Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Mánudaginn 16. október 1995, kl. 17:16:01 (313)

1995-10-16 17:16:01# 120. lþ. 12.1 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var athyglisvert að hlusta á svör hv. þm. því í raun og veru komu þau alls ekki fram. Það er dálítið sérstakt að hlusta á hv. þm. Þjóðvaka segja það aftur og aftur að þeir séu tilbúnir til að styðja löggjöf sem ríkisstjórnin beiti sér fyrir til að breyta niðurstöðu Kjaradóms. Þeir ætla að bíða eftir því að athuga hvað ríkisstjórnin hyggist gera. Er það svo að hv. þm. Þjóðvaka ætli að gera þetta í fleiri málum? Ætla þeir að bíða eftir ríkisstjórninni með stefnumótun sína, bíða þar til ríkisstjórninni þóknast að koma fram með sína stefnu? Eða gildir þessi ofurást eða ofurtraust á ríkisstjórninni í fleiri málaflokkum en þessum?

Ég spurði hv. þm. einnar spurningar. Hún var afskaplega einföld. Ef hv. þm. vill ekki hlíta kjaradómsniðurstöðunni, en Kjaradómur starfar samkvæmt lögum sem hv. þm., þá sem ráðherra í ríkisstjórn, barðist fyrir að lagt yrði fram hér frv. á sínum tíma og samþykkti það, hvernig vill hún þá fá fram niðurstöðuna? Vill hún að þingmenn ákveði laun sín sjálfir eða vill hún einhverja aðra leið? Eða ætlar hún bara að svara eins og hún svarar alltaf að hún ætli að bíða eftir því hvað ríkisstjórnin vilji gera og þá skuli hún koma fram með sín sjónarmið. Það væri þá líka fróðlegt að vita hvort hún ætli að gera það í fleiri málum.