Vegáætlun 1995--1998

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 16:49:19 (6459)

1996-05-22 16:49:19# 120. lþ. 145.9 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, MS
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[16:49]

Magnús Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu eins og fram kom í kynningu hæstv. forseta, vegáætlun fyrir árið 1996. Vegamál eru eitt af stóru málunum í huga þjóðarinnar ekki síst út um landsbyggðina. Mikilvægi samgangna fyrir þjóð eins og Íslendinga í landi eins og við byggjum er mjög mikið.

Ég hef gjarnan sagt sem svo að vegamálin séu eitt stærsta byggðamálið og því horfa landsmenn sérstaklega til þeirra mála. Það er ljóst að framkvæmd og fjárþörf er mikil víða um land og stór og smá verkefni bíða og hafa beðið árum saman og því er horft mjög til þessara mála. Því má ekki gleyma þrátt fyrir allt að mikið hefur áunnist á síðustu árum og er það vel.

Ástæða þess að við erum að fjalla um vegáætlun er sú að vegna efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar þótti nauðsynlegt að taka á útgjöldum til vegamála og lækka þau heldur frá því sem gert var ráð fyrir. En það hefði hins vegar verið óskastaða fyrir okkur alla hv. þm., tel ég, að fjármagn til vegagerðar væri meira en raun ber vitni í þeim tillögum sem liggja fyrir. En eins og ég sagði er ástæða þess að við erum hér að fjalla um vegáætlun að samkvæmt markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar þá er unnið að því að ná afkomu ríkissjóðs í jafnvægi. Fyrir árið 1996 var gert ráð fyrir því í fjárlögum að halda útgjaldaþenslu ríkissjóðs í skefjum og ná þar með áfanga í því að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Þess vegna þurfum við að skera niður vegaframkvæmdir ef við viljum orða það þannig eins og ég sagði áðan.

Þessi markmið og stefna sem birtist m.a. í þessu máli er ekki að ástæðulausu svo ég fari nú í nokkrum orðum yfir það því ef við hefðum haldið áfram á þeirri braut sem verið hefur undanfarin ár þá er ljóst að mjög mundi halla á verri veg fyrir fjárhag ríkisins og er ekki á það bætandi. Það mundi einnig valda því þegar fram í sækti að fjármagn til vegagerðar mundi væntanlega minnka allverulega vegna þess að við þyrftum að eyða meiri fjármunum í að greiða vexti og annað slíkt sem fylgir skuldasöfnun sem menn þyrftu að fara út í til að halda uppi rekstri og starfsemi ríkisins.

En eins og ég sagði áðan eru auðvitað viss vonbrigði að standa frammi fyrir þessu máli en við höfum tekið þá ákvörðun að vinna að þessu markmiði og stjórnarflokkarnir standa saman að því og þetta er meginskýringin á því af hverju við erum að ræða þessi mál hér og nú á þennan hátt.

Herra forseti. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, sem er formaður samgn., gerði grein fyrir nál. meiri hluta samgn. og ég ætla ekki að fara frekar yfir það. Ég vitna til þess. Ég vil hins vegar aðeins leggja áherslu á tvö atriði sem komu fram í nál. Í fyrsta lagi er þar um að ræða að gert er ráð fyrir sérstökum fjármunum til öryggismála sem er mjög brýnt til að koma í veg fyrir umferðarslys víða á þjóðvegum landsins. Hér fyrr í þessari umræðu hafa menn m.a. rætt um vandamál sem víða eru í sambandi við þjóðvegakerfið sökum þess hve ýmsar brýr eru vanbúnar til að taka við þeirri umferð sem fer um þjóðvegina. Ég tel að þarna sé um mjög mikilvægt atriði að ræða og því beri verulega að fagna að við skulum geta farið út í þessar aðgerðir.

Í öðru lagi er þarna um að ræða að í tengslum við framkvæmdir við Hvalfjarðargöng eru gerðar nokkrar breytingar á flokkun vega í vegáætluninni. Þar á meðal eru nokkrir vegir í Vesturl. sem tengjast Hvalfjarðargöngunum. Ég ætla ekki að rekja það nánar en vildi vekja athygli á þessu máli.

Samgn. birtir breytingartillögu varðandi skiptingu fjármagns til einstakra verkefna í kjördæmum landsins. Eins og fram kemur í nál. byggir það á samkomulagi þingmannahópa í öllum kjördæmum. Mig langar aðeins af því tilefni að fara yfir helstu framkvæmdir í Vesturl. og um leið að taka undir það sem hv. þm. Gísli S. Einarsson sagði fyrr í umræðunni að þar var full samstaða meðal þingmanna kjördæmisins um skiptingu vegafjár á þessu ári.

