Innheimtustofnun sveitarfélaga

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 20:37:57 (7066)

1996-06-03 20:37:57# 120. lþ. 158.18 fundur 356. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (samningar við skuldara) frv. 71/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[20:37]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég skrifa líka undir nefndarálitið með fyrirvara og ætla að gera hér í örfáum orðum grein fyrir þeim fyrirvara eða ástæðum fyrir honum. Það má segja að að meginefni til hafi ég verið með sömu efasemdir um frv. og hv. formaður félmn. sem hér talaði áðan, Kristín Ástgeirsdóttir. Fyrirvarinn er í raun og veru almennur. Ég hef ákveðnar efasemdir um það að heimilt sé að fella niður höfuðstól skuldar hjá meðlagsgreiðendum, ekki síst með tilliti til þess að það er óréttlátt gagnvart þeim sem hafa staðið við sínar skuldbindingar og jafnvel stefnt fjárhag sínum í vanda annars staðar frekar. Ekki síst komu til umræðu opinberir starfsmenn þar sem meðlag hefur verið tekið sjálfkrafa af þeirra launum en þeir hafa þurft að láta aðra hluti danka í staðinn.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur var farið ítarlega ofan í það í nefndinni hvað fælist í þeim skilyrðum sem sett eru fyrir því að þetta sé heimilt að gera. Eftir að hafa skoðað það frekar og sannfærst um að það þurfi að vera um verulega félagslega erfiðleika að ræða, þá get ég stutt þá niðurstöðu eða þá leið sem farin er í þessu frv.

Þá er að auki bætt inn í frv. því sem lýtur að því að verði niðurstaða máls til ógildingar á faðernisviðurkenningu eða vefengingar á faðerni barns sú að skuldari sé ekki faðir barns að þá sé heimilt að afskrifa og endurgreiða höfuðstól skuldara sem stofnast hefur eftir að niðurstaða blóðrannsóknar liggur fyrir og/eða mál hefur verið höfðað. Þetta mál var nokkuð rætt í hv. félmn. og ég lýsti yfir í upphafi ákveðnum efasemdum um þetta atriði og sneri það m.a. að því hvort að eðlilegt væri að koma með þetta úrræði inn í þessi lög og í tengslum við þá breytingu sem við erum að gera hér varðandi meðlagsgreiðslurnar að öðru leyti. En eftir að það mál hafði verið skoðað ítarlega og farið ofan í það frekar í nefndinni þá get ég fallist á það að sú leið sem hér er lögð til sé eðlileg og sanngjörn þannig að ég mun styðja þetta mál.