Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 12:21:35 (52)

1995-10-05 12:21:35# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í ræðu sinni áðan minntist hæstv. heilbrrh. á mjög jákvæð áhrif reglugerðar um svokallað viðmiðunarverð lyfja eða ,,prís referens-kerfi``. Ég lýsi ánægju minni yfir því að hæstv. heilbrrh. skyldi hafa lokið því verki að gefa þá reglugerð út en hún hafði verið í vinnslu í eitt og hálft ár í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og hafði verið boðað að mundi taka gildi á þessu ári. Hæstv. heilbrrh. lauk því verki og hún staðfesti í orðum sínum hér áðan að sú reglugerð hafi skilað tilætluðum árangri og er það sjálfsagt í fyrsta skipti sem við hæstv. heilbrrh. höfum orðið sammála um aðgerðir í lyfjamálum og ég er mjög ánægður yfir því að hún skyldi fylgja í mín fótspor.

Hins vegar verð ég að segja eins og er að af þeim ,,samlede værker`` sem við hana eru kennd í tíð síðustu ríkisstjórnar átti ég nú von á öðru en það yrði hennar fyrsta verk í sambandi við lyfjamálin að leggja til að ákvæðum um frjálsa samkeppni í lyfjaverslun yrði frestað. Ég hélt að hún mundi taka til hendinni til þess að leiðrétta bág kjör gamla fólksins, barnafólksins, sjúklinganna og þeirra sem hún var þeirrar skoðunar á síðasta ári að hefðu ekki lengur efni á að kaupa sér lyf en það hefur hæstv. heilbrrh. ekki gert. Þetta er hennar fyrsta verk.

Sú umræða sem hér hefur farið fram um aukið frjálsræði í lyfjaverslun minnir mig á umræðu sem fór fram fyrir nokkrum árum þegar til stóð að vinna þá óhæfu að heimila almennum matvörukaupmönnum að versla með mjólkurvörur. Þá var skipulagið þannig að ef t.d. reykvískir borgarar ætluðu að kaupa sér í matinn urðu þeir að fara í sérstakar verslanir til að kaupa sér mjólk, sérstakar verslanir til að kaupa sér brauð og sérstakar verslanir til að kaupa sér aðra matvöru. Hvað mjólkurverslunina varðar var þetta ákveðið með einokunarfyrirkomulagi. Öðrum var bannað að versla með þessa mikilvægu vöru. Síðan tóku menn sig til og ákváðu að gera þá breytingu að auka frjálsræði í verslun með mjólkurvörur og heimila almennum matvöruverslunum að versla með þá viðkvæmu vöru. Andmælendahóparnir risu upp hver um annan þveran. Þeir lögðu m.a. áherslu á að þetta væri svo viðkvæm vara að almennum matvörukaupmönnum væri ekki treystandi til þess að sjá um að verslun með hana yrði eðlileg. Sérstaklega yrði þetta hættulegt gagnvart börnunum því að börn drykkju mikla mjólk eins og allir vita og það væri eiginlega heilsufarsleg vá gagnvart börnum þessa lands ef einokunarkerfi mjólkurverslananna yrði aflétt. Það var svo gert og allir vita niðurstöðuna af því. Það er ekki um það deilt lengur. En umræðan um aukið frjálsræði í lyfjaverslun á Íslandi hefur verið mjög þessu markinu brennd.

Hæstv. heilbrrh. hefur m.a. haldið því sjálf fram í viðtali í útvarpi að það sem fyrir mér hafi vakað með þeim tillögum sem ég gerði, studdur af fyrrv. ríkisstjórn, hefði verið að láta alls konar sjoppur hefja verslun með lyf og lyfseðilsskyldar vörur. Þar talaði hún gegn sinni eigin sannfæringu því að hún veit það að í þeim lögum sem nú hafa verið sett og eru í gildi eru gerðar strangari kröfur til þeirra sem hugsa sér að versla með lyf heldur en var í lögum áður fyrr. Það er síður en svo að sú breyting, sem hér er verið að gera og var gerð af hinu hv. Alþingi, sé þess eðlis að draga úr öryggi lyfjaverslunar heldur þvert á móti. Hins vegar er gert ráð fyrir því að fella niður þær girðingar sem reistar hafa verið utan um þessa verslun í því skyni að fá fram aukna samkeppni sem er öllum til góðs, ekki síst sjúklingunum. Menn gætu ímyndað sér ef sá háttur væri t.d. hafður á í matvöruverslun sem verslar með þýðingarmiklar vörur ekkert síður en lyfjaverslun, að t.d. í Breiðholti mætti bara vera ein matvöruverslun, í Vesturbænum ein, í miðbænum ein, í Grafarvoginum ein, í Mosfellsbæ ein. Hvað halda menn að verðið á matvöru yrði í landinu ef slíkt kerfi væri í gildi? Slíkt kerfi er í gildi í lyfjaverslun og hér er verið að gera tillögur um að breyta því.

