Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 10:54:06 (6978)

1996-06-03 10:54:06# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[10:54]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst stutt svar við þeirri grundvallarspurningu hv. þm. um það hvað verður um þjónustuna við alla landsmenn. Við sem stöndum að þessu frv. erum sannfærðir um að einmitt þetta skref sé líklegt til þess að styrkja undirstöðu þessa mikilvæga fyrirtækis og þar með að bæta og tryggja þá þjónustu sem það hefur veitt um allt land.

Það sem ég vildi kannski aðeins koma aftur að er spurningin sem hv. þm. lagði fyrir mig áðan um það hvort það ætti að skipta félaginu. Ég vakti athygli á því í lok andsvars míns áðan að í raun væri Póstur og sími þegar kominn inn í ákveðna samkeppni við ýmsa aðila. Ég nefndi íþróttafélög og ég nefndi DHL sem mér er sagt að annist t.d. alla póstflutninga fyrir tiltekinn banka á Íslandi til útlanda. Þessi samkeppni er því komin til að vera og svo er það hin rafræna sending, hinar rafrænu sendingar í gegnum tölvur og fax er um leið ákveðin samkeppni við hina hefðbundnu póstþjónustu. Ég sá t.d. í tölum frá Norðurlöndunum að innihald hennar hefur breyst mjög mikið á undanförnum árum þar.

Hins vegar er ástæða til þess að vekja athygli á því að mál hafa þróast þannig bæði í Noregi, Danmörku og Bretlandi, ekki bara vegna formbreytinga og einkavæðingar fjarskiptaþjónustunnar heldur af ýmsum öðrum ástæðum, að pósthús eru í æ meira mæli rekin sem hluti af annarri starfsemi. Þau eru t.d. hluti af verslunarrekstri víða úti um landsbyggðina. Ég vil láta í ljós þá skoðun mína að mér finnst ekki ósennilegt að sú verði þróunin mjög víða úti um land að póstþjónusta gæti orðið hluti af slíkri starfsemi, einfaldlega vegna þess að það verði krafa á þessum stöðum að reyna að fá alla þjónustu sem besta og sem næst fólkinu og sem ódýrasta. Menn munu einfaldlega sjá hagkvæmnina í því að gera þetta. Ég á ekki von á að þetta gerist í neinum stökkbreytingum í dag eða á morgun, en mér finnst hins vegar mjög líklegt miðað við þróunina erlendis að þannig geti hún líka orðið hér á landi.