Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 16:23:51 (6363)

1996-05-21 16:23:51# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[16:23]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Veldur, hver á heldur segir einhvers staðar. Ég held að við eigum að forðast nauðhyggjuhugsun. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þm. að þær breytingar sem verið er að keyra í gegnum þingið ganga í átt til mismununar og misréttis. Það var einmitt grunntónninn í máli mínu. Hins vegar eru gleðileg tíðindi að gerast á sama tíma og þau ganga í gagnstæða átt.

Samtök launafólks fylkja saman liði. Á Alþingi talar stjórnarandstaðan einum rómi. Ég held að þetta hafi verið okkur öllum og ekki síður þjóðinni mjög lærdómsríkt að fara í saumana á þessari hugmyndafræði sem ríkisstjórnin er að reyna að þröngva upp á íslenska þjóð. Mér segir svo hugur að þegar fleiri fara að okkar dæmi og kynna sér þessi frumvörp, kynna sér þær breytingar sem verið er að reyna að keyra yfir þjóðina, taki skoðanakannanir mjög miklum breytingum. Ég held að það sem muni gerast á næstu missirum og árum, kannski áratugum því að við skulum gæta þess að hugsa ekki of skammt fram í tímann, sé að það verði vakning í gagnstæða átt, gegn misréttisstefnunni og með samhjálparstefnunni. Við eigum að vísa allri nauðhyggju á dyr og reyna fremur í sameiningu að vinna að því að efla samstöðu með mönnum sem vilja verja íslenskt velferðar- og jafnaðarsamfélag.