Ólöglegur innflutningur fíkniefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 15:00:46 (269)

1995-10-12 15:00:46# 120. lþ. 9.6 fundur 62. mál: #A ólöglegur innflutningur fíkniefna# þál., LB
[prenta uppsett í dálka]

Lúðvík Bergvinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka flm., þetta er þarft mál og gott að það skuli vera tekið fyrir á þingi og í framhaldi af fyrri umræðu hér í dag um fjölskyldumál, því eitt það versta sem fjölskyldur getur hent er að fíkniefnaneyslan færist inn á heimilin. Mig langar til að taka undir það sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði hér áðan. Það er umdeilanlegt hvort það sé rétt að hækka refsinguna í sextán ár. Það er nú einu sinni svo hjá dómstólum hér á landi að dómarar nota refsirammann yfirleitt lítið. Lengsta fangelsisrefsing sem ég man eftir er sjö ár í svokölluðu stóra fíkniefnamáli. Það er því umdeilanlegt hvort að þar felist einhver leiðbeining fyrir dómara því að þeirra er að kveða á um refsinguna. Eins vil ég benda á að í tillöguflutningnum er lagt til að brotamenn verði undir eftirliti þar til að dómur gengur í máli þeirra.

Það er nú einu sinni svo að það er dómara að kveða á um sekt eða sýknu og það getur verið erfitt að hafa þá undir eftirliti þar til dómur gengur. En ég vil lýsa ánægju minni með tillöguna, þetta er eitt mesta böl sem yfir þjóðina dynur. Það er þó einn þáttur í þessu sem sjaldan eða kannski aldrei hefur verið nefndur. Það er ákveðin peningaþörf í samfélaginu til að fjármagna afbrot. Hún er vissulega til staðar. Eftir að svokölluð debetkort voru tekin í notkun hefur eðli brota breyst. Áður fyrr voru menn meira í því að falsa ávísanir og þótt það sé út af fyrir sig afleitt að menn séu að falsa ávísanir og það sé lögbrot, þá er nauðsynlegt að benda á að eftir að debetkortin komu til þá hefur það gert brotamönnum mun erfiðara um vik að fjármagna sína neyslu. Þið hafið orðið vör við það í fjölmiðlum að innbrot og rán eru að verða mun algengari en þau voru. Og það er vitaskuld bara afleiðing af því að þörfin fyrir fjármögnun er söm og áður en henni hefur verið beint í annan farveg og þetta er mjög alvarlegt mál.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, þótt þetta sé í raun og veru efni í langt mál. En ég vil þakka flm. fyrir að bera þetta mál fram á Alþingi.