Hæstv. heilbrrh. og hæstv. forsrh. hafa sagt að heilbr.- og trmrn. hafi kastað höndum til gerðar þess frv. sem hér var afgreitt á Alþingi vegna þess að því hefði nokkrum sinnum verið breytt síðan. Bráðabirgðalög um breytingu á lyfjalögum nr. 93/1994 voru gefin út þann 28. júlí 1994. Í þeim bráðabirgðalögum segir, með leyfi forseta:

,,Heilbr.- og trmrh. hefur tjáð mér, að við þingmeðferð lyfjalaga, nr. 93/1994, hafi verið ákveðið að fresta gildistöku VII. kafla laganna um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi og XIV. kafla laganna um lyfjaverð til 1. nóvember 1995 ... Á hinn bóginn láðist að framlengja gildistíma sambærilegra ákvæða í IX. kafla lyfjalaga, nr. 108/1984, um verðlagningu lyfja og lyfjaverðlagsnefnd og ákvæða í II., III. og VI. kafla laga um lyfjadreifingu ... Því ber brýna nauðsyn til að breyta 45. gr. lyfjalaga`` o.s.frv. með hliðsjón af því sem að framan var rakið.

Hvernig geta menn kennt heilbr.- og trmrn. um að þessar breytingar skyldi hafa þurft að gera með þessum hætti? Ástæðan var einfaldlega sú að Alþingi yfirsást að þessar breytingar þyrfti að gera jafnhliða frestuninni og heilbr.- og trmrh. lagfærði það.

Með sama hætti kom fram í heilbr.- og trn. að hún var andvíg því að heimilaðar yrðu sjónvarpsauglýsingar á svokölluðum lausasölulyfjum og nefndarmenn tóku það fram að kæmi í ljós að einhver vafi ríkti á því banni síðar óskaði nefndin eftir því að það yrði þá fest í lögum að slíkar auglýsingar í sjónvarpi væru bannaðar. Það kom í ljós að það orkaði tvímælis hvort hægt væri að banna slíkar auglýsingar án skýrra lagafyrirmæla og því var farið að þeirri tillögu nefndarmanna að lögum væri breytt með þessum hætti. Er það vegna handabakavinnubragða heilbr- og trmrn.? Auðvitað ekki.

Ég vildi gjarnan að hæstv. forsrh. heyrði þau orð mín ef hann er enn í þinghúsinu. Það skiptir talsvert miklu máli hvort menn eru að gera slíkar breytingar eins og ég hef nefnt til þess að leiðrétta annars vegar mistök sem orðið hafa við afgreiðslu Alþingis eða að ná fram vilja þingnefndar ótvírætt í lögum sem hún hefur þó sjálf látið hjá líða að gera. Það eru talsvert öðruvísi breytingar, virðulegi forseti, en þær að gerbreyta með stuttum fyrirvara starfsumhverfi heillar atvinnugreinar eins og nú er verið að gera.

