Guðni Ágústsson, oddviti framsóknarmanna í Suðurl., lýsti því yfir í ræðu að svo illa væri komið fyrir bændum á Suðurlandi að þeir væru farnir að naga girðingarstaura. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ef tekið er mið af þeim frv. sem nú liggja frammi, þ.e. annars vegar frv. til laga um réttindi og skyldur og hins vegar frv. til laga um stéttarfélög og vinnudeilur, held ég að hv. þm. Guðni Ágústsson hljóti að hafa komist að því að bændum þyki girðingarstaurar góðir. Ella hefði hann ekki staðið að baki þessu frv. Þetta verður varla skýrt öðruvísi, virðulegi forseti, en að eftir rannsókn hafi hann komist að því að girðingarstaurar væru alls ekki svo slæmir. (VE: Þú veist að þeir naga blýanta í Seðlabankanum.)

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei starfað í Seðlabankanum og þori því ekki að fullyrða um hvort þeir naga þar blýanta eða ekki. (VE: Það sagði Jón Baldvin.) Þetta var nú athyglisverð yfirlýsing frá formanni efh.- og viðskn. að starfsmenn Seðlabanka Íslands nagi blýanta. (VE: Það sagði Jón Baldvin.) Ég heyrði hv. formann efh.- og viðskn. að lýsa þessu yfir. Þetta er kannski markmið. Það er kannski markmið að þjóðin fari að naga blýanta og girðingarstaura. Það er kannski markmiðið með þessu frv., ég skal ekki um segja. Það eru alltaf að koma nýir fletir upp í málinu. (VE: Hvar er mannréttindakaflinn í ræðu hv. þm.?) (Gripið fram í: Blýanta fyrir alla!) Virðulegi forseti. Ef þessi ríkisstjórn situr alveg út kjörtímabilið getur vel verið að krafa verðalýðshreyfingarinnar verði ekki önnur en sú að þeir fái að naga blýanta.

Virðulegi forseti. Ég held að rétt sé að ræðumaður fari að snúa sér meira að þessu skelfilega frv. Ég tek það fram enn og aftur að ég er mjög ánægður með að það skuli vera kominn framsóknarmaður í salinn.

Virðulegi forseti. Það er ekki langt síðan svokölluð jafnræðisregla var lögfest í stjórnarskrá Íslendinga. En að það skyldi felast í jafnræðisreglunni að það ætti að jafna réttindi manna niður á við kemur hvergi nokkurs staðar fram.

Virðulegi forseti. Mig langar að vitna í grein sem ritað hafa Birgir Björn Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Bandalags háskólamanna og Gunnar Ármannsson lögfræðingur, sem situr í stjórn Bandalags háskólamanna, með leyfi forseta, þar sem þeir vilja vekja sérstaka athygli á að ríkisstjórnin leggur nú fram frv. til laga sem skerðir umsamin réttindi starfsmanna ríkisins og ríkisstjórnin neyti þannig valdboðs í stað samninga við stéttarfélög starfsmanna til að knýja á um bótalausa sviptingu réttinda starfsmanna. Sá framgangsmáti ríkisins gagnvart starfsmönnum sínum vekur spurningar um hvort frv. stríði gegn jafnræðisákvæðum sem víða er að finna í stjórnarskrá. Frv. felur í sér skerðingu á réttindum starfsmanna ríkisins og aukningu á skyldum þeirra. Tilgangurinn mun vera sá að afnema meint misrétti milli ríkisstarfsmanna og annarra launamanna. Þetta er réttlætt með tilvísun í jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Fráleitt er að halda því fram að 65. gr. feli í sér að skylt sé að skerða samkvæmt stjórnarskránni umsamin réttindi eins hóps ef þau réttindi eru meiri en aðrir njóta, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Það er ekki skylt samkvæmt stjórnarskránni að jafna réttindi niður á við, þ.e. ef einn tiltekinn hópur hefur einhver tiltekin réttindi er ekki skylt ef annar hópurinn nær ekki þeim réttindum að jafna þann hóp sem meiri réttindin hefur við þann sem minni réttindin hefur. (VE: Þingmaðurinn skilur þetta fullkomlega.) Virðulegi forseti. Þingmaðurinn er þá væntanlega ekki að keyra fram ákvæði stjórnarskrárinnar í þessum efnum. Eðlilegra væri að bæta réttindi annarra á sambærilegan hátt með samningum. Það er einmitt krafa aðildarfélaga Bandalags háskólamanna þessu til viðbótar að rökstuðningur höfunda frv. fyrir meintu misrétti er fullur af rangfærslum.

