Tóbaksvarnir

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 14:06:49 (6259)

1996-05-18 14:06:49# 120. lþ. 141.6 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, Frsm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[14:06]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 74/1984, um tóbaksvarnir. Eins og þingheimi er kunnugt hefur frv. sem lýtur að hertum tóbaksvörnum verið að þvælast fyrir þinginu síðustu árin. Illu heilli hefur ekki tekist að afgreiða frv. fyrr en núna að heilbr.- og trn. hefur lagt geysilega mikla vinnu í að vinna þetta frv. sem hér liggur fyrir. Hér liggja fyrir ítarlegar brtt. á þskj. 942 og allir nefndarmenn skrifa undir álit nefndarinnar en þó nokkrir með fyrirvara, m.a. sá sem hér stendur, en fyrir þeim fyrirvara mun ég gera grein í annarri ræðu. Þessa ræðu, herra forseti, kýs ég að nota einvörðungu til þess að greina frá meginatriðum þeirra breytinga sem nefndin varð sammála um.

Eins og rakið er í nál. á þskj. 941 fékk nefndin fjölmarga aðila til þess að ræða málið við sig og hún leitaði jafnframt skriflegra ráða hjá mörgum aðilum sem sendu umsagnir. Þessir aðilar eru allir raktir í aðdraganda álitsins. Eins og fram kom við 1. umr. málsins er efni frv. talsvert umdeilt. Það er svo, herra forseti, að nefndin taldi rétt að gera allnokkrar breytingar á 2. gr. laganna. Þar er fjallað um auglýsingar og bann við auglýsingum á tóbaksvörum. Ég vek sérstaklega eftirtekt á því að í C-lið gerði upphaflega gerð frv. ráð fyrir því að það mætti ekki vera með neins konar söluhvetjandi tilkynningar til almennings eða sérstakra markhópa. Við urðum þess áskynja í nefndinni að orðið söluhvetjandi var af ýmsum aðilum sem tengdust málinu túlkað þannig að þetta mundi valda því að þeim sem selja tóbaksvörur væri ekki í sjálfsvald sett með hvaða hætti þeir stilltu upp þessari vöru. Þó að nefndin sé þeirrar skoðunar að það eigi að gera allt sem hægt er til þess að draga úr kaupum og neyslu tóbaks taldi hún samt sem áður að ekki væri mögulegt að setja sérstakar reglur sem aðgreindu tóbaksvöru frá öðrum vörum sem eru til sölu í tilteknum verslunum. Við breyttum þess vegna ákvæðinu í því skyni að gera alveg ljóst hvað kaupmönnum er leyfilegt og hvað þeim er bannað. Því er ákvæði 1. tölul. breytt þannig að lagt er til að það séu ekki neinar lagalegar skorður við því hvar tóbaksvörum er raðað í hillur verslana. Að þessu leyti ganga fyrirmæli greinarinnar nokkuð skemmra en upphafleg gerð frv. var túlkuð af ýmsum. Kaupmenn hafa þess vegna algert sjálfdæmi um það hvernig þeir stilla upp vörum sem tengjast tóbaki innan verslana sinna.

