Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 15:10:29 (6351)

1996-05-21 15:10:29# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[15:10]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 1. þm. Vestf. að frv. sem við erum með í höndunum hefur gjörbreyst frá því það var sett fram. Ég vil minna á og geta þess að það var lagt fram í upphaflegri mynd án athugasemda af hálfu nokkurs stjórnarþingsmanns þó nú sé það orðið óþekkjanlegt. Það er líka rétt að það er búið að draga úr frv. illvígustu eiturbroddana vegna mótmæla stjórnarandstöðunnar og vegna athugasemda allra stéttarfélaga í landinu um einstakar greinar frv. Eftir stendur að helmingastjórn íhalds og Framsóknar ætlar að keyra frv. í gegn með illu og efna til ófriðar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þessu til staðfestingar les ég, með leyfi forseta, hluta af ályktun um réttindamál launafólks sem er þingskjal nr. 23 af ASÍ-þinginu sem nú stendur yfir. Hún er svohljóðandi:

,,Ef ríkisstjórnarflokkarnir beita meiri hluta sínum á Alþingi með þeim hætti sem nú er fyrirhugað að hunsa sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar en styðja sjónarmið atvinnurekenda er ljóst að þeir valda miklu uppnámi í öllum samskiptum aðila á vinnumarkaði. Verkalýðshreyfingin telur að með samþykkt frumvarpanna muni ríkisstjórnin koma í veg fyrir að efnahagsbatinn nýtist til að efla atvinnulífið, bæta kjörin og tryggja stöðugleika. 38. þing Alþýðusambands Íslands skorar því á alþingismenn að stöðva framgang frumvarpa ríkisstjórnarinnar svo ráðrúm gefist til þess að fullreyna hvort samkomulag náist milli aðila vinnumarkaðarins um samskiptareglur sín á milli.``

Mér finnst með ólíkindum að hv. 1. þm. Vestf. skuli geta komið hér upp og sagt að frv. sé komið í ásættanlegt form. Ég trúi því ekki að menn skynji ekki og skilji ekki hvað verið er að gera með þessum vinnubrögðum, að keyra í gegn með illu frv. sem er í andstöðu við allan verkalýð í landinu.