Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 12:36:58 (6739)

1996-05-29 12:36:58# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[12:36]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að starfsmannafélög í svo mikilvægum stofnunum skipti sér eitthvað af þeim formbreytingum sem til stendur að gera af hálfu stjórnvalda og ég ætla ekki að gera lítið úr því. En ég var fyrst og fremst að álykta að það hefði kannski farið of mikið í hina almennu umræðu um formbreytinguna og þau réttindamál sem hefði kannski þurft að draga upp á borðið miklu nákvæmar hafi týnst í þeirri miklu umræðu sem menn eyddu í að gagnrýna formbreytinguna sem slíka frá pólitískum sjónarhóli séð. Ég held að að þessu leyti hefði mátt gera þetta með öðrum hætti.

Réttindamál eru náttúrlega mikilvæg í þessu dæmi eins og öllum öðrum og það er búið að formbreyta fleiri stofnunum ríkisins yfir í hlutafélög án þess að það hafi orðið neinn sérstakur hávaði í kringum það. Þess ber þó að geta að þær formbreytingar sem þegar hafa orðið eins og hjá Sementsverksmiðjunni og víðar hafa verið í kringum mjög fáa starfsmenn sem hafa í raun verið með full réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þeir hafa verið innan við einn tug í flestum tilfellum þannig að þeirra réttindi hefur verið auðvelt að verja. En hér erum við að tala um 2.500 starfsmenn. Þó ekki séu þeir allir innan BSRB eru þeir mjög margir og það er mjög vandasamt mál og mikil sérfræðiúttekt að halda utan um réttindi þessa fólks þannig að ég hefði talið að það væri fullt starf.