Frumvarp um heilbrigðisþjónustu og tilhögun þingfundar

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 14:19:45 (7199)

1996-06-04 14:19:45# 120. lþ. 160.94 fundur 344#B frumvarp um heilbrigðisþjónustu og tilhögun þingfundar# (um fundarstjórn), SvanJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[14:19]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Auðvitað er ljóst hver ræður dagskrá Alþingis. Það gerir forseti. Alla jafna gerir hann það í ágætu samkomulagi við formenn þingflokka en valdið er hans. Það er líka meiri hluti Alþingis, ríkisstjórnarflokkarnir, sem ráða því og hafa ráðið hvaða mál eru afgreidd hér frá þinginu enda hafa mörg stórmál verið afgreidd í vetur í fullkominni andstöðu við stjórnarandstöðuna. Þess vegna er sérkennilegt að mál eins og það sem kom upp áðan skuli yfir höfuð koma upp síðustu daga þingsins. En vegna þess sem forseti gat um áðan vil ég taka undir með þeim hv. þm. sem hér talaði á undan mér og taka undir með forseta varðandi það sem fram kom í máli hans varðandi þá dagskrá sem fyrir liggur. Um hana var bærilegt samkomulag í morgun svo langt sem slíkt samkomulag getur náð. Það er ljóst að það samkomulag stendur að svo miklu leyti sem það getur staðið og þar með sú dagskrá sem hér liggur fyrir með öllum þeim málum á dagskrá sem þar eru prentuð.