Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 12:08:29 (236)

1995-10-12 12:08:29# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um að hann hafi fundið mótsögn í mínum málflutningi, að ég hafi annars vegar viljað styrkja fjölskylduna og hins vegar bent á að innan veggja fjölskyldunnar eigi sér oft stað ákveðin kúgun, þá vil ég ítreka það að ég held að þetta hafi verið réttur skilningur hjá þingmanninum en ég held að þetta sé ekki óleysanlegur vandi. En hann er því miður staðreynd nú í okkar þjóðfélagi. Ef við lítum á tölur um hvort sem er heimilisofbeldi eða morðmál þá eiga þau sér langoftast stað innan fjölskyldunnar. Mín skoðun og skoðun Kvennalistans almennt er sú að ef allir einstaklingar fjölskyldunnar eru virtir, hvort sem það eru börnin, konurnar eða karlarnir, í atvinnulífinu eða í skólanum og líður vel í því sem þeir eru að gera, þá aukist líkurnar á því að innan fjölskyldunnar skapist sú uppbyggilega heild og það tilfinningathvarf sem við viljum öll að fjölskyldan sé. Ég held því að meðan búið er eins illa að fjölskyldunni og nú er, þá er þetta því miður staðreynd. Þess vegna er grundvallaratriði að í fjölskyldustefnu sé gengið út frá jafnrétti kynjanna eins og Svíar höfðu vit á að gera 1968. Ég vil því nota tækifærið, því að mér láðist að geta þess áðan, að ég fagna því að í þessari tillögu er ein fosenda hennar að það eigi að ganga út frá jafnrétti kynjanna og sameiginlegri ábyrgð á verkaskiptingu innan fjölskyldunnar.