Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 17:34:30 (6799)

1996-05-29 17:34:30# 120. lþ. 152.2 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 152. fundur

[17:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það virðist fara mjög tvennum sögum af því hvað hafi gerstá þeim fundi sem hæstv. fjmrh. vitnar til því að samkvæmt því erindi sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur sent þingmönnum líta þeir alls ekki svo á að fullnægjandi niðurstaða hafi fengist hvað þetta varðar, samanber að erindi þeirra til þingmanna lýkur á þeim orðum að náist ekki fram lagfæring á þessum málum nú við afgreiðslu þeirra á þingi verði afgreiðslu fjármagnstekjuskattsfrv. frestað. Það er afstaða Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég þarf ekki að lesa upp úr þessu bréfi fyrir hæstv. fjmrh., hann er bærilega læs, að það liggur fyrir full andstaða af hálfu sveitarfélaganna ef marka má þann texta við þeirri málsmeðferð og röð atburða sem er verið að leggja til. Auk þess eru heldur engin vinnubrögð við lagasetningu að vísa óleystum vandamálum endalaust inn í framtíðina með þessum hætti. Það er lögfest ástand sem er jafnvel ólögmætt, samanber bandormsfrumvarp um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, og síðan er málsvörnin sú að þetta eigi síðan að lagfæra eftir á og koma í lögmætt ástand. Hér á að lögfesta skipan mála, annars vegar varðandi yfirfærslu grunnskólans og hins vegar lögleiðingu fjármagnstekjuskattsins sem þýðir sannanlega tekjutap fyrir sveitarfélögin upp á hundruð millj. kr. í skjóli einhverra óljósra yfirlýsinga um að þetta verði síðan lagfært eftir á. Ég spyr á móti: Hvað er mönnum að vanbúnaði að taka á þessu nú? Það liggur nokkurn veginn fyrir um hvaða stærðir er að ræða. Hér er opið frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þannig að það er afar handhægt að taka þá lagfæringu hér með við 3. umr. málsins. Ég tel þessi svör hæstv. fjmrh. ekki fullnægjandi. Ég sætti mig a.m.k. ekki við að málinu ljúki svona fyrr en talsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga hafa átt þess kost að koma fyrir þingnefnd og gefa skýrngar á stöðu málsins þar sem það er bersýnilega um misvísandi frásagnir að ræða. Ég endurtek því ósk mína, herra forseti, um að umræðunni verði frestað um sinn og málið skoðað og m.a. í því skyni að gefa talsmönnum sveitarfélaganna kost á því að skýra viðhorf sín til stöðu mála.