Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 23:09:36 (5975)

1996-05-13 23:09:36# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[23:09]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti afspyrnuléttvæg gagnrýni hv. þm. á Eirík Tómasson, fyrrv. hæstaréttarlögmann og núv. prófessor, sem var formaður þeirrar nefndar sem undirbjó þetta frv. Nú er það svo að fagvinna í samningu lagafrv. sem eiga eftir að koma til afgreiðslu á Alþingi getur með engum hætti talist stjórnsýsluákvörðun í því skyni þar sem verið er að taka ákvarðanir um það hvort einhverjir aðilar eigi rétt eða ekki rétt eða þar sem verið er að úrskurða um einhverja hluti. Það kemur því máli bara nákvæmlega ekkert við. Athugasemdir um að þessi ágæti maður og lagaprófessor, sem hefur mikið vit á því máli sem um er að ræða og er líklega einn af hæfari mönnum til að fást við það, að láta að því liggja að hann eigi ekki að fá að koma nálægt því, finnst mér nálgast að vera mannréttindabrot, að meina slíkum aðila á þessum forsendum að koma nálægt þessu. Má maðurinn hugsa?