Almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 21:25:03 (6870)

1996-05-30 21:25:03# 120. lþ. 156.1 fundur 326#B almennar stjórnmálaumræður (útvarps- og sjónvarpsumr.)#, LB
[prenta uppsett í dálka] 156. fundur

[21:25]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Ýmislegt bendir til þess að hagvöxtur fari vaxandi eftir nokkurra ára samdrátt, að endir hafi verið bundinn á kreppuna. Stöðugleiki ríkir í efnahagsmálum, stöðguleiki sem á rót sína að rekja til þjóðasáttarsamninganna 1990 og styrkrar efnahagsstjórnar síðustu ríkisstjórnar. Þá hefur tekist að ná samningum við Norðmenn, Rússa og Færeyinga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum sem er fagnaðarefni hjá þjóð sem vill stundar ábyrgar fiskveiðar eins og við Íslendingar þó um það megi lengi deila hvort ekki hefði mátt ná betri samningi. Er ekki ósennilegt að eitthvað bjartara sé fram undan ef maður gefur sér þá forsendu að núv. ríkisstjórn klúðri ekki þeim árangri sem fyrri ríkisstjórn náði, svo eftirmæli hennar verði ekki þau að þetta hafi verið kjörtímabil hinna glötuðu tækifæra.

Þegar núv. ríkisstjórn tók við völdum höfðu menn á orði að hún væri helmingaskiptastjórn sem ekki hefði annað markmið en að skipta með sér völdum. Ríkisstjórnin væri því ávísun á óbreytt ástand og í hönd færi kjörtímabil hugmyndafræðilegrar stöðununar.

Virðulegi forseti. Sú hugmyndafræði sem birtist í stærstu málum ríkisstjórnarinnar, búvörusamningnum, vinnulöggjafarfrumvörpunum og frumvarpi um fjármagnstekjuskatt bera þess öll merki að eplin séu súr. Frv. um breytingar á búvörusamningi hnigu allar í þá átt að festa enn frekar í sessi hið miðstýrða sovétkerfi í landbúnaði og var ákveðið að verja 13 milljörðum til ársins 2000 í kerfi sem reynslan hefur kennt okkur að fyrir löngu er gengið sér til húðar, kerfi sem er hvorki neytendum né bændum til góðs. Vinnulöggjafarfrumvörpin, annars vegar frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og hins vegar frv. um stéttarfélög og vinnudeilur eru einnig dæmi um ferð án fyrirheits.

Þegar frv. um stéttarfélög og vinnudeilur var lagt fram á Alþingi átti það að sögn hæstv. félmrh. að vera lykillinn að samskiptum á vinnumarkaði í framtíðinni. Við nánari skoðun reyndust ákvæði þess mikil hrákasmíð og óskapnaður sem meira og minna fór í bág við innlend og erlend mannréttindaákvæði. Því neyddist hæstv. félmrh. til að draga nánast allar sínar breytingar til baka þannig að lítið er orðið eftir af frv. nema fyrirsögnin ein. Það er því von að spurt sé: Hvað gekk hæstv. félmrh. til með framlagningu þess? Hvaða stefnu var verið að hrinda í framkvæmd? Hvers vegna ryðst hann fram með jafnilla unnið frv. og raun ber vitni án þess að hafa neitt annað markmið en að breyta breytinganna vegna. Virðulegi forseti. Svona vinnubrögð ber að fordæma.

Réttlæting ríkisstjórnarinnar á breytingu á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna felst í því að þær séu fyrstu skrefin í átt til nútímavæðingar í ríkisrekstri og liður í því að skilgreina hlutverk ríkisins upp á nýtt. Með tilliti til þessarar röksemdafærslu má leiða að því líkum að sú breyting að launamenn geti ekki lengur skotið ágreiningi sínum til æðri stjórnvalda sé liður í því að skilgreina hlutverk ríkisins upp á nýtt, afnám biðlaunaréttar ríkisstarfsmanna feli í sér nýja skilgreiningu á hlutverki ríkisvalds og trygging þess að ákveðnir hópar starfsmanna ríkisins tjái ekki skoðanir sínar við ákveðnar aðstæður, sé liður í því að skilgreina hlutverk ríkisins upp á nýtt. Hér er í reynd ekki um annað að ræða en aðför að grunnréttindum launamanna, réttindum sem siðuðum þjóðum ber að virða. Að reyna að setja þessa aðför í þann búning að verið sé að nútímavæða ríkisreksturinn eða skilgreina hlutverk ríkisins upp á nýtt er slík veruleikafirring að leitun er á öðru eins.

Þá er ónefnt frv. ríkisstjórnarinnar sem liggur fyrir þinginu um fjármagnstekjuskatt. Þar eru sennilega á ferðinni, verði frv. að lögum, mestu fjármagnstilfærslur sem um getur í sögu lýðveldisins, fjármagnsflutningar frá erfiðismönnum til efnamanna. Samkvæmt því frv. er ætlunin að lækka skatta á arðgreiðslur, lækka skatta á sölu hlutabréfa, lækka skatta á leigutekjum en skattleggja allan annan sparnað, hverju nafni sem hann nefnist. Það þarf ekki séní til að átta sig á því hverra erinda núverandi ríkisstjórn gengur. Eitt er víst, að það er ekki erinda launamannsins. Því er ekki nema von að spurt sé: Hvar eru fingraför Framsóknar? Hvar eru hinar vösku meyjar og sveinar Framsóknar? Hin nýja kynslóð framsóknarmanna sem í kjölfar síðustu kosninga ruddist inn á þing, hvort heldur er á mótorhjóli eða göngumóðir af Grænlandsjökli, með yfirlýsingar um að nú skyldi allt lagfært, öllu breytt sem áður hafði aflaga farið. Hvar eru þau nú? Þau skyldu þó ekki vera gengin í björg hjá íhaldinu? A.m.k. hefur ekki mikið farið fyrir þeim á þessu þingi.

Sé hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar hvað varðar úrlausnir innan lands dæmi um hugmyndalega fátækt, þá tekur úrræðið og stefnuleysið út yfir allan þjófabálk þegar kemur að málefnum Evrópu og þess samrunaferlis sem þar á sér stað. Um málið hefur ríkt einhver sérkennileg bannhelgi. Málið má helst ekki ræða, en þá stefnu hefur formaður Sjálfstfl. rekið af einurð og festu því af hálfu flokksins hefur hvorki verið fjallað um Evrópumál í ræðu né riti um langt skeið, málefnið er einfaldlega ekki á dagskrá. Þó afstaða forsrh. sé að vissu leyti brosleg, sé hún skoðuð í ljósi þeirrar þróunar sem á sér nú stað í heiminum, er hún grafalvarleg þegar hagsmunir þjóðarinnar eru hafðir í huga.

Virðulegi forseti. Við verðum að fara að átta okkur á því að hugtakið sjálfstæði hefur ekki sama innihald í dag og það hafði fyrir einni öld eða svo. Hinar miklu tækniframfarir og aukin samskipti þjóða í millum fela það í sér að sjálfstæðið felst í því að fá að taka þátt og hafa áhrif á ákvarðanir sem eru teknar á alþjóðavettvangi og hafa áhrif á stöðu þjóðarinnar. Sjálfstæðið felst ekki í því að einangra sig eða fá að vera í friði. Það er því alvarlegur hlutur þegar við völd situr ríkisstjórn sem hefur ekki áhuga á þeirri þróun sem á sér stað í kringum okkur. Þess í stað telur hún sig hafa fundið leið inn í framtíðina og að leiðin liggi um hlaðið á Höllustöðum. --- Góðar stundir.