Málefni einhverfra

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 14:04:41 (7006)

1996-06-03 14:04:41# 120. lþ. 158.8 fundur 335#B málefni einhverfra# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[14:04]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda og hann auðvitað þekkir af eigin raun sem fyrrv. ráðherra, þá er það svo að þó að staðgenglar gangi í embættin formsins vegna til þess að takast á við stjórnarfarslega þætti sem upp kunna að koma, þá eiga þeir kannski ekki skýr svör við öllum þeim málum sem eru á döfinni í hverju einu ráðuneyti og það á við um þetta mál sem hér er vakið máls á. Ég þekki ekki nægilega vel til þess hvað þar hefur verið unnið. En eins og hv. fyrirspyrjandi lýsir því, þá hefur ekki tekist að koma af stað þeirri faggreiningu eða því fagteymi sem á að taka við verkefnum sem hafa verið á barna- og unglingageðdeildinni. En ég vonast sannarlega til þess að það mál sé í vinnslu og í skoðun.

Ég get þess vegna því miður, hæstv. forseti, kannski lítið gert annað á þessari stundu varðandi það sem hv. fyrirspyrjandi benti á, en lofað því að ég mun taka þetta upp við ráðuneytið nú þegar, þ.e. að kanna í hvaða farvegi málið er og hvað hægt sé að gera ef það er eitthvað sem hægt er að gera skjótlega. Að öðru leyti vísa ég því til hæstv. félmrh. þegar hann kemur aftur til landsins sem ég veit að eru ekki margir dagar í. Ég hygg að hann sé í vikuferð núna, á fundi á svokallaðri Habitat-ráðstefnu suður í Tyrklandi. En hæstv. félmrh. hefur reynt að bregðast skjótt við þegar taka hefur þurft á málum hliðstæðum þessu sem upp hafa komið ef það hefur komið í ljós að við bráð vandamál væri að glíma sem yrði að reyna að leita lausnar á. Ég vænti þess að það muni einnig takast um þetta mál og ég mun koma því að sjálfsögðu á framfæri.