Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 14:52:24 (6192)

1996-05-17 14:52:24# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[14:52]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil mótmæla mjög harðlega og eindregið málflutningi hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Það er ekki stórmannlegt að beita ósannindum um meint samráð sem röksemdum fyrir þessu óvinsæla frv. Það sem meginmáli skiptir er það að hvert einasta verkalýðsfélag á Íslandi, öll verkalýðshreyfingin á Íslandi, hefur sent hv. Alþingi mótmæli gegn þessu frv. Það er mergurinn málsins.

Að sönnu voru haldnir margir fundir þar sem ríkisstjórnin leitaði eftir samráði og þótti mörgum lofa góðu lengi vel. Þetta samráð, þetta samtal og þessi samvinna leiddi til ákveðinnar niðurstöðu. Annars vegar óskuðu fulltrúar Samtaka launafólks eftir því að reynt yrði að ná niðurstöðu í frjálsum samningum og reynt yrði að ná samkomulagi um þær breytingar sem menn kynnu að verða sammála um eftir frekari umræður. Á hinn bóginn kom fram krafa af hálfu atvinnurekenda, bæði Vinnumálasambandsins og VSÍ, um að ekki yrði hlustað á þær raddir heldur yrði farið að vilja atvinnurekenda og frv. af því tagi sem við höfum hér fyrir Alþingi yrði keyrt gegnum þingið.

Ég kem hér upp, hæstv. forseti, til að mótmæla óheiðarlegum málflutningi.