Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 18:37:48 (7324)

1996-06-05 18:37:48# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[18:37]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum hlýtt á langa og ítarlega ræðu hjá hv. þm. þar sem margt fróðlegt kom fram. Eftir atvikum get ég sagt að ég hafi verið sammála sumu af því sem fram kom en ósammála öðru. Það eru örfá atriði ef ég gæti komið þeim að sem ég vildi segja strax við hv. þm.

Ég hef sem ráðherra margreynt að koma málinu á dagskrá fyrr en nú á þessum degi. Ég leyfi mér að svara því alveg eindregið og fullyrði það og hafna þeirri aðdróttun eða þeim vangaveltum hv. þm. að ráðherra hafi reynt að koma í veg fyrir að nefnd tæki einstök mál sem fyrir henni liggja á dagskrá. Auðvitað hef ég ekki sem ráðherra haft eða reynt að hafa afskipti af því.

Sumt í máli hv. þm. varðaði ýmis efnisatriði sem er ekki verið að breyta nú heldur koma fram í frv. af því að frv. er heildarlög. Þegar málið var til 1. umr. kom fram að þær breytingar sem hér eru lagðar til á stjórn náttúruverndarmála þykja viðamiklar og snerta að auki flestar greinar gildandi laga þannig að til einföldunar og skilningsauka var talið rétt að leggja fram heildstætt frv. til nýrra náttúruverndarlaga. Um það geta auðvitað verið skiptar skoðanir og það er ljóst að það dregur inn í umræðuna ákveðna hluti sem er ekki verið að breyta nú og hv. þm. kom reyndar að því á nokkrum stöðum í ræðu sinni.

Út af vangaveltum hans um samskipti landbrn. og umhvrn. vil ég segja að nú er verið að hefja endurskoðun á lögum um landgræðslu. Reyndar er í gangi samstarf milli Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins og Náttúruverndarráðs, svokallaður NASL-hópur, þannig að það eru nokkur samskipti. Þessi tvö ráðuneyti hafa um tíma haft með sér formlegt samráð. Það hófst reyndar fyrir mína tíð sem ráðherra þessara tveggja málaflokka og þar liggur fyrir hugmynd eða tillögur um framkvæmd þessa samstarfs sem hv. þm. ýjaði aðeins að og ég hef fullan hug á því að staðfesta. Það er sameiginlegur fundur þessara ráðuneyta í næstu viku, átti reyndar að vera á morgun en er frestað vegna þess að óvissa var með þinghaldið þannig að hann verður haldinn í næstu viku. Ég hef ekki jafnmiklar áhyggjur af því og hv. þm. og hef reynt að beita mér eftir bestu getu í báðum málaflokkum en auðvitað er það eins og gengur þegar stór mál eru til umfjöllunar að sjálfsagt er hægt að finna að því hvort menn geta sinnt starfi sínu viðhlítandi. Ég hef reynt að gera mitt besta.