Meðferð brunasjúklinga

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:06:54 (6603)

1996-05-28 14:06:54# 120. lþ. 149.3 fundur 521. mál: #A meðferð brunasjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka ráðherra fyrir svörin. Ég tel að það sé ansi langt að bíða til næstu áramóta varðandi úrbætur hvað varðar brunasjúklinga á Landspítalanum. Á lýtalækningadeild Landspítalans bíða um 500 manns úrlausnar á biðlista sem varla hreyfist. Og eins og kom fram hjá mér áðan þá koma aðeins sjúklingar með legusár og húðkrabbamein þarna inn og síðan brunasjúklingar en þeir koma auðvitað ekki af biðlistum. Þeir gera ekki boð á undan sér.

Ég tel að ástandinu varðandi aðbúnað brunasjúklinga og meðferð þeirra sé hægt að líkja við rússneska rúllettu, bæði gagnvart sjúklingunum og útgjöldunum í heilbrigðiskerfinu því að það er alger tilviljun hvort brunasjúklingur fær sýkingu eða ekki við þær aðstæður sem ríkja á Landspítalanum þrátt fyrir að allir starfsmenn leggi sig fram við að gera sitt besta.

Það er líka guðs mildi að ekki hefur þurft að senda brunasjúkling úr landi sem kostar jafnvel mun meira heldur en koma þessari aðstöðu í lag. Þetta gætu því jafnvel verið meiri útgjöld en sparnaður að draga það að koma þessu í betra horf.

Ég vil gera orð sýkingarvarnanefndar um þessi mál að mínum en þeir segja að það sé erfitt að meta hvað sparast með lokunum, en hættan eykst á spítalasýkingum og spítalasýkingar gætu gert slíkan sparnað að engu. Þetta er nánast það sama sem ég var að segja og þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til þess að taka á málum þessarar deildar fyrr en um næstu áramót, helst strax.