Forsendur Kjaradóms og laun embættismanna

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 15:15:33 (284)

1995-10-16 15:15:33# 120. lþ. 10.1 fundur 35#B forsendur Kjaradóms og laun embættismanna# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það þarf ekki að koma mönnum á óvart að laun embættismanna ríkisins séu nokkuð sérstök og samanburður á launum þeirra og til að mynda ráðherra sé nokkuð sérstakur. Þegar Kjaradómur kvað upp sinn fyrri úrskurð 1992, þá fólst í úrskurðinum m.a. tilraun dómsins til þess að lækka tiltekna embættismenn og embættisheiti niður fyrir ráðherra. En þessu var síðan öllu breytt með bráðabirgðalögum þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat og síðan á þinginu sjálfu eins og menn vita þannig að þessi munur hélst áfram. Það var haft á orði að þar væri lyft loki af potti og menn urðu að setja lok yfir þann pott eins fljótt og þeir gátu aftur þegar þessi umræða var uppi. Ég hygg að það sé rétt hjá hæstv. fjmrh. að það eigi ekki að birta lista með nöfnum einstaklinga en það út af fyrir sig, eins og hann nefndi, hægt að finna aðrar leiðir til þess að þessar tölur komi fram.

Ég hef séð slíkan lista og bað reyndar sérstaklega um slíkan lista af því að ég vildi gjarnan sjá til að mynda hvar forsrh. væri á listanum. Þá var mér sagt að 100 manna listi dygði ekki til þess að forsrh. kæmist á blað sem er út af fyrir sig athyglisvert. Og mér er óhætt að segja það hér að á 250 manna slíkum lista komast aðeins tveir eða þrír ráðherrar á blað. Slíkur listi er til og forsrh. sem undirritar eiðstaf og trúnað getur haft slíkan lista í sínum fórum þó að hann sé ekki birtur opinberlega.

En ég tel reyndar líka að það sé ljóst að Kjaradómur hafði ekki slíkan lista þegar hann kvað upp sinn úrskurð eftir því sem ég best veit. Ég hef hins vegar borið fram þau tilmæli að Kjaradómur birti þær forsendur sem hann hefur fyrir sínum niðurstöðum og get tekið undir sjónarmið forustumanna launþegahreyfingarinnar í þeim efnum. Ég veit ekki annað en Kjaradómur muni koma saman og taka þau tilmæli fyrir.