Frumvarp um heilbrigðisþjónustu og tilhögun þingfundar

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:49:39 (7191)

1996-06-04 13:49:39# 120. lþ. 160.94 fundur 344#B frumvarp um heilbrigðisþjónustu og tilhögun þingfundar# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:49]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að athugasemdir og ummæli hæstv. heilbrrh. á þessum fundi eftir hádegi sýna mér alveg ótrúlega sjálfhverfan einstakling. Hér erum við búin að vera daga og nætur að störfum í öllum þeim stóru málum sem ég hef áður bent á. Það sem við þingflokksformenn höfum gert á fundum hjá forseta er að benda á hvað það þýði ef inn á dagskrá er tekið mál sem kallar á margra klukkutíma umræðu á sama tíma og verið er að reyna að ná samkomulagi um að ljúka þingstörfum hér á þessum sólarhring þannig að e.t.v. standi einungis atkvæðagreiðsla eftir á miðvikudagsmorgni. Þá er verið að reyna að fá inn mál sem er ljóst að kallar á víðtæka umræðu um heilbrigðismál. Það sem stjórnarandstaðan hefur gert er að benda á þetta og það sem stjórnarandstaðan hefur kannski ekki fengist til er að ljá því máls að málið færi á dagskrá og meira eða minna án umræðu til nefndar. Það er hægt að fallast á að ekki hefur verið orðið við þeirri beiðni.

Ég harma það, virðulegi forseti, að ráðherrann skuli leyfa sér það í stuttri 30 mínútna umræðu um brýnan vanda sjúkrahúsanna að kasta fram þeirri sprengju sem hún gerði hér í dag og halda því til streitu í framhaldi að stjórnarandstaðan sé að beita einhverju valdi. Það er fullkomlega ósatt og sýnir að ráðherrann hefur ekki verið fær um að sjá þau mál sem hafa verið á dagskrá í djúpri og langri umræðu og ekki gert sér grein fyrir hvað við þingmenn höfum verið að fást við hér á meðan hún hefur verið fjarri.