Vegáætlun 1995--1998

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 17:05:05 (6460)

1996-05-22 17:05:05# 120. lþ. 145.9 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[17:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ótrúlegt að hlusta á hv. þm. fjalla um vegáætlun eftir þá umræðu sem fram fór fyrr um þetta mál. Að halda því fram að niðurskurður á höfuðborgarsvæðinu sé ekki meiri en annars staðar er náttúrlega reginfirra. 36% niðurskurður á framkvæmdafé sem einnig er vegafé, hv. þm., er auðvitað meiri niðurskurður en 18% niðurskurður. Það er eins og hver önnur hundalógík að halda öðru fram.

Varðandi þá brtt. sem ég ásamt fjórum öðrum hv. þingmönnum lagði fram, reyndar ekki brtt. við vegáætlun eins og fram kom, heldur við lög um fjáröflun til vegagerðar, má segja að þar sé um ákveðna slysavörn að ræða. Það hefur komið fram í máli manna, m.a. frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, að slysahættan sem verður við það að draga framkvæmdir í Ártúnsbrekku gæti orðið ríkissjóði útgjaldameiri en sparnaður vegna niðurskurðar í vegamálum. Vegna gagnrýni hv. þm. á þá brtt. við frv. um fjáröflun til vegagerðar að fé fari til þessarar framkvæmdar til að halda áætlun í Ártúnsbrekkunni vil ég segja að það vantar lagastoð til þess að nota þetta aukna fé vegna hækkaðs bensínverðs til vegagerðar. Það vantar lagastoðina og þess vegna er lagabreytingin sett fram í þessu formi. Breyting hv. þm. Svavars Gestssonar er auðvitað góð og gild og er í sömu veru. En lagastoðina til nýtingar þessa fjármagns til framkvæmdanna vantar. Það er hún sem við viljum tryggja með okkar brtt. Ég vil því mótmæla þessum orðum hv. þm. Magnúsar Stefánssonar.