Staða geðverndarmála

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 16:54:00 (177)

1995-10-10 16:54:00# 120. lþ. 6.91 fundur 31#B staða geðverndarmála# (umræður utan dagskrár), ÁÞ
[prenta uppsett í dálka]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil eins og menn á undan mér þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að hafa vakið þessa utandagskrárumræðu um málefni geðsjúkra og geðfatlaðra á þessum fyrsta alþjóðadegi sem minnst er þessara mála á Íslandi. Um leið vil ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þennan alþjóðadag þar sem sérstök athygli verður vakin á stöðu þessa hóps í þjóðfélaginu, bæði á Alþingi og með öðrum hætti.

Mörg okkar áttum þess kost í gær að sitja þing Barnaheilla þar sem var tekið á málefnum barna almennt og þar komu málefni barna og unglinga með geðheilbrigðisvandamál mjög til umfjöllunar. Það var fjallað m.a. um ástand mála á sjúkrahúsum á barna- og unglingageðdeildinni sem er orðin 25 ára gömul og hefur ekki náð að þróast í takt við breyttar áherslur í þessum málum og hefur enn fremur þurft að sæta miklum lokunum eins og reyndar aðrar heilbrigðisstofnanir.

Það hefur verið minnst á fyrirlestur Valgerðar Baldursdóttur barnalæknis á barna- og unglingageðdeildinni þar sem hún vakti athygli á stöðu barna með geðræn vandamál. Ég mun ekki endurtaka það hér en þó langar mig til þess að staldra við einn hóp sem ekki hefur verið talað um, hvorki í gær á málþingi Barnaheilla né hér í sal Alþingis og það eru bæði börn og fullorðnir, þroskaheftir með miklar atferlistruflanir og geðræna sjúkdóma. Þessi hópur hefur hvergi átt í hús að venda og hefur reyndar sætt þeirru skammarlegu meðferð að margar heilbrigðsstofnanir hafa synjað honum um meðferð og inntöku þar til þess að sinna honum. Ég vona að hæstv. heilbrrh. sjái sér fært að beita sér þannig að þessi hópur verði með í umræðunni. (Forseti hringir). Ég mun reyna að stytta mál mitt og ljúka því mjög hratt. Ég verð samt að játa það að ég saknaði þess í dag að hæstv. félmrh. skuli ekki vera til staðar. Málefni geðfatlaðra eru vissulega heilbrigðismál en þau eru ekki síður félagslegs eðlis og ég mun vonandi fá tækifæri til að víkja að því síðar hér á eftir.