Við skulum þá aðeins líta á rökin sem komið hafa fram frá hæstv. ráðherra um nauðsyn þess að fresta lengur en til 1. nóvember tveimur köflum í gildandi lögum, en hæstv. ráðherra segir m.a. að ástæðan sé sú að ekki sé búið að ljúka við samningu reglugerða sem verið er að vinna að. Og nú bið ég hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að hlusta. Það hefur verið gefið upp af heilbr.- og trmrn. hvaða reglugerðir þetta eru. Þetta er í fyrsta lagi reglugerð um framleiðslu lyfja og reglur um góða framleiðsluhætti. Sú reglugerð varðar XII. kafla gildandi lyfjalaga um framleiðslu lyfja og ég spyr, er hæstv. ráðherra að gera tillögu um að gildistöku þess kafla verði frestað af því það vanti reglugerðina? Nei. Hún er að gera tillögu um það að XIV. kafla og VII. kafla sé frestað. Hvað varðar þessi reglugerð þá kafla? Ekki neitt. Reglugerð nr. 2, sem enn er ókomin, er reglugerð um heildsölu lyfja. Sú reglugerð varðar XI. kafla laganna um innflutning og heildsölu lyfja. Er hæstv. ráðherra að gera tillögu um það að þeim kafla skuli frestað af því að reglugerðin er ekki enn til? Svarið er nei. Hún er ekki gera það. Kemur þessi reglugerð eitthvað við þeim tveimur köflum í lögunum sem hún gerir tillögu um að frestað verði lengur? Svarið er nei. Þriðja reglugerðin sem enn er ókomin, er reglugerð um klínískar lyfjatilraunir. Sú reglugerð varðar IV. kafla umræddra laga, þ.e. flokkun lyfja, staðfesting lyfja, forskrift og skráning sérlyfja. Varðar sú reglugerð þá tvo kafla laganna sem hæstv. ráðherra vill fresta lengur? Svarið er nei. Þessi reglugerð kemur þeim ekkert við. Í fjórða lagi er ókomin reglugerð um skráningu og/eða veitingu markaðsleyfa fyrir náttúrulyf, hómópatalyf, bætiefni, svo sem vítamín og steinefni og hvaða vörur eru undanþegnar ákvæðum um skráningu og markaðsleyfi. Fjallar þessi reglugerð um efni þeirra kafla laganna sem beðið er um að frestað verði lengur? Svarið er nei. Síðasta reglugerðin sem er ókomin er reglugerð um litarefni í lyfjum. Varðar hún ákvæði gildandi laga um frjálsa verðlagningu lausasölulyfja eða um aukna samkeppni í smásölu? Svarið er nei. Engin af þeim reglugerðum sem ókomnar eru samkvæmt upplýsingum heilbrrn. sjálfs varðar þá kafla laganna sem beðið er um frestun á. Ef hæstv. ráðherra hefur svona miklar áhyggjur af framkvæmd laganna vegna þessara reglugerða sem óframkomnar eru, af hverju leggur hún þá ekki til að þeir kaflar laganna sem þessar reglugerðir varðar sé frestað? Af hverju leggur hún til að köflum eða tveimur köflum í lögunum sem koma þessari reglugerð nákvæmlega ekkert við sé frestað? Á því er engin haldbær skýring, á því hefur hún ekki sett fram neina skýringu því að hún er einfaldlega ekki til. Hæstv. ráðherra segir líka að hún hafi nokkrar áhyggjur og vilji fá að sjá framþróun auglýsinga, frjálsra auglýsinga um lausasölulyf. Þess vegna vilji hún fresta VII. og XIV. kafla laganna. Auglýsingar eru í VI. kafla umræddra laga sem fjallar um auglýsingu lausasölulyfja. Og ég spyr, ef hæstv. ráðherra hefur svona miklar áhyggjur af framkvæmd þess kafla, af hverju leggur hún þá ekki til að honum sé frestað frekar en einhverjum allt öðrum köflum. (Heilbrrh.: Hvaða kafla?) Hvaða kafla? Hæstv. ráðherra hlýtur að vita það, hann hlýtur að þekkja lögin, hann hlýtur að vita um aðra kafla laganna heldur en bara þá kafla sem að virðast varna honum svefns. Þannig að hæstv. ráðherra hlýtur að lenda í erfiðleikum með að útskýra að þau áhyggjuefni sem hæstv. ráðherra hefur, varða alla aðra kafla í lyfjalögunum en þá sem hann vill fresta. En niðurstaða ráðherrans er að hann vill fresta þeim köflum sem áhyggjur hans varða ekki nokkurn skapaðan hlut en halda í gildi þeim köflum lyfjalaganna sem að ýmist heilbrrn. hefur ekki lokið samningu reglugerðar við eða valda hæstv. ráðherra sérstökum áhyggjum.