Virðulegi forseti, einmitt í þessu sem ég hef hér rakið kemur fram að stjórnskipun okkar byggir á því að hér situr þingbundin ríkisstjórn, þ.e. ríkisstjórn sem situr hverju sinni verður að njóta trausts meiri hluta Alþingis. Um leið og hæstv. fjmrh. er þingmaður er hann yfirmaður eða vinnuveitandi opinberra starfsmanna. Það er dálítið hjákátlegt að vinnuveitandi skuli setja saman einhliða reglur sem eiga að gilda á vinnumarkaði, einhliða reglur sem eru samdar í ráðuneytinu en um leið og hann yfirgefur ráðuneytið fer út í bíl sinn og fer niður í þing, um leið og hann kemur hér í þingið þá er hann allt í einu orðinn löggjafi sem ætlar að setja einhliða reglur sem eiga að gilda gagnvart opinberum starfsmönnum. Í því fyrirkomulagi sem hér ríkir hvað varðar stjórnskipun sést hvað best hve nauðsynlegt er að samráð sé haft við þessa aðila. Um leið og hæstv. fjmrh. gegnir störfum þingmanns þá er hann vinnuveitandi þeirra aðila sem við er að semja.

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda örlítið áfram og fjalla örlítið áfram og fjalla hér um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar því að ekki veitir af. Ég hef fjallað talsvert um það hvað felst í hugtakinu mannréttindi og mér virðist að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hafi náð því fullkomlega. En ég ætla að halda örlítið áfram þar sem frá var horfið.

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið og fjalla örlítið um félagafrelsi. Ég byggi það að miklu leyti á þeirri grein sem ég vitnaði til áðan. 74. gr. stjórnarskrárinnar fjallar um félagafrelsi og hefst þannig:

,,Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds.``

Frv. gengur á þennan stjórnarskrárbundna rétt með því að gera ráð fyrir að svipta stóran hóp félagsmanna bandalagsins og jafnvel þorra félagsmanna í sumum stéttarfélögum réttinum til að vera í stéttarfélagi. Svo langt er gengið í frv. að ákvarðanir um það hverjir verða þannig sviptir grundvallarmannréttindum getur verið geðþóttaákvörðun forstöðumanns í stofnun eða fjmrh. --- Virðulegi forseti. Þá hefur nú yfirgefið salinn sá eini framsóknarmaður sem hér hefur sést í þá fjóra til fimm daga sem umræður hafa staðið yfir. (Gripið fram í: Farið hefur fé betra.) Virðulegur forseti. Það má taka undir þá yfirlýsingu.

Íslenska ríkið hefur skuldbundið sig með 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins og með aðild að 87. og 98. samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til að hafa ekki afskipti af innri málefnum stéttarfélaga og virða samnings- og verkfallsrétt þeirra án óeðlilegra og ónauðsynlegra afskipta. Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir að stórum hópi félagsmanna í stéttarfélögum ríkisstarfsmanna verði meinað að taka þátt í starfi stéttarfélaga í framtíðinni. Þessi hópur verður sviptur félagafrelsi og um leið rétti til að taka þátt í verkföllum til að knýja á um bætur á kjörum sínum í félagslegum aðgerðum. Þetta stríðir gegn félagsmálasáttmála Evrópu.

