Réttarstaða fólks við gildistöku EES-samningsins

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 13:53:17 (6597)

1996-05-28 13:53:17# 120. lþ. 149.2 fundur 427. mál: #A réttarstaða fólks við gildistöku EES-samningsins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[13:53]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það komu fram yfirlýsingar á fleiri stöðum en á hv. Alþingi við afgreiðslu EES-samningsins. Það liggur fyrir á fundi ráðherra 14. nóv. 1990 yfirlýsing þess efnis að félagsleg réttindi Norðurlandabúa ættu ekki að skerðast þó að yrði af þessari víðtæku samningagerð sem EES-samningurinn er. Hins vegar er ljóst af máli hæstv. heilbrrh. áðan að þær skerðingar, sem hafa orðið, eru í raun mun víðtækari en maður hafði gert sér í hugarlund. Þær hafa átt sér stað og þessi aðildarlönd, Norðurlöndin, hafa breytt sinni löggjöf þannig að það er orðið verulegt ósamræmi þarna á milli. Engu að síður hefur erindum sem hafa verið send skrifstofu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi þar sem beðið hefur verið um skýringar á bæði þessum mismun sem á sér stað í dag varðandi réttindi t.d. til fæðingarorlofs og einnig vegna atvinnuleysisbóta verið svarað á þá leið að þarna sé um mistök að ræða sem verði leiðrétt. Hins vegar kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan ef ég skildi hann rétt að ráðherrar Norðurlandanna, ráðherraráðið, hefði gefið út þá niðurstöðu sína að ekki væri ástæða til þess að taka upp eða breyta þeim samningum sem væru í gildi í dag. Mér finnst auðvitað mjög sorglegt að niðurstaðan skuli hafa verið sú vegna þess að 19. maí 1994 fengu þeir mjög ítarlegt bréf þar sem farið var yfir þessa skerðingu og bent á að þarna þyrfti að eiga sér stað leiðrétting og einnig aftur í tímann. Bréfið er sent frá þessari skrifstofu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 19. maí 1994.

Ég vildi gjarnan heyra hjá hæstv. ráðherra hvernig farið er með mál eins og þetta sérstaka sem ég nefndi áðan sem var í blaðaviðtali síðan 12. febr. á þessu ári þar sem virðist vera um það að ræða að þessi hjón, þar sem maðurinn er að vísu atvinnulaus, að konan á hvorki rétt á fæðingarstyrk eða fæðingarorlofi vegna þess að þau fluttu búferlum til Íslands. Svíar neituðu að greiða og hér var neitað líka.