Helstu framkvæmdir í Vesturl. eru við Gilsfjarðarbrú en það er framkvæmd sem menn hafa mjög horft til undanfarin ár og hafa beðið í nokkurn tíma. Þær eru mjög mikilvægar fyrir bæði Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu á Vestfjörðum. Þessar framkvæmdir eru sem sagt hafnar og er það ánægjuefni. Vil ég geta þess að það var full samstaða meðal þingmanna bæði Vesturl. og Vestf. um að hleypa þessu verkefni af stokkunum.

Einnig vil ég nefna áframhald framkvæmda verkefnisins Búlandshöfði. Það verkefni er skilgreint allt frá Mýrum í Eyrarsveit yfir í svokallaðan Leyning í hinum forna Fróðárhreppi sem nú heitir Snæfellsbær. Þarna er um mjög mikilvægar framkvæmdir að ræða og í ár er gert ráð fyrir því að byggja upp veginn frá Mýrum rétt utan við Grundarfjörð og að Búlandi. Það sem er mikilvægast við þetta verkefni er að með þessu er verið að styrkja allverulega atvinnu- og þjónustusvæði á norðanverðu Snæfellsnesi og er það mjög mikilvægt mál. Þarna er um að ræða fulla samstöðu sveitarstjórnarmanna á svæðinu en það sýnir mikilvægi þessa máls. Það er mikið ánægjuefni að þessi framkvæmd skuli vera komin þetta af stað.

Í þriðja lagi vil ég nefna að eins og þjóðin veit eru hafnar framkvæmdir við Hvalfjarðargöng. Í tengslum við þau verður farið í vegagerð bæði undir Akrafjalli og einnig verður byggð ný brú í botni Hvalfjarðar og kemur hún í stað gamallar og ófullkominnar brúar sem nú er í Hvalfjarðarbotni og verður þar einnig um mjög mikla framför að ræða hvað varðar öryggismál.

Næst vil ég nefna verkefni við Borgarfjarðarbraut sem einnig er mjög mikilvægt að sjálfsögðu eins og öll önnur verkefni í vegagerð. Það lýtur að því að styrkja og byggja upp samgöngur í uppsveitum Borgarfjarðar. Borgarfjarðarbraut, svo ég skýri það nánar, er skilgreind frá Kleppjárnsreykjum niður í Andakíl. Það er gert ráð fyrir því að hefja framkvæmdir við þetta verkefni á þessu ári.

Einnig má nefna framkvæmdir við vegagerð á sunnanverðu Snæfellsnesi í hinum nýja Snæfellsbæ og það er áframhald vegagerðar vestur undir Fróðárheiði. Auk þessara verkefna er um að ræða ýmis smærri verkefni sem ég ætla ekki að tíunda frekar að þessu sinni. Ég vildi nefna þau helstu og stærstu á þessu ári. Í Vesturl. eins og annars staðar bíða mörg og stór verkefni og íbúar kjördæmisins bíða með óþreyju eftir því að ráðist verði í þau.

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu um vegáætlun hefur komið fram nokkur gagnrýni frá stjórnarandstöðunni og lýtur hún aðallega að tveimur þáttum. Í fyrsta lagi er um að ræða gagnrýni á þennan niðurskurð sem rætt er um og telur stjórnarandstaðan algjörlega óásættanlegt að standa frammi fyrir honum. Ég hef útskýrt það mál og ætla ekki að orðlengja um það. Hins vegar er þessi málflutningur stjórnarandstöðu að mörgu leyti skiljanlegur og út af fyrir sig gæti maður tekið undir hann en ég hef nú rakið ástæður hans að framan.

Þá hefur stjórnarandstaðan, einkum og sér í lagi hér á höfuðborgarsvæðinu, gagnrýnt að meiri niðurskurður sé á framkvæmdum á höfuðborarsvæðinu en annars staðar á landinu. Þetta get ég ekki tekið undir. Ég vil nefna það að þegar vegáætlun var útfærð þá laut höfuðborgarsvæðið nákvæmlega sömu lögmálum og öll önnur kjördæmi í landinu. Hins vegar liggur þessi gagnrýni í því að hér er um að ræða sérstakt framkvæmdaátak sem ákveðið var fyrir líklega tveimur árum eða svo. Telja nokkrir stjórnarandstæðingar að verulega sé gengið á hlut höfuðborgarsvæðisins í þessum málum. En ég ítreka að höfuðborgarsvæðið var látið lúta nákvæmlega sömu lögmálum og önnur kjördæmi varðandi endurskoðun vegáætlunar að þessu sinni.