Jafnframt er 2. málsl. breytt þannig að það eru tekin af tvímæli um að það má selja varning sem er framleiddur undir tóbaksvörumerkjum. Hina upphaflegu gr. frv. mátti skilja sem svo að ýmiss konar varning sem væri seldur undir hefðbundnum tóbaksvörumerkjum mætti ekki selja. Sem dæmi um þetta var tekið Camel-skór. Camel-skór eru vandaðir skór sem seldir eru hér á landi u.þ.b. 600--1.500 pör á hverju ári. Brtt. felur í sér að áfram verður heimilt að selja skóna. Það verður áfram heimilt að selja vörur sem eru markaðssettar undir vörumerkjum hefðbundinna tóbaksframleiðenda. Hins vegar felur brtt. líka í sér að það verður útilokað að auglýsa vöruna með þeim hætti að vörumerkið eða einhver hluti af nafninu eða auðkenni tóbaksvörunnar komi fram í auglýsingum eða tilkynningum. Ef ég held áfram með dæmið af Camel-skónum þýðir þetta að slíka skó mætti flytja inn, þá mætti selja en það mætti ekki auglýsa þá sem Camel-skó og vörumerki Camel eða heitið Camel mætti hvergi koma fram innan eða utan verslunarinnar nema á skónum sjálfum og umbúðum þeirra. Það sama myndi að sjálfsögðu gilda um allar vörur sem væru seldar undir hefðbundnum tóbaksvörumerkjum. Ég vil upplýsa það líka, herra forseti, að við fengum til fundar við okkur verslunarmenn sem flytja inn og selja slíkar vörur, m.a. Steinar og Snorra Waage frá Skóverslun Steinars Waage en þeir hafa einmitt flutt inn og selt téða skótegund. Þeir greindu okkur frá því að þeir hefðu sjálfir lagt af þann sig að auglýsa þessa skó þannig að Camel-vöruheitið kæmi fram. Þeir hefðu t.d. látið sér nægja um stund að stilla einungis vörumerkinu út í glugga en það hefðu verið gerðar það miklar athugasemdir við það af hálfu kaupenda og viðskiptavina þeirra að þeir hefðu hætt því þannig að það kom fram í máli þeirra að þeir gætu áfram selt varning sinn án þess að þurfa að nota vörumerkið Camel.

Í tengslum við þetta var því haldið fram og greinin í hinu upphaflega frv. túlkuð með þeim hætti að það mætti ekki selja tóbaksvörur undir notkun vörumerkja sem eru þekkt fyrir allt aðra og óskylda framleiðslu en tóbak. Dæmi um það eru t.d. Cartier og Yves St. Laurent. En við höfum tekið af tvímæli um þetta með því að brtt. okkar gera ráð fyrir því að þar sé notað orðalagið ,,hefðbundin tóbaksvörumerki``. Þannig er alveg klárt að samkvæmt þessu orðalagi verður heimil óheft notkun vörumerkja sem eru þekkt fyrir framleiðslu óskylda tóbaki. Við erum þeirrar skoðunar að takmarkanirnar sem eru nú þegar á auglýsingum á tóbaki samkvæmt þessum lögum komi tryggilega í veg fyrir að nýjar tegundir af tóbaksvarningi geti numið hér land. Við teljum að með þessum breytingum séum við búin að setja mjög skýr fyrirmæli til kaupmanna um það hvað þeir mega og hvað þeir mega ekki.

Í 3. tölul. 1. brtt. er lagt til að umfjöllun um einstaka tóbakstegundir verði óheimil nema ljóst sé að með henni sé beinlínis verið að koma á framfæri upplýsingum sem eru fallnar til þess að minnka skaðsemi tóbaksneyslu. Við nefnum sem dæmi að ef kæmu á markað tóbakstegundir sem hefðu sannanlega minna af skaðlegum efnum en þær sem eru fyrir væri heimilt að fjalla um það í fjölmiðlum en það væri hins vegar áfram í gildi allar sömu takmarkanir sem tengjast auglýsingum um slíkar hættuminni tegundir.

Ég minni einnig á það, herra forseti, að hér spunnust talsverðar deilur við 1. umr. vegna ákvæðis er laut að því að banna skyldi að framleiða hér á landi tónlistarmyndbönd þar sem tóbaksneysla er áberandi. Frá því er skemmst að segja að nefndin var einróma sammála um að leggja til að þetta ákvæði færi úr frv.

[14:15]

