Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 11:27:43 (227)

1995-10-12 11:27:43# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hlýtur auðvitað að valda vonbrigðum að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem er tiltölulega nýkomin á þing, skuli hlaupa í sama farið og hæstv. félmrh. og grípa til þess óyndisúrræðis að drepa þessu máli á dreif á þeim grundvelli að þetta mál eigi ekki hér heima vegna þess að nú sé forræði þess á hendi Framsfl. í félmrn. Með öðrum orðum, full af afbrýðissemi og einhvers konar óskilgreindri öfund yfir því að það skuli vera annarra flokka þingmenn sem taka frumkvæði í þessu máli. Þetta er auðvitað ekkert annað en afbrýðissemi og það svarar okkur hv. þm. engu í þessum efnum þegar það liggur fyrir að sú tillaga, sem hér er lögð fram, er afrakstur 3--4 ára vinnu fjölmargra aðila, fulltrúa 30 hópa og félagasamtaka. Málið er með öðrum orðum mjög vel ígrundað og það svarar nákvæmlega engu um efni málsins að hæstv. félmrh. skuli nú setja á nefnd til þess að fara í gegnum þetta plagg hér og nú. Það á auðvitað að vera verkefni félmn. þingsins. Hún er fullfær um að sinna því og við þurfum enga nýja þriggja manna nefnd af hálfu hæstv. fémrh. til þess að gera það með fullri virðingu fyrir væntanlegum formanni þeirrar nefndar. Við erum fullfær um það á hinu háa Alþingi að fara efnislega í gegnum það mál. Það er hér á þskj. og hv. fémn. getur farið í gegnum það og við skulum ljúka þessum málum og helst fyrir jól.