Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 17:30:45 (6531)

1996-05-23 17:30:45# 120. lþ. 147.5 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 147. fundur

[17:30]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn vafi á því að ef Pósti og síma væri breytt í sjálfstætt fyrirtæki sem væri alfarið í eigu ríkisins án þess að um hlutafélag væri að ræða, hefði það fyrirtæki alveg sama svigrúm til samninga við erlenda aðila eins og hlutafélag hefur. Þar er enginn munur á og ég er sannfærður um að fyrirtæki sem væri sjálfstætt næði ekki lakari samningum en hlutafélag með sama nafni, þar er enginn munur á.

Hvað varðar lífeyrisréttindin hefði verið æskilegt að gengið hefði verið frá því fyrir fram og í öllu falli ekki seinna en nú að starfsmennirnir héldu öllum þeim réttindum sem þeir hafa í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og einnig þeim rétti sem þeir hafa á að bæta við sig og við höfum nefnt hér og ég fór áðan ítarlega í, ávinnsluréttindi. En hætta er á því að einmitt sá þátturinn glatist. Ég hef ekki orðið var við að gefin væri nein trygging í þessu efni þó vissulega sé málið til góðviljaðrar skoðunar hjá einstökum mönnum.

Hvað varðar grein Morgunblaðsins þá vitum við um yfirlýsingu ráðherrans og það er vilji hans að um verði að ræða eitt hlutabréf í þessu hlutafélagi en Morgunblaðið er málgagn Sjálfstfl. (Gripið fram í: Nei, nei, nei, nei.) Morgunblaðið túlkar þær skoðanir sem mest eru uppi innan Sjálfstfl. og því er eðlilegt að bent sé á að Morgunblaðið er að gera því skóna í þessari grein að Pósti og síma verði skipt upp í smærri fyrirtæki og að gengið verði miklu lengra en þegar hefur verið gert.