Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 22:25:51 (5966)

1996-05-13 22:25:51# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[22:25]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég var að reyna að skýra áðan í mínu stutta máli var það að ég er algjörlega ósammála þessu viðhorfi sem kemur fram hjá hv. þm. og reyndar hæstv. ráðherra sem kallaði það hér í ræðu bull að greiða mönnum tvöföld laun. Ég tel að hér sé ekki um tvöföldun á launagreiðslum að ræða heldur tel ég að biðlaunin séu hugsuð sem bætur fyrir réttindi sem tapast. Ég tel að þessi SR-dómur sýni það. Ég tel sem sagt, eins og ég sagði í mínu svari áðan, að þetta snúist allt um að breyta biðlaunaákvæðinu. Það er í rauninni það eina sem ríkisstjórnin vill fá fram vegna þess að það verður að liggja fyrir áður en hún hefst handa um að breyta ríkisbönkum, breyta Pósti og síma og öðru í hlutafélög. Ef hv. þm. læsi t.d. andsvör hæstv. samgrh. þegar við deildum um þetta mál í umræðunum um Póst og síma, 1. umr., sæi hann að hæstv. samgrh. komst eiginlega að sömu niðurstöðu og ég og þess vegna hafa menn þessa röð á. Fyrst á að afgreiða þetta frv. hv. þm. Vilhjálms Egilssonar og svo verður vaðið í Póst og síma.