Minning Davíðs Ólafssonar

Mánudaginn 02. október 1995, kl. 14:10:15 (3)

1995-10-02 14:10:15# 120. lþ. 0.91 fundur 19#B minning Davíðs Ólafssonar#, Aldursforseti RA
[prenta uppsett í dálka]

Aldursforseti (Ragnar Arnalds):

Davíð Ólafsson, fyrrverandi alþingismaður og seðlabankastjóri, andaðist í Landakotsspítala 21. júní síðastliðinn. Hann var á áttugasta aldursári.

Davíð Ólafsson var fæddur í Bakkagerði í Borgarfirði eystra 25. apríl 1916. Foreldrar hans voru hjónin Ólafur Gíslason verslunarstjóri þar, síðar framkvæmdastjóri í Viðey, og Jakobína Davíðsdóttir húsmóðir. Hann stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík, lauk stúdentsprófi 1935. Á árunum 1935--1939 nam hann hagfræði við háskólana í Kiel og München í Þýskalandi og lauk hagfræðiprófi í Kiel 1939. Hann var síðan forseti Fiskifélags Íslands og fiskimálastjóri 1940--1967. Bankastjóri Seðlabanka Íslands var hann 1967--1986.

Á Davíð Ólafsson hlóðst fjöldi starfa jafnframt þeim föstu störfum sem nefnd voru og hann sinnti ríflega hálfan fimmta áratug og verður fátt eitt talið hér. Hann var í stjórn Bjargráðasjóðs 1940--1967, í stjórn Hlutatryggingasjóðs sjávarútvegsins, síðar Aflatryggingasjóðs, 1949--1967. Í bankaráði Framkvæmdabanka Íslands var hann 1961--1966 og í stjórn Framkvæmdasjóðs 1966--1968. Formaður stjórnar Fiskveiðasjóðs Íslands var hann 1967--1986 og formaður stjórnar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins 1969--1986. Hann var í sendinefnd Íslands á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Róm 1955 um verndun lífrænna auðæfa hafsins og í sendinefnd Íslands á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf 1958 og 1960 um réttarreglur á hafinu. Hann var fyrsti stjórnarformaður Stofnunar Sigurðar Nordals á árunum 1984--1988.

Davíð Ólafsson sat á Alþingi á kjörtímabilinu 1963--1967. Hann var á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og hlaut sæti landskjörins þingmanns. Undir lok kjörtímabilsins í apríl 1967 afsalaði hann sér þingmennsku vegna skipunar í starf seðlabankastjóra. Kjörtímabilið 1959--1963 var hann varaþingmaður Reykvíkinga og tók tímabundið sæti á öllum þingum tímabilsins, átti því sæti á átta þingum alls.

Davíð Ólafsson var að loknu háskólanámi kvaddur til ábyrgðarstarfa fyrir íslenskan sjávarútveg. Hann brást ekki því trausti sem honum var sýnt, um það bera vitni þau miklu aukastörf sem honum voru falin á langri starfsævi. Hann átti ekki lengi setu á Alþingi en vann hér sem annars staðar af alúð og samviskusemi, gjörhygli og réttsýni. Löngu fyrr hafði gætt áhrifa hans á störf Alþingis vegna nefndarstarfa að undirbúningi lagafrumvarpa og ráðgjafar við undirbúning ráðstafana í efnahags- og sjávarútvegsmálum. Vegna mannkosta sinna auðnaðist honum að ljúka árangursríku starfi um ævidagana. Í hléum frá annasömu starfi stundaði hann ferðalög. Hann var forseti Ferðafélags Íslands hátt í áratug, stundaði göngur, ferðaðist víða og varð gjörkunnugur byggðum og óbyggðum landsins. Síðustu æviárin vann hann að rannsóknum á sögu landhelgismála Íslands um miðbik þessarar aldar.

Ég vil biðja þingheim að minnast Davíðs Ólafssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]