Virðulegi forseti. Ekki er hér látið staðar numið við brot á þeim mannréttindaákvæðum sem er að finna í stjórnarskrá lýðveldisins því líkt og flest önnur mannréttindi má nú ekki minna vera en að tjáningarfrelsið sé nú aðeins tekið til meðferðar. En um það má m.a. segja að þeir sem heyra undir embættismannaskilgreininguna eru einnig sviptir tjáningarfrelsi a.m.k. að hluta þegar deilur og aðgerðir standa um kaup og kjör launamanna. Þetta stenst ekki ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Sérstakt ákvæði í 53. frv. þar sem kveðið er á um að brot á þessum takmörkunum á tjáningarfrelsi geti varðað fésektum eða þyngri refsingu kórónar vanvirðingu á tjáningarfrelsinu, virðulegi forseti, og ekki er eignarréttarákvæðið látið í friði frekar en önnur.

[18:00]

Breytingar sem frv. felur í sér á ýmsum þegar ákveðnum réttindum starfsmanna eru verulega hæpnar og standast ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um verndun eignarréttar, sbr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Augljóst dæmi um þetta er áform um skerðingu á biðlaunaréttindum þeirra sem eru í starfi við gildistöku laganna samanber bráðabirgðaákvæði með frv.

Virðulegi forseti. Ég mun fjalla mjög ítarlega síðar í ræðu minni um biðlaunaréttinn og vernd eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar og mun því halda örlítið áfram með mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, sérstaklega þar sem hv. formaður efh.- og viðskn. er enn í salnum og fullur áhuga þannig að það er rétt að uppfræða hann enn frekar á þessu sviði því ekki virðist af veita.

Frv. fjmrh. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins varðar grundvöll samningsréttar starfsmanna og félagafrelsi. Ákvæði í stjórnarskrá um félagafrelsi var endurskoðað nýlega og niðurstaðan varð 74. gr. sem orðast þannig:

,,Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. (VE: Nú gekk hv. þm. Jón Kristjánsson í sæti sitt.) Virðulegi forseti, ég er ánægður með að formaður efh.- og viðskn. skuli á það benda því hér er sennilega kominn í salinn annar framsóknarmaðurinn. Virðulegi forseti. Ég fagna mjög komu hv. formanns fjárln. (Gripið fram í: Hann staldrar ekki lengi við.) Staldrar ekki lengi við enda hafa framsóknarmenn lítinn áhuga á þessu máli. (Gripið fram í: Honum er haldið í láginni.)

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki nema von að ég hafi lýst yfir undrun minni með hvernig með mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar hefur verið farið í frv. Það er ekki lengra síðan en u.þ.b. ár síðan hér var samþykktur nýr kafli um mannréttindi í stjórnarskránni. Og í nefnd sem lagði fram breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins sátu m.a. hv. þm. Geir H. Haarde og hv. þm. Finnur Ingólfsson. Ég hefði því haldið að það hefði verið full ástæða til að virða þessi ákvæði a.m.k. ár eða svo áður en menn færu að reyna að smeygja sér fram hjá því. En menn hafa ekki talið ástæðu til þess. Ég held að það sé nauðsynlegt, virðulegi forseti, að ég fjalli aðeins um þá greinargerð sem þeir sömdu með þessum brtt. og ég ætla að leyfa mér að vitna til þeirra. Það er kannski rétt að byrja hér á sögulegu yfirliti. (VE: Frá 1600.) Ætli ég byrji ekki á síðari hluta 19. aldar.

Virðulegi forseti. Ég vitna til álits nefndar sem lagði fram frv. til breytinga á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Ég vil að það sé alveg á hreinu að hér sé um beina tilvitnun að ræða:

,,Mannréttindaákvæði eru mikilvægur hluti stjórnarskráa í vestrænum ríkum og eru óumdeilanlega álitin ein af undirstöðum hvers lýðræðisþjóðfélags. Allt frá því að Íslendingum var fyrst sett stjórnarskrá sérstaklega um málefni Íslands frá 5. jan. 1874 hafa mannréttindi verið stjórnarskrárbundin réttindi borgaranna hér á landi. Mannréttindaákvæði birtust annars vegar í V. kafla stjórnarskrárinnar sem fjallaði um skipan kirkjunnar og trúfrelsi og hins vegar í VI. kafla hennar sem fjallar um ýmis réttindi borgaranna.

