Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 15:18:51 (6564)

1996-05-24 15:18:51# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[15:18]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég er reiðubúin að bíða með ræðu mína þar til fjmrh. hefur lokið erindum sínum utan þingsalar en að öðrum kosti hef ég mál mitt.

Ég ætla að fá að taka hér til máls, virðulegur forseti, undir liðnum Frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eða það frv. sem liggur hér fyrir. Ég geri mér fullljóst að gildandi lög eru rúmlega 40 ára gömul og því tímabært að endurskoða þau. Þetta er hins vegar vandmeðfarið verk og það verður ekki gert nema í fullu samráði og samvinnu við starfsmenn ríkisins og stéttarfélög þeirra. Því miður hefur hæstv. ríkisstjórn ekki borið til þess gæfu. Hún hefur í þessu máli sem öðrum sem snúa að vinnandi stéttum í landinu rúið sig trausti.

Með frv. sem hér liggur fyrir er verið að gera miklar breytingar á efnisatriðum sem tengjast kjarasamningum beint og þannig er þessi ríkisstjórn að breyta þessum kjarasamningum einhliða. Það kemur e.t.v. ekki á óvart í ljósi þess sem á undan er gengið en það eru stór tíðindi þegar samningsréttur er tekinn þannig af fólki með lagaboði í trássi við hefðir og alþjóðlega sáttmála sem stjórnvöld hafa undirgengist og lofað að virða.

Við gerð fjárlaga í vetur voru ellilífeyrisþegar og öryrkjar sviptir samningsrétti um kjör sín og settir hreinlega á föst fjárlög. Verður það næsta sem við sjáum að laun opinberra starfsmanna verða ákveðin hér á hinu háa Alþingi af meiri hluta þess án þess að samningar hafi verið gerðir á milli aðila?

Hvað þetta frv. varðar hefur sem betur fer verið hægt að koma í veg fyrir nokkur af stærstu slysunum sem það hefði leitt til hefði það náð fram að ganga óbreytt. En það er alveg ljóst að það þarf enn að færa ýmis ákvæði frv. til betri vegar og tengja það við þann veruleika sem við búum í.

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til að staldra við nokkur atriði frv. en ég ætla hér aðeins að gera eitt þeirra að umtalsefni. Það er 38. gr. þessa frv. í VII. kafla sem fjallar um sérstakar skyldur forstöðumanna stofnana. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ráðherra setur sérhverjum forstöðumanni stofnunar erindisbréf þar sem tilgreind skulu helstu markmið í rekstri stofnunar og verkefni hennar, bæði til lengri og skemmri tíma litið.

Forstöðumaður ber ábyrgð á að stofnun, sem hann stýrir, starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf skv. 1. mgr. Forstöðumaður ber og ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Ef útgjöld fara fram úr fjárlagaheimildum, verkefnum stofnunar er ekki sinnt sem skyldi eða þjónusta hennar telst óviðunandi getur ráðherra veitt forstöðumanni áminningu skv. 21. gr. eða veitt honum lausn frá embætti skv. VI. kafla ef hann hefur gerst sekur um ítrekaða eða stórfellda vanrækslu í starfi með þeim hætti sem að framan er lýst.``