Hæstv. ráðherra tengir líka þessa tillögu sína því að hún eigi eftir að fá álit nefndar sem var sett til þess fyrst og fremst að kynna sér hvaða áhrif EES-samningarnir m.a. um aukið frelsi til innflutnings og til innflutnings fram hjá einkaumboðsmannakerfinu hafa haft. Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra. Ef reynslan verður sú að væntingar EES-samningsins um samhliða innflutning lyfja ganga eftir, hvaða áhrif hefur það á VII. og XIV. kafla lyfjalaga um frelsi í smásöluverði og um frjálsa verðlagningu á lyfjum í lausasölu? Hefur það einhver áhrif, þ.e. ef EES-væntingarnar ganga eftir, hyggst ráðherra þá gera einhverja breytingu á þessum köflum eða hefur það einhver áhrif á þessa kafla? Auðvitað ekki. Ef EES-væntingarnar ganga ekki eftir, þ.e. áhrifin verða ekki þau sem menn vonast til, hvaða þýðingu hefur það fyrir þá tvo kafla sem hæstv. ráðherra vill fresta? Það er ekki heil brú í röksemdafærslu hæstv. ráðherra fyrir beiðninni um frestun. Í þeirri röksemdafærslu er ekki heil brú, þannig að það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt, þetta eru hreinir duttlungar í höfði hæstv. ráðherra. Út af fyrir sig getur maður vel skilið það. Miðað við þau ummæli sem hún hafði um þetta frv. á sínum tíma að þá langar hana þó ekki væri nema til þess að geta dregið eitthvað í gildandi lögum um einhverjar vikur eða daga. Það er svona til þess að sætta hana sjálfa við það, að það skuli hafa verið samþykkt lög um verslun með lyf á Íslandi sem hún er ekki sátt við. Og frestur er á illu bestur, ekki satt, og fyrir því þarf hæstv. ráðherra svo sem ekki að hafa nein rök.

En það er annað, ég vil þá ljúka máli mínu, virðulegi forseti, með því að kíkja hér aðeins í fjárlögin. Hér segir á bls. 325: ,,Áformað er að lækka útgjöld sjúkratrygginga um 880 millj. kr. Þar af eru áform um að Framkvæmdasjóður aldraðra fjármagni 330 millj. af rekstri hjúkrunarheimila, lyfjaútgjöld sjúkratrygginga verði lækkuð um 330 millj. kr. í kjölfar nýlegra reglna um viðmiðunarverð lyfja og að ekki fari saman greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar og skráning nýrra lyfja til sölu á innlendum markaði.`` Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir því í fjárlögunum fyrir næsta ár að þessi ákvæði séu í gildi um að ekki fari saman greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar og skráning nýrra lyfja til sölu á innlendum markaði.Til þess að þetta geti orðið þarf hæstv. ráðherra lagaheimild. Og það vill svo til að lagaheimildin fyrir þessu er í 41. gr. gildandi lyfjalaga í XV. kafla um lyfjaverð. Hæstv. ráðherra er að óska eftir því við þingið að það fresti framkvæmd þessarar greinar, jafnvel þannig að það sé ekki ljóst ef hægt er að ráða í hennar mál, hvort þessi grein fái nokkurn tímann lagastoð. En á sama tíma boðar hún sjálf í greinargerð með fjárlagafrv. í kafla um heilbrigðis- og tryggingamál að það sé gert ráð fyrir því að þetta ákvæði í 41. gr. sé gildandi allt fjárlagaárið. Það er afskaplega kristilegt að lifa með því hugarfari að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir. En mér er spurn, urðu ráðherranum á sinnaskipti? Og í hvora átt eru þau sinnaskipti? Þegar hún lagði fram frestunarfrv. sitt hér í morgun hafði hún þá skipt um skoðun frá þeirri skoðun sem hún hafði þegar gengið var frá greinargerð heilbr.- og trmrn. í fjárlagafrv. eða sást henni yfir það þegar hún lagði fram frv. sitt til breytingar á lyfjalögum í morgun að þar var hún að gera breytingar eða leggja til á Alþingi að gerðar yrðu breytingar á áformum sem hún sjálf hafði skrifað undir að hún hefði uppi í fjárlagafrv.

Virðulegi forseti. Ég sé engin rök fyrir því að fresta gildistöku þessara tveggja kafla í gildandi lyfjalögum aðra en duttlunga hæstv. ráðherra. Hæstv. forsrh. sem var eins konar aðstoðarráðherra heilbrigðismála hér áðan og kom til að hjálpa ráðherra sínum og það er fallega gert, er nú að vísu farinn úr húsi þannig að ég haga þá orðum mínum eitthvað svolítið öðruvísi en heldur en ég ella myndi gert hafa ef aðstoðarráðherrann hefði verið við. En ég verð nú bara að segja eins og er að ég tel alveg nóg að láta eftir svona duttlungum, já svona fram undir áramótin, en að bregða á það ráð að fresta gildistöku um aukið frelsi í lyfsölu og frjálsri verðákvörðun lausasölulyfja í átta mánuði út af órökstuddum duttlungum hæstv. ráðherra, það finnst mér of langt gengið. Og mér finnst nú að ábyrgari Sjálfstæðismenn ættu að skoða málið í því samhengi.