Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 12:42:24 (53)

1995-10-05 12:42:24# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þetta er orðin ágætis umræða um þetta mál og við höfum, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, oft rætt þessi mál. Og mér hefur alla tíð verið ljóst að hv. þingmenn Alþfl. myndu ekki sætta sig við frestun, þó svo að full rök séu fyrir frestun gildistöku þessara laga. Og það er ekkert sem hér hefur komið fram sem kemur mér neitt á óvart. Þetta hefur allt saman verið rætt, margsinnis. Og alla tíð hefur hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talað um lyf bara eins og skyr og rjóma og það sé enginn munur á sölu þessara vara. Það er heldur ekkert nýtt. Það sem er kannski nýtt í umræðunni og ég vil aðeins koma hér inn á, svona í blárestina, varðandi margumræddar reglugerðir er að ég tel að þeir aðilar sem vinna að þessari reglugerðarsmíð innan heilbrrn. vinni mjög vel og eins hratt og mögulegt er. Margar reglugerðarsmíðanna eru þess eðlis að það þarf að bíða eftir tilskipunum frá EES. En þær eru sem sé að koma ein af annarri. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. síðasti ræðumaður Sighvatur Björgvinsson sagði hér áðan, að þær eru mjög misveigamiklar varðandi frestunartillöguna. Margar eru mjög veigamiklar, t.d. kafli varðandi auglýsingu á lyfjum sem tók gildi í júní sl. skiptir miklu máli (SighB: Ekki fyrir þá kafla frv. sem þú ... ) Það skiptir mjög miklu máli einmitt fyrir þá kafla og nú ætla ég að rökstyðja það. Um leið og við erum að auka frelsi varðandi auglýsingu á lausasölulyfjum erum við jafnframt að auka frelsi á sölu lyfja og það hlýtur að magna auglýsingarnar. Þess vegna er mjög gott að taka skrefin hægt. Reglugerð um auglýsingar tók fyrst gildi í júní. Varðandi samhliða innflutning þá skiptir það líka máli varðandi gildistöku laganna. Og líka varðandi markaðsleið. Og það kemur fram í frumvarpi frá hv. fyrrv. ráðherra, Sighvati Björgvinssyni, svo ég lesi það bara orðrétt: ,,Markmiðið með frestun gildistöku framangreindra kafla lyfjalaga er að skapa svigrúm til þess að meta hvaða áhrif gildistaka annarra kafla laganna hefur.`` Og það eru einmitt áhrif þessara kafla og þessarar reglugerðar sem við erum að meta. Það kemur mér á óvart ef þessir átta mánuðir skipta svo miklu máli í hugum hv. alþýðuflokksmanna að þeir eru ekki tilbúnir til að standa við sín eigin orð varðandi þetta mál. Við höfum ekki boðað veigamiklar breytingar á lögunum, en við viljum fylgjast með áhrifum reglugerðanna og mig undrar að menn skuli ekki hafa þolinmæði til þess.

Margar spurningar hafa komið hér fram og sumar hafa svarað sér sjálfar. Eiginlega flestar. Kristín Ástgeirsdóttir bar fram spurningu áðan varðandi 2. gr. frv. Það er auðvelt að svara henni en í athugasemd við 2. gr. segir svo:

,,Hér er lögð til breyting á 10. gr. laganna sem fjallar um útgáfu sérleyfaskrár. Kveðið er á um að heilbr.- og trmrn. geti falið aðilum utan ráðuneytisins að annast alfarið útgáfu á slíkri skrá en slíkt fyrirkomulag tíðkast m.a. á öðrum Norðurlöndum.``

Því er til að svara að lyfjanefnd mun semja textann. Þetta er spurning um útgáfu, maður getur falið öðrum útgáfu.

Einnig fram í máli Kristínar að hún hefði áhyggjur af því að vissir aðilar í þjóðfélaginu hefðu fjárfest vegna þess að þeir búast við að þessi lög taki gildi 1. nóv. Í lögunum stendur að það skuli fá leyfi heilbrrn. og heilbrrn. skuli fá umsögn frá viðkomandi sveitarfélagi varðandi leyfið. Það hefur enginn aðili enn þá fengið þetta leyfi þannig að þetta er allt saman skýrt og mér finnst á þessari stundu að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta.