Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 11:20:14 (6812)

1996-05-30 11:20:14# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[11:20]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega ánægð með það að hv. þm. les Alþýðublaðið. Það geri ég líka og ég meira að segja stundum ræði við Alþýðublaðið og skrifa í það. Þess vegna bið ég þingmanninn að lesa Alþýðublaðið í dag vegna þess að þar er ég m.a. að svara þessu sjónarmiði hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Fyrirsögnin í viðtali við mig er, virðulegi forseti: Meiri kæruleysisbragur af hálfu stjórnarliða á þessu þingi en nokkru öðru sem ég hef setið. Ég hef starfað með þessum ágæta hv. þm. sem er í andsvari við mig og er því sannfærð um að þar tekur hann undir með mér.

Varðandi það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði svara ég því á þessa lund, virðulegi forseti. Nei, ég er alls ekki sammála þessu vegna þess að mér finnst að Sjálfstfl. hafi leikið mjög klókindalegan leik og hann er þessi: Á erfiðum vetri þegar farið er í gífurlega mikinn niðurskurð og enn meiri samdrátt en áður þrátt fyrir boðskap um batnandi tíma og staðreyndir um aukinn hagvöxt, hefur Sjálfstfl. tekist að staðsetja sjálfan sig nær ósýnilega í bakgrunninum í stjórnarsamstarfinu eins og flokkur sem ekki ber ábyrgð á neinu óþægilegu. Hann hefur látið samstarfsflokkinn um erfiðu hlutina, þ.e. að taka við gagnrýninni og kröfunum af því að samstarfsflokkurinn er nú eins og áður með fagráðuneytin. Mér finnst miklu fremur að það einkenni Sjálfstfl. að vera ósýnilegt afl og erfitt að festa hendur á því fyrir hvað hann stendur. Mér finnst Sjálfstfl. ekki hafa sýnt af sér neina aðra stjórnkænsku en þá að vera við völd til að vera við völd og halda völdum. Það sem mér finnst að hljóti að sitja eftir í hugum manna eftir þennan vetur er að flokkur allra stétta er ekki flokkur stétta.

Þetta er mitt viðhorf, virðulegi forseti, ekki sleggjudómar. Pólitísk skoðun.