Losun koltvísýrings

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:35:57 (6614)

1996-05-28 14:35:57# 120. lþ. 149.6 fundur 512. mál: #A losun koltvísýrings# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:35]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Á þskj. 921 ber ég fram fyrirspurn til hæstv. umhvrh. um losun koltvísýrings. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hver var heildarlosun koltvísýrings (CO2) hér á landi árið 1990, hver er hún nú og hver má ætla að hún verði árið 2000, m.a. að teknu tilliti til stóriðjuuppbyggingar?

2. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um að losun koltvísýrings hérlendis verði ekki meiri árið 2000 en hún var árið 1990?

Fyrirspurnin er borin fram af þeim sökum að ekki virðist stefna í rétta átt í þessu máli. Ísland var þó með allra fyrstu löndunum til að undirrita þennan samning, í raun á staðnum af hæstv. þáv. umhvrh., Eiði Guðnasyni. Ég held að Ísland hafi verið fimmta ríkið sem skrifaði undir samninginn og skapaði það eðlilega fyrirsagnir í fjölmiðlum á Íslandi. Skuldbindingar okkar að því er þennan samning varðar eru m.a. þær eins og kemur fram í fyrirspurninni að ekki verði bætt við losun koltvísýrings á þessum ártug, að það verði ekki meira magn sem losað verður árið 2000 en var árið 1990. Það eru okkar skuldbindingar samkvæmt þessum samningi sem hér hefur þjóðréttarlegt gildi þó ekki hafi hann lagagildi. Efndirnar virðast ekki vera í neinu samræmi við þetta og mér virðist sem ríkisstjórnin, og hæstv. umhvrh. raunar í þeim hópi svo ólíklegt sem það er, sé að reyna að skjóta sér undan ákvæðum þessa samnings með öllum ráðum.

Ég minni á það sem fram kom í sambandi við stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, álbræðslu Ísals þar sem samkvæmt heimild sem veitt var á Alþingi á liðnum vetri verður um tvöföldun að ræða á losun á koltvísýringi frá því sem var áður en ráðist var í stækkun verksmiðjunnar.

Nú er ráðgert af stjórnvöldum að koma upp nýrri álbræðslu á Grundartanga. Það mál hefur farið í umhverfismat og hvað heyrum við frá umhvrn. um þetta efni í sambandi við losun koltvísýrings? Jú, í matsskýrslu Skipulags ríkisins stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Frá umhvrn. hefur borist svar við fyrirspurn, dagsettri 25. janúar 1995, þar sem segir, m.a., orðrétt að ,,aukning í útblæstri koldíoxíðs í álverum sé ekki í andstöðu við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.``

Vegna svars umhvrn. er ekki talin ástæða til frekari aðgerða``, segir í matsskýrslu Skipulags ríkisins.