Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 18:35:13 (6396)

1996-05-21 18:35:13# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[18:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tel eiginlega að það sé nánast neðan við virðingu manna að ræða þessa hluti með þeim hætti sem hér hefur verið gert t.d. af hæstv. félmrh. endurtekið og að nokkru leyti af fleiri talsmönnum stjórnarliðsins hér. Að stilla málum þannig upp að af því að verkalýðshreyfingin hafi slitið einhverjum viðtölum eða samtölum um þessi mál eftir tveggja ára ferli, sem er reyndar ekki rétt, sé þetta allt þeim að kenna og ekki verði við neinu gert. Það verði bara að hafa það, eins og hæstv. félmrh. sagði hér í dag. Ég tel að í fyrsta lagi sé þetta ákaflega mikil einföldun á atburðarásinni eins og ég þekki til hennar og hún hefur verið rakin af öðrum. Það liggur fyrir að það var hæstv. ríkisstjórn sem ákvað að bíða ekki lengur og gefa þessu starfi ekki lengri tíma. Hún tók málið í einhliða vinnslu af sinni hálfu og fór að undirbúa frv. og hvaðeina eftir sínu höfði. Þá sleit verkalýðshreyfingin auðvitað frekari fundarhöldum. Hún sá ekki ástæðu til að láta traktera sig þannig. En jafnvel þótt stjórnarliðar hefðu rétt fyrir sig mundi það ekki breyta þeirri stöðu sem málin eru nú í. Verkalýðshreyfingin er á móti þessu og vill ekki una því að svona sé með hana farið og að þröngvað sé upp á hana samskiptareglum um hennar eigin mál, samskiptareglum á vinnumarkaði, með þessum aðferðum. Og það vita allir sem lent hafa í deilum, hvers konar deilur sem það eru, átök milli manna, félagasamtaka eða styrjaldir milli þjóðarbrota eða hvað það nú er, að það þýðir ekkert þegar út í deilurnar er komið að eyða öllu púðrinu í að þrátta um upphafið. Menn verða að horfa á aðstæðurnar eins og þær eru og reyna að leysa þær. Verkefnið núna er ekki að rífast um það hverjum um er að kenna heldur hitt að reyna að ná aftur upp stjórnmálasambandi milli þessara mikilvægu aðila í þjóðfélaginu. Og stjórnarliðar og hæstv. ráðherra ættu að hafa vit á því að eyða orku sinni í það en ekki pex um það sem liðið er.