Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 14:46:42 (6346)

1996-05-21 14:46:42# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[14:46]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór mjög ítarlega í gegnum þær greinar frv. sem tóku breytingum og það eru allar megingreinar frv. Ég fór ítarlega í gegnum brtt. meiri hlutans og ég gerði mjög vel grein fyrir hvernig tilurð breytinganna verður. Og ég tel að það hafi komið áþreifanlega fram að það var ekki verið að taka tillit til sjónarmiða verkalýðshreyfingarinnar þó ég kannski í vissu háði drægi það fram að meiri hlutinn notar eiginlega þá skýringu við eina brtt. í upphafi brtt. Þar sem fór saman, gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar og áþreifanleg og skýr álit um að þarna væri annaðhvort brot á alþjóðasamþykktum eða jaðraði við það, var fremur vikið undan því. Í nokkrum tilfellum er búið að gera orðalagsbreytingar til þess að lagfæra texta því það hlýtur nú að vera viðurkennt af öllum að frv. var ekki gott eins og það lá fyrir. Það var hroðvirknislegt, illa unnið og félmn. er sannarlega öll búin að fara yfir það. Ég lagði það á mig að fara svo ítarlega yfir þessar greinar sem er óvanalegt af stjórnarandstæðingi einmitt til þess að efnið kæmi fram, ekki með einhverjum gífuryrðum af minni hálfu, heldur efnislega við umfjöllun. Í öðru lagi skiptir mig einu hver bað um álit Lagastofnunar, hitt er hins vegar staðreynd að í 1. umr. og áður en málinu var vísað til nefndar þá orðuðum við það saman, formaður félmn. og ég, að fyrstu viðbrögð okkar mundu verða að biðja um þetta álit. En ég sat ekki fund félmn. þar sem kallað var eftir því svo ég gekk út frá því að það væri að beiðni okkar stjórnarandstöðunnar sem það hefði komið fram.