Það er líka vert að upplýsa að við umfjöllun nefndarinnar komu fram margar ábendingar frá aðilum sem tengjst tóbaksvörnum hér á landi um að það væri nauðsynlegt að setja lög sem bönnuðu auglýsingar á tóbaksvörum í fríhöfnum landsins og jafnframt lög sem kvæðu á um að það bæri einnig að skrá viðvaranir á varning sem tóbaki tengist og seldur er í fríhöfnunum alveg eins og í öðrum verslunum landsins. Við gerum engar tillögur um slík lagaákvæði, herra forseti, af þeirri einföldu ástæðu að þegar nefndin rannsakaði þetta mál kom í ljós að slíkt bann er þegar í gildi við auglýsingum sem tengjast tóbaksvörum í fríhöfnunum og jafnframt eiga fríhafnirnar líka að sjá um að skrá viðvaranir á þær tóbaksvörur sem þar eru seldar. Því miður er mikill misbrestur á því eins og allir vita sem fara um fríhafnirnar. Þar er það plagsiður að varningur sem menn kaupa er settur í plastpoka sem er merktur ýmsum vel þekktum tóbaksframleiðendum. Við teljum það miður og við teljum að það sé brot á lögum. Við teljum að það sé alveg ljóst að ákvæði tóbaksvarnalaga um skráningu viðvarana á tóbaksvarning eiga að gilda líka í fríhöfnum landsins og það er nauðsynlegt að framkvæmdarvaldið með einhverjum hætti hlutist til um að þessum lögum verði framfylgt. Það hefur ekki verið gert til þessa og það er slæmt, herra forseti. Það skapar líka misvægi að því er varðar samkeppnisstöðu þeirra sem selja þennan varning innan lands og í þessum fríhöfnum.

Ýmsar aðrar breytingar höfum við lagt til sem við teljum að brjóti í blað. Ég vek sérstaka eftirtekt á því að við 3. gr. frv. leggur nefndin til að gerðar verði tvær breytingar. Annars vegar leggjum við til að aldursmörk til kaupa á tóbaki verði hækkuð úr 17 árum eins og er í frv. í 18 ár. Ástæðan fyrir þessu er sú að rannsóknir sem hafa verið gerðar sýna það án nokkura tvímæla að reykingamönnum er því hættara við að deyja af völdum reykinga sem þeir byrja yngri að reykja. Okkur voru kynntar upplýsingar af gestum sem komu til fundar við nefndina og sýndu fram á verulega mikinn mun jafnvel á því fólki sem byrjar að reykja 16 ára og hins vegar þeim sem byrjar að reykja í kringum tvítugt. Það skiptir því miklu máli ef hægt er bara að fresta því að menn hefji neyslu tóbaks um örfá ár.

Það er rétt að upplýsa að nú eru aldursmörkin til tóbakskaupa 16 ár. Hæstv. ríkisstjórn lagði til 17 ár en við ákváðum í nefndinni að stíga skrefi lengra og hækka þetta upp í 18 ár.

Önnur breyting sem er lögð til á greininni er í 4. efnismálsgrein þar sem lagt er til að numið verði brott ákvæði sem bannar að selja vindla í stykkjatali nema á vínveitingastöðunum. Röksemdir hæstv. ríkisstjórnar fyrir þessu voru augljósar, þ.e. eðli vindlareykinga væri slíkt að það mætti ætla að ef hægt væri að kaupa vindla í stykkjatali, ýtti það undir reykingar vindla. Við teljum að þetta séu vafasöm rök og það megi raunar færa rök að hinu gagnstæða. Auk þess vek ég eftirtekt á því, herra forseti, að ef það hefði verið heimilt að selja vindla í stykkjatali á vínveitingastöðum, þá hefði mátt ætla að menn færu á vínveitingastaði beinlínis til þess að kaupa sér vindla í stykkjatali og hefðu þá jafnvel keypt sér eitt og eitt glas líka. Við töldum að þetta kynni að ýta einnig undir drykkjuskap. Þess vegna varð mikil samstaða um að fella þetta brott þannig að nú er einungis samkvæmt greininni óheimilt að selja sígarettur í minna mæli en heilum pakkningum.

Að því er varðar 5. tölulið 8. gr., herra forseti, þá er það sú grein sem sá er hér flytur framsögu hefur afar sterkan fyrirvara við eins og síðar verður gerð grein fyrir.

