Efnistaka úr Seyðishólum

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:28:26 (6610)

1996-05-28 14:28:26# 120. lþ. 149.5 fundur 509. mál: #A efnistaka úr Seyðishólum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:28]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það mál sem hér um ræðir og varðar efnistöku úr Seyðishólum í Grímsnesi var til meðferðar hjá skipulagsstjóra ríkisins í samræmi við lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum og úrskurðaði hann í málinu í samræmi við lögin 29. fyrra mánaðar. Samkvæmt lögum er heimilt að kæra úrskurð skipulagsstjóra ríkisins til umhvrh. innan fjögurra vikna frá því að hann birtist. Samkvæmt þessu stendur kærufrestur út þennan mánuð. Eftir því sem ég best veit hafa engar kærur komið enn, en fram hefur komið í fréttum að ýmsir aðilar hafa ákveðið að nýta sér kæruheimildina og mun það þá trúlega skýrast þessa dagana. Það virðist því ljóst að málið komi til úrskurðar umhvrh. og þegar af þeirri ástæðu mun ég ekki fjalla um málið efnislega á Alþingi á þessu stigi.

Í framhaldi af spurningu fyrirspyrjanda vil ég að það komi skýrt fram að mér er að sjálfsögðu kunnugt um andstöðu sumarhúsaeigenda í Árnessýslu við að leyfa efnistöku úr Seyðishólum. Að slíku þarf ekki að spyrja, enda hefur það ítrekað verið í fjölmiðlum og greint frá því. Grímsneshreppur sem er eigandi umrædds lands og þar með námueigandi og samningsaðili hlýtur að fylgjast með framkvæmd samningsins og er sem slíkur umsagnaraðili, t.d. um mat á umhverfisáhrifum, samkvæmt gildandi lögum. Skipulagsstjóri ríkisins hefur hins vegar eftirlit með framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum og að settum skilyrðum sé fylgt og Náttúruverndarráð hefur sérstakt eftirlit með efnistökunni.

Að sjálfsögðu munu sumarbústaðaeigendur eiga þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðherra. Auk þess eiga þessir aðilar samkvæmt áðurnefndum lögum um mat á umhverfisáhrifum rétt á að kæra málið til ráðherra og geta komið öllum sínum sjónarmiðum á framfæri þar.

[14:30]

Samkvæmt áðurnefndum lögum, sem og stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, ber ráðherra að veita öllum hlutaðeigandi rétt til að koma skoðunum sínum á framfæri, þ.e. nýta svokallaðan andmælarétt, þannig að ég mun ekki taka ákvörðun í málinu, verði það kært eins og flest bendir til, öðruvísi en að sjónarmið hlutaðeigandi aðila komi fram.

Að síðustu vil ég benda á svo það misskiljist ekki að samkvæmt 4. lið fyrirspurnarinnar mætti halda að umhvrh. veiti leyfi til efnistöku, þar sem spurt er: ,,Hyggst ráðherra veita umbeðið leyfi fyrir efnistöku?`` Svo er auðvitað ekki, heldur felst í afstöðu ráðherra til mats á umhverfisáhrifum eingöngu hvort framkvæmdin sé ásættanleg með hliðsjón af umhverfi, náttúruauðlindum og samfélagi og þá með hvaða skilyrðum beri svo undir.