Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 19:49:09 (7331)

1996-06-05 19:49:09# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[19:49]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um 4. gr. eða um stjórnunarþátt Náttúruverndar ríkisins eins og hann er fyrirhugaður. Auðvitað getur verið álitamál hvort það eigi yfirleitt að vera stjórn yfir stofnun af þessu tagi. Sannleikurinn er sá að það er ekkert samrýmt í því varðandi opinberar stofnanir. Við erum með bæði stórar stofnanir sem hafa enga stjórn og við erum með smáar stofnanir, tiltölulega litlar stofnanir sem eru kannski með fimm manna stjórnir. Það er ekkert samræmi í þessu. Svo er náttúrlega eitt enn að stundum kýs Alþingi hlutastjórnir eða stjórnirnar alveg. En ábyrgðin er síðan hjá ráðherra bæði á stofnuninni og jafnvel því starfsfólki, forstöðumönnum stofnana sem þingkjörnar stjórnir kjósa þannig að þetta er nú sérmál sem þyrfti að taka á. Það hefur orðið niðurstaða og samkomulag milli þeirra aðila sem sömdu fyrst frv. og síðan auðvitað við ráðherrann sem flytur frv., hvernig þessi stjórn skuli skipuð. Ég tel það vel ásættanlegt eins og það er og hef ekki af því sömu áhyggjur og hv. þm. sem hér hafa talað í þessari umræðu.

Að lokum, hæstv. forseti, aðeins tvö eða þrjú orð um efni 17. gr. frv. sem hv. þm. bað mig að hlusta sérstaklega á varðandi það að eyða ekki að óþörfu eða spilla gróðri með mosa-, lyng- eða hrísrifi. Ég tek fyllilega undir það sem kom fram í máli hv. þm. og ítreka aðeins það sem hún minnti líka á og vísa til þess sem kom fram í svari mínu við fyrirspurn sem borin var nýlega fram í þingi af því ég sé að ég hef ekki tíma til að rifja það hér upp aftur.