Við 5. gr. frv. leggur nefndin til tvær breytingar. Til fundar við nefndina komu forráðamenn íþróttafélaga og lögðu til að bætt verði við 1. tölul. ákvæði þess efnis að reykingar verði einnig með öllu óheimilar í húsakynnum sem eru einkum ætluð til íþróttastarfs barna og unglinga. Hæstv. forseta rekur e.t.v. minni til þess að við 1. umr. málsins óskaði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson eftir því að nefndin kannaði hvort ekki væri rétt að breyta 5. gr. þannig að reykingar yrðu ekki aðeins með öllu óheimilar í framhaldsskólum og sérskólum, heldur einnig Háskóla Íslands. Mönnum sýndist sitt hvað um þessa tillögu. Í nefndinni urðu hins vegar talsverðar umræður um það hvernig væri hægt að beita stofnunum hins opinbera til þess að draga úr reykingum þegar fram í sækti og þess vegna leggur nefndin til eftirfarandi málsgrein sem bætist við 5. gr. og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Forstöðumenn allra annarra opinberra stofnana en um getur í 1. mgr. skulu í samráði við starfsfólk gera áætlun um bann við reykingum innan viðkomandi stofnunar sem kemur til framkvæmda eigi síðar en fyrir lok ársins 2000. Innan sérhverrar stofnunar skal þó heimilt að gera ráð fyrir afdrepi þar sem reykingar eru heimilaðar.``

Herra forseti. Ég tel að í þessu ákvæði sem nefndin leggur til séu fólgin vatnaskil. Ég tel að þetta sé langmikilvægasta breytingin sem nefndin leggur til og hún sé í rauninni mun veigameiri en öll önnur ákvæði frv. sjálfs. Hérna er nefnilega ekki aðeins komið til móts við þá ósk sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lagði fram, heldur er beinlínis sagt fyrir um það að áður en þessi öld er úti verði allar opinberar stofnanir búnar að gera áætlun um það í samráði við starfsfólkið hvernig hægt er að hætta öllum reykingum innan viðkomandi stofnunar. Þetta, herra forseti, tel ég afskaplega mikilvæga grein og ég tel að hún muni valda því að þessi lagabreyting verði lengi í minnum höfð.

Í síðasta lagi, herra forseti, leggur nefndin til að 7. gr. breytist allverulega. Í þeirri grein er gert ráð fyrir, samkvæmt hinni upphaflegu greð frv., að skylt sé að verja a.m.k. 0,4% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarnastarfs.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að boð og bönn eins og jafnvel þetta góða frv. felur í sér, nái mjög skammt til þess að takmarka reykingar, sér í lagi þeirra sem yngri eru og það er einkum sá hópur sem við erum að reyna að ná til. Ég er þeirrar skoðunar að það sem skipti langmestu máli sé áróður og forvarnir sem felast í áróðri. En við vitum að hann kostar peninga. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra við upphaf málsins að beinn útlagður kostnaður ríkisins vegna sjúkdóma sem tengjast reykingum sé nánast hálfur milljarður kr. Stundum er það haft á orði að hið opinbera hafi miklar tekjur af innflutningi og sölu tóbaks en hv. þm. Pétur Blöndal flutti mjög merkilegt erindi á ráðstefnu um tóbaksvarnir sem haldin var í Háskólabíói fyrir nokkrum vikum þar sem hann sýndi fram á að þeir rösku 3 milljarðar sem ríkið með einum eða öðrum hætti hefur í tekjur vegna sölu tóbaksvarnings innan lands, hverfa allir einhvern veginn vegna útgjalda hins opinbera sem þessu tengjast. Þess vegna er alveg ljóst að það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur að reyna að draga úr neyslu tóbaks. Við þurfum að fá fjármagn til forvarna. Áður en þetta frv. kom fram var skylt að verja einungis 0,2% af brúttósölu tóbaks til forvarna. Þetta frv. gerir ráð fyrir 0,4% en nefndin bætti heldur um betur því að hún jók þetta hlutfall úr 0,4% upp í 0,7%. Það þýðir það að í stað þess að 20 millj. kr. verði varið til forvarnastarfsins sérstaklega, þá verði 35 millj. kr. varið til þess. Þessu fé á tóbaksvarnanefnd að ráðstafa í samráði við ráðherrann.

Herra forseti. Þetta eru í stuttu máli þær breytingar sem heilbr.- og trn. leggur til á þessu gagnmerka frv. Ég tel að ég hafi mælt fyrir þeim í ítarlegu máli og það ætti ekki að velkjast fyrir neinum að hér er um að ræða breytingar sem mönnum er auðvitað rétt og skylt að samþykkja ef þeir vilja hafa það sem betra er og sannara.