Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 16:49:22 (7028)

1996-06-03 16:49:22# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[16:49]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. samgrh. byrjaði á að skilgreina hvar ég stæði í stjórnmálum, hvaða armi stjórnmálanna ég heyrði til og nefndi tiltekna þingmenn í því sambandi. Ég vil stoltur segja hæstv. ráðherra frá því að ég tilheyri þeim hluta þjóðarinnar, sem og þeir þingmenn sem hann tilnefndi, hv. þingmenn Svavar Gestsson, Hjörleifur Guttormsson og Jóhanna Sigurðardóttir, sem vilja varðveita samfélagslegar eignir þjóðarinnar og koma í veg fyrir að þessi ríkisstjórn stóratvinnurekenda og fjármagnseigenda gefi þessar eignir eða færi einkavinum sínum þær á silfurfati eins og dæmin sanna, t.d. með SR-mjöl ekki alls fyrir löngu, og koma í veg fyrir að hið sama hendi með Póst og síma.

Ég beindi reyndar þeirri spurningu til hæstv. samgrh. fyrr í dag hvort stór fyrirtæki hér á markaði sem stundum hafa verið kennd við kolkrabba hafi orðað áhuga á því að komast inn í þetta dýrmæta fyrirtæki. Með þessum breytingum er verið að takmarka áhrif almannavalds og færa það undir fámennisstjórn. Það verður eitt hlutabréf sem heyrir undir hæstv. samgrh. og það er talandi tákn um hvað koma skal. Hæstv. samgrh. segir að hann hafi verið spurður hvort samgn. fái að fylgjast með framgangi mála og hann lýsir því yfir áðan að hann hafi ákveðið að svo verði og sjái ekkert athugavert við það. Við erum að tala um fyrirtæki eða stofnun sem hefur verið metin á 20--30 milljarða íslenskra króna og er eign íslensku þjóðarinnar. Samgrh. lýsir því hér áðan að hann ætli góðfúslega að veita Alþingi leyfi til að fylgjast örlítið með málunum.

Síðan gagnrýni ég málflutning hans gagnvart formönnum Félags ísl. símamanna og Póstmannafélags Íslands þar sem hann er að snúa út úr orðum þessara aðila og gera lítið úr orðum þeirra. Formennirnir hafa bent á það að staðhæfingar hæstv. ráðherra og fulltrúa ríkisstjórnarinnar um að gengið hafi verið frá samninga- og réttindamálum starfsfólks séu ekki réttar, þau mál séu upp í loft. Það er það sem þessir formenn stéttarfélaganna hafa verið að gera og það er ástæðulaust fyrir ráðherra að gera lítið úr þeim orðum og reyna að snúa út úr þeim. Það er lágkúrulegt í hæsta máta.