Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 21:03:35 (7074)

1996-06-03 21:03:35# 120. lþ. 158.22 fundur 527. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál. 15/1996, Frsm. minni hluta HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[21:03]

Frsm. utanrmn. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom hjá hv. formanni utanrmn. áðan, þá klofnaði nefndin í afstöðu til þessa máls, staðfestingarsamninganna um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. Hún var hins vegar sammælt um málið sem rætt var áðan eins og fram hefur komið, þ.e. staðfestingu tveggja samninga við Færeyjar um fiskveiðimál.

Minni hlutinn gagnrýnir í nefndaráliti sínu vinnubrögð ríkisstjórnarinnar við undirbúning samningsgerðar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum. Samráð var ekki haft við Alþingi eða hagsmunaaðila fyrr en gengið hafði verið frá helstu efnisatriðum samkomulagsins við Norðmenn. Á fundi nefndarinnar 4. maí sl. var kynnt efni bókunarinnar, en minni hlutinn gagnrýnir harðlega að á fundinum var ekki minnst á samninga sem síðar voru gerðir 6. maí við Norðmenn um einhliða veiðiheimildir í íslenskri lögsögu upp á 127 þúsund tonn og einhliða heimildir Rússa til veiða á 5.000 tonnum í íslenskri lögsögu. Varðandi veiðiheimildir á Jan Mayen-svæðinu bendir minni hlutinn jafnframt á að Íslendingar eiga sjálfstæðan rétt til veiða við Jan Mayen samkvæmt Jan Mayen-samkomulaginu frá 1980.

Samkvæmt samningunum nemur hlutdeild Íslands til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum aðeins 17,2%. Þarna er um að ræða hættulega lágt hlutfall miðað við eðlilega hlutdeild Íslendinga til veiða á fullorðinni síld sem er á bilinu 30--40% miðað við söguleg og líffræðileg rök.

Þá gagnrýnir minni hlutinn að samkomulagið byggist að mestum hluta á tilslökunum af hálfu Íslendinga og Færeyinga frá því sem áður hafði verið ákveðið einhliða af þjóðunum. Þannig eykst hlutur Rússa með samkomulaginu og Norðmenn gefa óverulega eftir. Má í þessu sambandi rifja upp að fyrir liggur, m.a. í yfirlýsingum norskra vísindamanna frá 1980, að það voru ekki veiðar Íslendinga á fullorðinni síld sem leiddu til hruns stofnsins á sínum tíma, heldur gegndarlaus rányrkja Norðmanna á seiðum og ungsíld. Gagnrýnir minni hlutinn það að Íslendingar skuli opna landhelgi sína fyrir Norðmönnum og Rússum án þess að fá á móti heimildir til að veiða í lögsögum þeirra ríkja, en eins og áður segir hafa Íslendingar sjálfstæðan rétt til veiða á Jan Mayen-svæðinu.

Samkvæmt ákvæði liðar 6.2 í bókuninni um verndun, skynsamlega nýtingu og stjórnun veiða á norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi skulu aðilar að samningnum nota niðurstöður vinnuhóps vísindamanna, sem fylgjast á með og meta þróun og dreifingu síldarstofnsins, sem grundvöll samningaviðræðna í framtíðinni um verndun, nýtingu og stjórnun veiða úr stofninum, m.a. vegna hugsanlegra breytinga á leyfðum heildarafla og aflahlutdeild aðila að svo miklu leyti sem dreifing stofnsins réttlætir breytingar á gildandi fyrirkomulagi. Skal við endurskoðun tekið tillit til dreifingar allra hluta stofnsins. Í athugasemdum með tillögunni kemur fram sá skilningur að á grundvelli þessa ákvæðis megi búast við að aflahlutdeild Íslendinga muni aukast á komandi árum ef síld úr stofninum gengur í auknum mæli í íslenska lögsögu. Telur minni hlutinn, þrátt fyrir ákvæði þetta, hætt við að Íslendingar verði lengi bundnir við það hlutfall af veiðanlegum stofni sem nú hefur verið samið um.

Loks bendir minni hlutinn á að Evrópusambandið átti ekki aðild að samkomulaginu en krefst verulegs kvóta. Því er staðhæfing ríkisstjórnarinnar um að samningurinn tryggi heildarstjórn á veiðunum ekki í samræmi við veruleikann.

Með vísan til þess að margt er gagnrýnivert í málatilbúnaði stjórnvalda við undirbúning samninganna og veikleika í efnisþáttum þeirrar bókunar sem fylgir endanlegum samningi telur minni hlutinn rétt að ríkisstjórnin og meiri hlutinn beri ábyrgð á afgreiðslu málsins og situr því hjá við afgreiðslu þess.

Nefndarálit minni hlutans er bókað 31. maí 1996 og undir nefndarálit minni hlutans rita auk þess sem hér talar Össur Skarphéðinsson og Ásta R. Jóhannesdóttir.

Þetta mál sem hér er til umræðu hefur verið rætt mikið, var rætt um það leyti sem frá samningum var gengið. Þá kom fram mjög ákveðin og eindregin gagnrýni á málsmeðferð íslenskra stjórnvalda auk margháttaðrar gagnrýni á efnisinnihald samningsins, niðurstöðu hans og þá bókun sem fylgdi, með tilliti til þess að þar væri ekki tryggilega frá okkar hagsmunum gengið og alls ekki eins og látið var að liggja af hálfu stjórnarmeirihlutans og talsmanna hans í tengslum við málið.

Sjútvn. klofnaði í afstöðu til málsins eins og fram hefur komið og minni hluti hennar, þingmennirnir hv. Steingrímur J. Sigfússon, Svanfríður Jónasdóttir og Sighvatur Björgvinsson gagnrýna líkt og minni hluti utanrmn. í sínu áliti það samkomulag sem hér er leitað staðfestingar á.

Ég sé, virðulegur forseti, ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta mál sérstaklega umfram það sem fyrir liggur í nefndarálitum við þessa síðari umræðu málsins. Þessi samningur er orðinn hlutur. Við skulum vona að betur rætist úr en við óttumst að verði. Auðvitað vonar maður að það fari á betri veg í þeim efnum, að það sé eitthvert hald í þeirri bókun sem fylgir samningnum. En þar er sannarlega ekki á vísan að róa og á það bendum við rækilega í okkar afstöðu. Við teljum hins vegar ekki ástæðu til að ganga harðar gegn þessu samkomulagi en svo að vísa til ábyrgðar ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar á málafylgjunni og málatilbúnaðinum öllum.