Umræður um dagskrármál

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 20:41:40 (7253)

1996-06-04 20:41:40# 120. lþ. 160.98 fundur 355#B umræður um dagskrármál# (um fundarstjórn), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[20:41]

Svanfríður Jónasdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er svo að skilja að því máli sem var á dagskrá fyrir kvöldmatarhlé hafi verið frestað af því að það tekur svo mikinn tíma. Það kom satt að segja ekki á óvart og mér finnst mjög merkilegt ef það hefur komið hv. forsetanum á óvart að málið tæki mikinn tíma. Það er einmitt vegna þess að það var vitað að málið tæki mikinn tíma sem áhöld voru um það hvort það færi á dagskrá. Það voru nefnilega áhöld um það. Málið komst á dagskrá og það var satt að segja fyrir frýjunarorð hæstv. ráðherrans sem málið fór í umræðu. Eftir að ráðherrann hafði haldið því fram hér í umræðu að það væri sök stjórnarandstöðunnar að það var ekki komið til umræðu og tilgreindi einstaka stjórnarandstöðuþingmenn í því sambandi, var málið tekið til umræðu. Auðvitað tekur það langan tíma. Það var vitað allan tíman að þetta er stórt mál og margir vildu ræða það vegna þess að í þessu máli, þó textinn sé ekki langur, er mikil pólitík og margt sem þarf að gaumgæfa. Ég vildi þess vegna, herra forseti, fá að vita nú hvert viðhorf ráðherrans er gagnvart því að umræðunni verði frestað. Ég lít svo á að með því að fresta þessari umræðu sé verið að setja málið í ákveðna hættu. Ég vil að það sé alveg ljóst. Það hlýtur að vera svo. Hér eru eftir önnur mál sem þurfa umfjöllunar við ef þinginu á að ljúka á morgun. Ég vil fá að vita það og vil að það komi fram að ráðherrann er meðvitaður um það hvað er hér að gerast. Það er forseti, væntanlega að höfðu samráði við hæstv. ráðherrann, sem tekur ákvörðun um þessa breytingu á áður boðaðri dagskrá. Það er þá hennar ákvörðun ef málinu er stefnt í þessa hættu og ekki annarra. Að gefnu tilefni sé ég ástæðu til að undirstrika það hér.