Í tengslum við þetta mál liggja fyrir þinginu breytingartillögur og vil ég aðeins geta um aðra þeirra sérstaklega. Það er tillaga sem kom til umræðu fyrr við þessa umræðu og lýtur að því að auknar tekjur af vörugjaldi á eldsneyti verði nýttar til vegaframkvæmda í Ártúnsbrekku, sérstaklega. Það sem vekur athygli kannski fyrst í þessu sambandi er að þessi tillaga er ekki við vegáætlun heldur við lög um fjáröflun til vegagerðar og mér finnst afar sérkennilegt að í þeirri breytingartillögu við þau lög sé sérstaklega tekið fram í nákvæmlega hvaða verkefni slíkir fjármunir ættu að nýtast.

[17:00]

Þessi tillaga vekur einnig þá spurningu hvort flutningsmenn gætu t.d. hugsað sér það ef tekjur af vörugjaldi vegna eldsneytis á næsta ári yrðu lægri en áætlað er að bera þá fram tillögu um að draga sambærilega úr fjármagni til vegagerðar.

Í umræðunni hefur einnig vakið athygli mína að einn hv. þm. úr landsbyggðarkjördæmi, Gísli S. Einarsson, tók undir þessa tillögu. Það vekur athygli vegna þess að ég þykist vita að hv. þm. viti eins og ég að víða er þörf á framkvæmdum vegna öryggismála. Hann taldi einmitt meginrökin fyrir þessu öryggissjónarmið, en úti um allt land eru víða mikilvæg verkefni hvað lýtur að öryggismálum og vil ég þar sérstaklega nefna einbreiðar brýr víða á þjóðvegakerfinu. Ég vildi sérstaklega nefna þetta, virðulegi forseti, vegna þess að þetta vakti athygli mína í umræðunni hér fyrr.

Það liggur einnig fyrir brtt. af svipuðum toga en hún er við vegáætlun frá nokkrum þingmönnum þar sem 1. flm. er hv. þm. Svavar Gestsson. Hún gerir einnig ráð fyrir því að nýta þetta fjármagn sem áður er greint, auknar tekjur af vörugjaldi af eldsneyti. Ég verð að segja að mér finnst miklu eðlilegri hugsun á bak við þá tillögu vegna þess að þar er um að ræða að þessu fjármagni verði dreift út á vegáætlun eins og öðru vegafé. Þessi tillaga er miklu eðlilegri ef menn á annað borð vilja fara þá leið að taka þetta fjármagn á þennan hátt. Ég tel hins vegar að miðað við stöðuna sé ekki efni til þess að fara að þessum tillögum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja frekar um vegáætlun að þessu sinni. Víða um landið er mikil þörf á framkvæmdum í vegamálum. Eins og ég sagði í upphafi tel ég þær eitt brýnasta byggðamálið sem við stöndum frammi fyrir og auknar samgöngur styrkja mjög byggð um allt land, ekki síður en á höfuðborgarsvæðinu.

Ég vil einnig nefna að á síðustu árum hafa aukist mjög þungaflutningar á þjóðvegunum og kemur það til vegna breytinga í flutningatækni þar sem m.a. sjávarafurðir eru í æ ríkara mæli fluttar með stórum flutningabílum um þjóðvegi landsins í stað strandflutninga sem áður tíðkuðust. Þetta er athugunarefni og tel ég að samgönguyfirvöld þurfi að skoða þessi mál sérstaklega í ljósi þessarar þróunar. Ég geri ráð fyrir því að á komandi hausti verði farið í að endurskoða vegáætlun til lengri tíma og ætla ég þess vegna ekki að ræða meira um verkefni sem liggja fyrir og þörf er á, en vísa til þeirrar umræðu.

Ég vil einnig að lokum varpa fram þeirri hugmynd, sem reyndar er ekki ný, hvort ekki sé rétt að skoða samgöngumálin í heild sinni. Við erum að tala um vegáætlun og skiptingu fjármagns til vegaframkvæmda. Við munum væntanlega síðar á þessu þingi fjalla um flugmálaáætlun til uppbyggingar flugvalla o.s.frv. Svo er annað sem heitir hafnaáætlun þar sem um er að ræða skiptingu fjármagns til hafnaframkvæmda út um allt land. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki úr vegi að menn ræði það hvort ekki sé rétt að skoða þessar áætlanir allar í heild þannig að menn hafi heildstæða yfirsýn yfir samgönguframkvæmdir um landið í heild sinni og hvort menn gætu hugsanlega séð út úr því leiðir til hagkvæmni og betri nýtingar fjármagns.