Fyrirmynd mannréttindaákvæðanna í stjórnarskránni eru frá 1874 sem voru nánast samhljóða ákvæði í grundvallarlögum Dana frá 1849. Réttindum sem vernduð voru í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar frá 1874 má lýsa í stórum dráttum með eftirfarandi upptalningu:

Trúfrelsi.

Réttindum handtekins manns.

Friðhelgi heimilisins.`` --- Svo er sérstaklega tekið fram, virðulegi forseti, friðhelgi eignarréttarins. Ég sé að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson kippir sér lítt upp við það.

,,Atvinnufrelsi.

Réttur til framfærslustyrks.

Réttur til menntunar.

Prentfrelsi.

Félagafrelsi.

Fundafrelsi.

Skylda vopnfærra manna til að taka þátt í vörn landsins.`` --- Ekki veit ég hvort það hefur verið hæstv. menntmrh. sem kom þessu inn en þetta liggur a.m.k. fyrir hér.

,,Réttindi sveitarfélaga.

Skylda til þess að skipa skattamálum með lögum.

Afnám laga sem binda sérréttindi við aðal, nafnbætur eða tign.``

Virðulegi forseti. Ég ætla að vitna örlítið til uppruna mannréttinda í öðrum ríkjum. Sérstaklega til fróðleiks fyrir hv. formann efh.- og viðskn.

,,Uppruna stjórnarskrárákvæða um mannréttindi á Íslandi og í öðrum ríkjum á Norðurlöndum má rekja til mikillar vakningar um þessi málefni á meginlandi Evrópu á síðari hluta átjándu aldar og fyrri hluta nítjándu aldar. Hugmyndir um mannréttindi og frelsishugsjónir áttu ekki síst rætur sínar í frelsisbaráttu nýlendubúa í fylkjum Norður-Ameríku sem lýstu yfir sjálfstæði sínu árið 1776. Bandaríkjamenn settu sér stjórnarskrá árið 1787 og í sérstökum viðaukum við hana, sem tók gildi árið 1791, var sett mannréttindaskrá þar sem talin voru helstu borgaralegu og stjórnmálalegu réttindi borgaranna. Frelsishugsjónir Bandaríkjamanna, sem birtust í sjálfstæðisyfirlýsingunni og stjórnarskrám, sem einstök fylki settu sér um svipað leyti, þar sem tryggð voru réttindi borgaranna, höfðu mikil áhrif á meginlandi Evrópu. Í umróti frönsku stjórnarbyltingarinnar varð til franska réttindayfirlýsingin frá 1789 þar sem var skýrlega lýst yfir að ákveðin réttindi væru náttúruleg og óafsalanleg réttindi mannsins. Þar voru síðan talin helstu borgaralegu og stjórnmálalegu réttindin sem enn í dag eru kjarninn í mannréttindaákvæðum flestra stjórnarskráa í lýðræðisþjóðfélögum þótt ýmis önnur réttindi hafi síðan bæst við. Á meðal réttinda, sem talin eru í frönsku mannréttindayfirlýsingunni, er grundvallarreglan um að allir menn séu fæddir jafnir og frjálsir, jafnræði fyrir lögunum, réttur til að þurfa ekki að þola handtöku nema samkvæmt lagaheimild, að menn séu álitnir saklausir í refsimáli þar til sekt er sönnuð, vernd gegn afturvirkni refsilaga, skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og friðhelgi eignarréttar.``

Virðulegi forseti. Ég hef lokið tilvitnun minni í greinargerð þessarar nefndar og ég er ekki frá því að þessi kennslustund í mannréttindum hafi verið hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni mjög til góða. Ég held að hann geti talið sér það til tekna þegar fram líða stundir.

Virðulegi forseti. Ég held að nóg sé komið af þessum inngangsorðum og því er kannski rétt að fara að fjalla frekar um frv. Ég er ekki frá því að það sé svona ögn léttara yfir formanni efh.- og viðskn. eftir að ég fór með þessi inngangsorð um mannréttindi.

