Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 14:40:17 (6525)

1996-05-23 14:40:17# 120. lþ. 147.5 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 147. fundur

[14:40]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru fjöldamörg atriði sem hv. þm. kom inn á sem hefði verið ástæða til þess að fjalla um og kannski verður tilefni til þess við tækifæri síðar í umræðunni en ekki í þessu stutta andsvari.

Það er aðeins eitt efnisatriði í ræðu hans sem ég vildi aðeins koma inn á. Hv. þm. varpaði því fram nokkurn veginn eftir fyrsta kortérið eða svo í ræðu sinni, en það laut að spurningunni um það hvort það sem við værum að leggja til varðandi eitt gjaldskrársvæði hér á landi stæðist samkvæmt alþjóðlegum samningum.

Því er til að svara að það er sannfæring og skoðun meiri hluta samgn. að þetta standist, ella hefðum við að sjálfsögðu ekki lagt fram tillögu af þessu tagi. Okkur er fullkomin alvara með málinu og létum fara ofan í það mál mjög rækilega og erum sannfærðir um að þetta standist þá alþjóðlegu samninga og alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur.

Það sem er grundvallaratriði og er reginmunurinn á okkar tillögu og tillögu minni hluta samgn. er að við erum að leggja til að gjöld fyrir símaþjónustu verði hin sömu fyrir allt landið og að það gildi óháð því hvaða fyrirtæki eigi í hlut vegna þess að okkur finnst það mjög óeðlilegt að gera kröfu til eins fyrirtækis eins og Pósts og síma um að það starfi þannig að því sé gert að selja alla sína langlínu- og staðartaxta á einu verði en síðan komi annað fyrirtæki sem geti unnið með öðrum hætti. Ég held að þetta sé meginatriði og menn verði að hafa þetta sérstaklega í huga. Spurningunni um það hvort þetta þýði að öll fyrirtækin verði að hafa eitt og hið sama verð svara ég neitandi. Að sjálfsögðu munu þessi fyrirtæki keppa á grundvelli samkeppninnar eins og okkar löggjöf segir til um og verðsamráð er auðvitað óheimilt í þessum efnum.