Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:44:52 (6945)

1996-05-31 17:44:52# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:44]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Tvö atriði, virðulegi forseti, langar mig að koma fram með. Fyrir það fyrsta hefur þegar komið fram hjá Samtökum smábátaeigenda að það eigi eftir að leiðrétta hlut aflamarksbátanna undir 10 lestum. Það hefur bara komið fram. Enda er það viðurkennt af þessum sömu aðilum að þeir hafi ekki unnið fyrir hagsmuni þeirra. Þeir hafi látið þá liggja eftir, þeir hafi fórnað hagsmunum þeirra sem eiga aflamarksbáta undir 10 rúmlestum. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Forustumenn þessara samtaka hafa lýst því yfir að þeir muni í framtíðinni berjast fyrir því að fá leiðréttingu fyrir þessa aðila. Sú leiðrétting gengur náttúrlega ekki nema það sem þessir aðilar fá verði tekið einhvers staðar.

[17:45]

Í öðru lagi vil ég geta þess að þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir að löggjafinn hafi kallað fram fjölgun kvótabátanna er það að vísu að hluta til rétt vegna þess að löggjöfinn var gölluð og opnaði fyrir þennan möguleika. Hitt er svo annað mál að þeir sem fjárfestu í krókabátum á þessum tíma hlutu að gera það með tilliti til þess að það sem átti að verða til skiptanna milli krókabátanna samkvæmt lögum yrði takmarkað við rétt rúmlega 4.000 tonn. Auðvitað hljóta þeir að bera einhverja ábyrgð á því að hafa tekið ákvarðanir um fjárfestingu miðað við það svigrúm sem löggjafinn hafði gefið þeim.