Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 15:12:56 (6352)

1996-05-21 15:12:56# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[15:12]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá hefur það a.m.k. gerst að einn fulltrúi stjórnarandstöðunnar hefur viðurkennt að það hafi orðið verulegar breytingar á frv. og komið hafi verið til móts við athugasemdir verkalýðshreyfingarinnar. Ég hlustaði á einn þingmann fyrr í dag fyrst og fremst að reyna að halda því fram að þær athugasemdir sem hafa verið gerðar við frv. og þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv. hafi allar lotið að því að gera breytingar í samræmi við vilja Lagastofnunar en lítið tillit tekið í raun til athugasemda verkalýðshreyfingarinnar nema í þeim tilvikum þar sem þessar athugasemdir hafa farið saman. Nú hins vegar liggur það þó alla vega fyrir að hv. þm. Gísli S. Einarsson hefur séð það sem öllum átti auðvitað að vera ljóst að það hafa verið gerðar efnislegar breytingar á frv. eins og eðlilegt er. Það er mjög eðlilegt þegar verið er að fjalla um stór og viðurhlutamikil og viðkvæm mál að þau taki breytingum í þinginu. Skárra væri það nú. Til hvers halda þingmenn að við séum hér? Er það ekki m.a. til þess að fara yfir mál og reyna að gera á þeim þær breytingar sem við teljum skynsamlegastar. Það er kjarni okkar þingræðislega kerfis. Ráðherrar gera sér ævinlega ljóst og þingflokkar stjórnarflokkanna að mál geta tekið breytingum í meðförum þingsins og þannig á auðvitað þingið að vinna af sjálfstæði og heiðarleika.