Virðulegi forseti. Ef framsóknarmenn sæjust nú annað slagið hér í salnum þá þyrfti ekki að tvítaka umræðuna. Það þyrfti ekki að fjalla aftur og aftur um sömu atriðin sem hefur þegar verið fjallað um. Ég vil því hvetja hv. formann fjárln. til að hvetja samþingmenn sína og flokksfélaga til að sitja meira í salnum. Það er ábyrgðarhlutur að standa að löggjöf sem fer í mörgum atriðum gegn stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum og gegn alþjóðaskuldbindingum sem Íslendingar hafa gengist undir. (VE: Þingmaðurinn mundi nú útvega Framsfl. sérprent úr þingtíðindum.) Ef það dygði að útvega framsóknarmönnum það þá mundi ég gera það með glöðu geði. En ég er hræddur um að fleiri þyrftu að fá þau tíðindi. (Gripið fram í: Kenna þeim að lesa fyrst.) Ekki ætla ég að væna framsóknarmenn um að vera ólæsa.

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að fjalla örlítið um þetta frv. sem nú liggur fyrir. Ég hef farið í gegnum helstu þröskulda sem frv. hefur ekki tekist að fara yfir nú þegar sem eru mannréttindi. En ég mun fjalla örlítið um hina svokölluðu nýju starfsmannastefnu.

(Forseti (GÁS): Forseti vill eilítið grípa inn í ræðu hv. þm. Um það hafði verið talað að ljúka þessum fundi svona 10--20 mín. yfir sex. Ég heyri að nú eru kaflaskipti í ræðu hv. þm. Standa vonir til að henni ljúki fyrir þann tíma?)

Virðulegi forseti. Ég hef rétt lokið inngangsorðum mínum.

(Forseti (GÁS): Vildi hv. þm. gaumgæfa það á næstu mínútum hvort einhver slík kaflaskipti væru í ræðu hans að hægt væri að gera hlé á ræðunni en halda henni áfram eftir matarhlé?)

Virðulegi forseti. Eftir að hafa lokið inngangskaflanum held ég að það sé vel við hæfi að gera hlé á ræðu minni.

(Forseti (GÁS): Forseti ræddi um að halda áfram fundi til kl. tuttugu mín. yfir sex. Hv. þm. hefur enn fimm mín.)

Virðulegi forseti. Mér virðist svo sem ræðan gæti orðið dálítið sundurlaus ef hún yrði skilin í sundur núna þannig að ég mælist til þess að nú verði gert hlé og framhald ræðunnar yrði eftir hlé. Sérstaklega í því ljósi að reyna að halda samhengi.

(Forseti (GÁS): Forseti áréttar að enn höfum við fimm mín. til fundahalda. Hv. þm. hefur orðið.)

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að fara nokkrum orðum um hina nýju starfsmannastefnu hæstv. ríkisstjórnar sem birtist í þessu frv. Þar segir m.a. í greinargerð á bls. 14, með leyfi forseta:

,,Það er alkunna að fólk gerir sífellt kröfur um aukna og bætta þjónustu hins opinbera, sér til handa. Sumum þessum kröfum verður að mæta, m.a. vegna síbreytilegra aðstæðna í þjóðfélaginu. Öllum sem láta sig fjármál ríkisins einhverju skipta er það hins vegar ljóst að eina leiðin til að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum, án þess að hækka skatta, er að lækka ríkisútgjöld og það verður ekki gert að neinu ráði nema með því að draga úr kostnaði við starfsmannahald á vegum ríkisins, eins og ofangreindar upplýsingar sýna.``

[18:15]

Virðulegi forseti. Í þessu birtist starfsmannastefnan. En það að lækka ríkisútgjöld verður ekki gert að neinu ráði nema að draga úr kostnaði við starfsmannahald á vegum ríkisins og getur því ekki þýtt nema eitt, að fækka eigi starfsmönnum ríkisins. Annars verður ekki dregið úr kostnaði þannig að það er sennilega alfa og ómega þessarar starfsmannastefnu að undirbúa einkavæðingu sem flestra ríkisstofnana. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi. Virðulegi forseti, ég vonast a.m.k. til þess að hér sé ekki á ferðinni tilraun til enn einnar einkavinavæðingarinnar því þá væri verra af stað farið en heima setið. Ég fæ ekki skilið þessi orð öðruvísi en svo að í bígerð sé að fækka starfsmönnum eins og kostur er og að það verði þá gert með því að ,,háeffa`` fyrirtæki eða stofnanir sem nú eru í ríkiseigu og rekin sem slík eins og hv. þm. Guðni Ágústsson hefði orðað það. Þau verða ,,háeffuð`` og á síðari stigum komið í hendur markaðarins.

