Vegáætlun 1995--1998

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 17:24:08 (6466)

1996-05-22 17:24:08# 120. lþ. 145.9 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[17:24]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykv. fyrir málefnalegt innlegg í umræðu um tillögu hans. Hann rakti réttilega hvernig þessu framkvæmdaátaki var háttað þannig að því er komið á framfæri.

Ég vil einnig taka undir að það er nauðsynlegt að það ríki sátt í vegamálum milli dreifbýlis og landsbyggðar og við eigum ekki að takast á um þau efni enda hefur það ekki verið gert. Landsbyggðarmenn hafa lagt mikla áherslu á vegamál en ég man ekki til að það hafi verið hörð átök um vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu enda hafa þær verið miklar á undanförnum árum. Hins vegar vil ég tek ég fram varðandi tillöguna að í mínum huga er betra að nota þennan ávinning í tekjunum til þess að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og skapa grunn fyrir traustari og meiri framkvæmdir í vegamálum á næstu árum. Það er einu sinni þannig með þennan tekjustofn að hann er sveiflukenndur og sem betur fer berast nú fréttir af því að það er útlit fyrir lækkanir á eldsneyti þannig að mér finnst að við ættum að nota þennan ávinning til þess að treysta grunninn og það muni koma vegamálunum bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni til góða jafnvel strax á næsta ári. Við landsbyggðarmenn erum ekki óvanir því að horfa upp á einhverja frestun framkvæmda en ég geri hvorki lítið úr slysahættu né mikilvægi þeirra framkvæmda sem hér um ræðir, síður en svo, og ég ítreka þá skoðun mína að við eigum að hafa heildarsýn í vegamálum.