Frumvarp um heilbrigðisþjónustu

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 10:20:54 (7156)

1996-06-04 10:20:54# 120. lþ. 160.93 fundur 340#B frumvarp um heilbrigðisþjónustu# (aths. um störf þingsins), VS
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[10:20]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Vegna þeirrar umræðu sem fer fram um störf þingsins, um dagskrána, að 13. dagskrármál, heilbrigðisþjónusta, skuli vera komið á dagskrá, þá hefur það áður verið á dagskrá eins og forseti greindi frá. Það var gengið frá því á fundi formanna þingflokka í gærkvöldi að bæði þetta mál og náttúruverndin yrðu á dagskrá síðari fundar í gær, en að haldinn yrði fundur formanna þingflokka áður en málin yrðu tekin fyrir. Þetta vil ég staðfesta. Því var ekki mótmælt. (SvG: Þetta er ekki rétt.) (GÁS: Þetta er rangt.)

Varðandi það að þetta mál sem er mikilvægt mál fái ekki þinglega meðferð, þá dettur engum það í hug að mál fái ekki þinglega meðferð. Við erum á næstsíðasta degi þings að öllum líkindum og við getum ekki fullyrt neitt um það á þessari stundu hvort þetta mál getur orðið að lögum á þessu þingi. Það er á dagskrá. Það verður mælt fyrir því og síðan verðum við að sjá til. Ef mótmæli eru eins mikil og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa verið að láta í ljósi, er sjálfsagt ekkert þægilegt að ljúka umfjöllun um málið á þessum stutta tíma. En mér finnst að hv. þm. hafi verið óþarflega neikvæðir gagnvart því að málið komi á dagskrá og verði vísað til nefndar.