Ég vil gera að umtalsefni þær helstu athugasemdir sem fram koma í nefndaráliti minni hluta efh.- og viðskn. sem sennilega hefur ekki verið farið yfir áður í þessari umræðu. Ég held það sé nauðsynlegt að eyða nokkrum orðum í það. Þar segir m.a.:

,,Í frumvarpinu er skertur möguleiki starfsmanna til að tala máli sínu og skjóta ákvörðun yfirmanns til æðra stjórnsýslustigs.``

Virðulegi forseti. Það er grundvallarregla í stjórnsýslurétti að menn eigi þess kost að skjóta ákvörðun lægra setts stjórnvalds til æðra setts stjórnvalds og í raun og veru grundvallarstefnubreyting ef menn ætla að þrengja þessa reglu sem hefur verið meginregla í íslenskum rétti núna um langt skeið þó hún hafi lengi verið ólögfest. En með þessari útfærslu eru ákvæði nýsettra stjórnsýslulaga gerð óvirk. Þetta er mjög alvarlegt og full ástæða er til að mótmæla þessum vinnubrögðum og þeirri fyrirætlun að þrengja að eðlilegum lýðræðislegum rétti starfsmanna sem hefur verið tryggður með sérstökum hætti í öðrum lögum.

Í hinni nýju starfsmannastefnu kemur einnig fram, virðulegi forseti: ,,... að starfsmanni verður samkvæmt frumvarpinu skylt að vinna yfirvinnu, en engin slík ákvæði gilda um almenna markaðinn sem frumvarpshöfundar bera sig saman við. Hér er um að ræða íþyngjandi ákvæði fyrir starfsmenn ríkisins án þess að gefinn sé kostur á að taka þau mál upp í kjarasamningum. Ef menn telja rétt að hafa slík íþyngjandi ákvæði ...``, í lögum er eðlilegt að mati þess sem hér stendur ,,... að það endurspeglist í hærri launum.``

Þá segir í áliti minni hlutans, með leyfi forseta:

,,Ámælisvert er að í frumvarpinu er kveðið á um að verði um langvarandi veikindi starfsmanns að ræða sé skylt að leysa hann frá störfum. Þetta ákvæði lýsir vel hugsunarhætti frumvarpshöfunda, þ.e. að ganga skuli á rétt starfsmanna alls staðar þar sem kostur er.

Áberandi er í frumvarpinu að fjármálaráðuneytið sankar að sér eins miklum völdum og hægt er í stjórnsýslu ríkisins með útfærslu einstakra greina þess í stað þess að byggja upp fagráðuneytin sem hina eðlilegu eftirlitsaðila.

Einnig er ámælisvert að í frumvarpinu er kveðið á um vald til að framlengja uppsagnarfrest í allt að sex mánuði ef margir leita lausnar samtímis. Þetta ákvæði þekkist ekki á almennum vinnumarkaði og hefði vitaskuld átt að taka það upp í kjarasamningum. Ef menn telja nauðsyn á að hafa slíkt ákvæði vegna sérstöðu ýmissa starfa á vegum ríkisins á það jafnframt að koma fram í hærri launum.``

Virðulegi forseti. Ég held það væri mjög heppilegt fyrir ræðumann að gera hlé því það er komið að kaflaskiptum í ræðu minni, virðulegi forseti.

(Forseti (GÁS): Forseti áréttar það sem hann sagði áðan. Við það var miðað að ljúka þessum fundi um þetta leyti þannig að ef hv. ræðumaður er sáttur við það að hér verði gert hlé á ræðu hans þá mun henni frestað.)

Ræðumaður er sáttur við það.

(Forseti (GÁS): Í ljósi þess er ræðu hv. þm. frestað. Enn fremur er fundinum frestað til kl. 20.30.)