Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:36:50 (125)

1995-10-09 15:36:50# 120. lþ. 5.92 fundur 26#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. sjútvrh. þarf ekkert að undrast það að ég skuli spyrjast fyrir um hvað dvelji ,,Orminn langa``. Ég vitnaði í þingræðu fyrr á þessu fundi. Þann 15. júní sagði DV í fyrirsögn: ,,Einar Oddur Kristjánsson boðar endurskoðun fiskveiðistjórnar í haust.`` Þannig að það kom mönnum að sjálfsögðu mjög á óvart þegar sú endurskoðun sem boðuð var, og var látið ómótmælt af hæstv. sjútvrh. á sinum tíma, á ekki að fara fram. Það verður þá lítið sem stendur eftir af orðum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar og fleiri félaga hans en það er ekki mitt vandamál.

Ég er ánægður með það að hæstv. sjútvrh. telur koma til greina að leiðrétta þau mistök sem gerð voru við lagasetningu krókaleyfisbáta í sumar. Hann hefur hins vegar látið hjá líða að lýsa því yfir að hann muni hafa frumkvæði um það. Ef það verður ekki, þá er ekki um annað að ræða en gera eins og hv. formaður sjútvn. sagði, að taka málið upp í nefndinni og leiðrétta það þar. Og það verður gert ef frumkvæðið kemur ekki frá hæstv. sjútvrh.

En ég vil láta það koma fram að það var fleira en þetta eina atriði sem sjútvrh. hæstv. nefndi um tímasetninguna 1997 í staðinn fyrir 1996 sem voru mistök við þetta mál. Og það er fleira í framkvæmdinni sem hefur gengið gegn yfirlýsingum stjórnarsinna svo sem að lágmarkssóknardagafjöldi skuli vera 82 í stað 86 sem gengur þvert gegn yfirlýsingum varaformanns sjútvn. úr þessum ræðustól. Það eru því a.m.k. fjögur ef ekki fimm atriði sem þarf að leiðrétta í þeirri afgreiðslu sem gerð var í vor og ég ítreka það að hafi hæstv. sjútvrh. ekki frumkvæði í málinu, þá mun ég gera það í samráði við hv. formann sjútvn. í nefndinni. Frá öðrum nefndarmönnum kemur það ekki, þaðan komu innantóm orð sem ekkert er að marka.