Herra forseti. Þessar greinar frv. eru svo fullar af mótsögnum að furðu sætir. Auðvitað ber mönnum að virða landslög en það verður að hafa það í huga að fjárlög endurspegla forgangsröðun stjórnvalda á hverjum tíma en taka ekki endilega mið af þeim veruleika sem birtist forstöðumönnum og stjórnendum opinberra stofnana. Þau endurspegla heldur ekki þau markmið og skyldur sem önnur lög leggja á herðar opinberra starfsmanna að sinna. Ég spyr, herra forseti, hvaða lögum ber mönnum að hlíta? Ég vil biðja þá fáu þingmenn sem hér eru í dag að fara í huga sínum yfir þann veruleika sem sjúkrahúsin, öldrunarstofnanirnar og þjónustustofnanir við fatlaða í landinu, búa við. Þeim er skammtað fjármagn í fjárlögum sem hvergi dugar til að mæta þeirri eftirspurn sem er eftir þjónustu þessara aðila. Þessar stofnanir hafa mátt sæta miklum niðurskurði á undanförnum árum og svo virðist sem áframhald verði á því. Ég vil í þessu samhengi minna á umræður um heimili fjölfatlaðra í Reykjavík og fréttir sem birtust okkur í gærkvöldi í fréttum ljósvakamiðlanna um neyðarástand sem er að skapast á sjúkrahúsunum í Reykjavík. Hversu lengi geta opinberir starfsmenn borið ábyrgð á þjónustunni undir þessum kringumstæðum? Vandi þeirra sem starfa á velferðarstofnunum þjóðfélagsins er m.a. sá að menn hafa veigrað sér við að taka þær nauðsynlegu pólitísku ákvarðanir um magn og gæði þeirrar þjónustu sem hverri stofnun er skylt að veita og skýra t.d. með markvissari hætti hvert hlutverk einstakra sjúkrahúsa á að vera. Þar til það verður gert er ég hrædd um að starfsmenn t.d. sjúkrahúsanna eigi erfitt með að horfa fram hjá þeim grundvallarskyldum sem heilbrigðislög leggja þeim á herðar. Að öðrum kosti værum við sennilega að taka upp vinnubrögð sem eru farin að einkenna t.d. breskt heilbrigðiskerfi þar sem fárveikum sjúklingum er vísað frá einu sjúkrahúsi til annars vegna þess að fjárhagsrammi þessara sjúkrastofnana hefur verið tæmdur. Mér vitanlega hafa stjórnvöld ekki komið á neinni forgangsröðun til heilbrigðisþjónustunnar hér á landi þannig að það er ljóst að þar verður úr vöndu að ráða fyrir forstöðumenn sjúkrahúsanna eða annarra velferðarstofnana nái þetta frv. að verða að lögum. Hætt er við að þar blasi við auðn í þeirra röðum nema þá að þeir bregðist þeim lagalegu og siðferðilegu skyldum sem önnur lög leggja þeim á herðar. Hvort ber þeim að lúta skyldum fjárlaga um hallalausan rekstur eða þeim grundvallarskyldum sem önnur lög segja til um svo sem lög um heilbrigðisþjónustu, lög um málefni aldraðra eða málefni fatlaðra? Samkvæmt þessum lögum ber opinberum starfsmönnum sem þar starfa t.d. að veita öllum bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma, skapa fötluðum sambærileg lífskjör og aðrir búa við og gera öldruðum kleift að lifa lífinu með reisn.

Herra forseti. Fjmrh. hefur væntanlega svör við þeim siðferðilegu álitamálum sem ég hef varpað hér fram og væri fróðlegt að heyra svör hans við þeim. Ég er næsta viss um að fleiri bíða þeirra en ég. Hefur hæstv. ríkisstjórn í hyggju að breyta stoðum þeirra laga sem ég hef vitnað í hér að framan og e.t.v. einhverjum fleiri lagabálkum sem varða starfsskilyrði og skyldur opinberra starfsmanna? Það væri fróðlegt að fá að vita það. Ég held að ég sé ekki ein um að vita ekki hvernig við eigum að framfylgja þessu ákvæði, verði það ekki gert. Ég held að ég verði að taka undir, herra forseti, orð þeirra sem hér hafa talað á undan mér í dag og hreinlega skora á hæstv. ríkisstjórn að taka þetta frv. aftur til sín og nota sumarið sem fer í hönd til að vinna heimavinnuna sína ögn betur og gera það í fullu samráði við opinbera starfsmenn sjálfa og þeirra stéttarfélög. Það væri meiri reisn yfir slíkum vinnubrögðum.